Skírnir - 01.04.1995, Blaðsíða 191
SKÍRNIR
ÚR ENEASARKVIÐU
185
kynlegan hátt, bleikri ásjónu sinni, afhjúpaði hin skelfilegu ölturu
og beraði brjóst sitt, með sverðsstungunni, og fletti þannig ofan
af hinum leynda glæp hússins. Hann ræður henni síðan að flýja
sem snarast föðurland sitt og vísar henni á farareyri, gamla fjár-
sjóði af gulli og silfri, sem höfðu lengi leynst í jörðu. Af þessu
varð Dídó mjög hrædd, bjó sig á flótta og leitaði sér förunauta.
Og þeir koma saman, sem báru hatur til grimmdar harðstjórans
eða óttuðust hann; þeir grípa skip, sem af hendingu voru sjóbúin,
og ferma þau gulli og flytja svo auðæfi hins ágjarna Pygmalíons
yfir hafið; kona stýrði þessu öllu. Þau komu á þær slóðir, þar sem
þú sérð nú hina háu múra og rísandi borgarvirki nýrrar Karþagó,
þau keyptu sér land og kölluðu það Byrsa, því þau keyptu sér svo
mikið land sem unnt var að afmarka með nautshúð. En hverjir
eruð þið og frá hvaða ströndum ber ykkur og hvert liggur leið
ykkar?“
Þegar hún spurði þessa, varp Eneas öndinni hryggur og svar-
aði henni svofelldum orðum:
„Ó, gyðja, ef ég ætti að rekja sögu vora frá upphafi og þú hefð-
ir tíma til að hlýða á annál rauna vorra, þá mundi Vesper fyrr láta
dag að kvöldi koma og læsa Ólympus. Frá gömlu Tróju, ef nafn
Tróju hefur nokkru sinni borið fyrir hlustir þínar, lét stormurinn
okkur berast að vild sinni um mörg höf og hingað að Líbýu-
ströndum. Ég er Eneas, trúfastur maður; húsgoðin hreif ég úr
óvinahöndum og flyt með mér á flota mínum, orðstír minn stígur
til himins. Ég leita Ítalíu sem föðurlands míns, þjóðar sem er
komin af Júpíter, æðstum guða. Á tveimur tugum skipa sigldi ég
yfir Frygíuhaf; móðir mín, gyðjan, vísaði veginn, ég lét forlögin
ráða; nú eru vart sjö skip eftir, brömluð af öldum og stormi.
Ókunnugur og þurfi reika ég um eyðilendur Líbýu, rekinn frá
Evrópu og Asíu.“
Venus afbar ekki að hlýða á frekari raunatölur og greip fram í
fyrir honum í miðri ræðunni og mælti:
„Hver sem þú ert, þá trúi ég því ekki að þú andir að þér
himnesku lífslofti að óvild guðanna, fyrst þú ert kominn til
Týrosborgar. Gakk nú héðan þína leið og að þröskuldi drottn-
ingar. Því ég færi þér þá fregn, að þú hefur heimt aftur förunauta
þína og flota þinn, sem hefur rekið hingað fyrir hagstæðum byr á