Skírnir - 01.04.1995, Blaðsíða 72
66
GUÐMUNDUR JÓNSSON
SKÍRNIR
Þjóðernisstefnan er ekki heildstæð pólitísk hugmyndafræði á
sama hátt og jafnaðarstefna eða borgaraleg frjálshyggja. Hún er í
eðli sínu hvorki vinstri né hægri sinnuð, en hún hefur tekið lit,
bláan, rauðan eða brúnan, af hinum stóru hugmyndastefnum 19.
og 20. aldar, eftir sögulegum kringumstæðum hvers samfélags.
Þessari hvikulu hugmyndastefnu hefur ýmist verið líkt við
kamelljónið eða amöbuna vegna þess hve breytileg að lit og lögun
hún er. Eða við rómverska guðinn Janus með andlitin tvö, annað
sem snýr fram og er tákn frelsis og framfara, hitt sem snýr aftur
og táknar hefð, fortíðarhyggju, íhaldssemi.2
Pólitísk grunnhugmynd þjóðernisstefnunnar er að hver þjóð
skuli ráða málum sínum sjálf, pólitískt fullveldi þjóðar sé í sam-
ræmi við náttúrulegt ástand hlutanna og tryggi betur en önnur
stjórnarform framfarir og velferð íbúanna.3 I efnahagslegri þjóð-
ernisstefnu er fólgið ákveðið grundvallarviðhorf sem kemur fram
í afstöðunni til eftirfarandi spurninga:
1) Hver eiga að vera efnahagsleg réttindi útlendinga í landinu?
Hversu greiðan aðgang á að veita þeim að atvinnulífinu ?
2) Hvaða viðskiptastefnu á að framfylgja gagnvart útlöndum, frí-
verslunarstefnu eða verndarstefnu?
3) Á efnahagslífið að laga sig á „óvirkan hátt“ að alþjóðlegri
verkaskiptingu og heimsmarkaðinum eða á að stefna að
„þjóðlegri uppbyggingu atvinnuvega" sem jafnan gerir ráð
fyrir pólitískri þátttöku eða stýringu?
2 Sjá til dæmis Eugene Kamenka, „Nationalism: Ambiguous Legacies and
Contingent Futures“, Political Studies XLI (1993) Special Issue, bls. 78-92. -
Sami (ritstj.), Nationalism. The Nature and Evolution of an Idea (London,
1973). - Anthony Smith, Theories of Nationalism (London, 1971).
3 Eða, með orðum Ernest Gellners, sú meginregla að menningarleg og pólitísk
landamæri fari saman, sbr. rit hans Nations and Nationalism (Oxford, 1983),
bls. 1. Vart þarf að útlista vandkvæðin á notkun þjóðarhugtaksins í almennu
sögulegu samhengi. Sums staðar í Evrópu voru þjóðir í merkingunni samfélög
með sameiginlegan menningararf afsprengi ríkisins en ekki öfugt, og er Frakk-
land gott dæmi þar um. Mikið af problematík þjóðarhugtaksins á ekki við um
íslendinga, 50 þúsund manna eysamfélag með ótvíræð landamæri, eina tungu
og fremur einsleita menningu. Hitt ber að hafa í huga að þjóðerni er sögulega
skilyrt menningarfyrirbæri; þjóðarvitund Islendinga, eins og við þekkjum
hana, hefur mótast á síðustu tveim öldum.