Skírnir - 01.04.1995, Blaðsíða 200
194
VIRGILL
SKÍRNIR
sér, gælir við hann og veit ekki hvílíkur guð sest í skaut hennar,
veslingnum. En hann, minnugur óska Akidalíu móður sinnar,
byrjar að víkja Sykkeusi smám saman úr huga hennar, og freistar
þess framar öllu að glæða óvænt með lifandi ást kenndir sem voru
fyrir löngu dánar í kulnuðu hjarta hennar.
En er ró færðist yfir eftir máltíðina og borð höfðu verið upp
tekin, koma þjónar fyrir stórum könnum og skreyta bikarana
með blómfléttum. Gerist nú hávært í höllinni og skvaldrið berst
um víð salarkynnin; ljósker hanga lýsandi ofan úr gullþiljuðu
lofti og logandi kyndlar vinna bug á nóttinni. Nú beiddist
drottningin þess að fá hina þungu skál úr gulli og gimsteinum og
hellti hana fulla af óblönduðu víni, eins og Belus og allir niðjar
hans höfðu fyrir sið; varð þá hljótt í höllinni:
„Júpíter, því hermt er að þér hafið gætur á gestarétti, lát nú
Týrverja og mennina, sem eru komnir frá Tróju, eiga glaðan dag,
lát niðja vora minnast hans. Hér sé Bakkus, sem færir gleði, og
hin góðviljaða Júnó; og þér, Týrverjar, fagnið nú heilshugar í
sameiningu."
Þetta mælti hún og dreypti víni á borðið til fórnar; að því
búnu snart hún það létt með vörum sínum og rétti það síðan Bití-
asi og örvaði hann snjöllum rómi; hann tæmdi djarflega freyðandi
skálina og drakk fullan gullbikar í botn; því næst kom röðin að
höfðingjunum. Þá leikur Jópas hinn lokkaprúði á gyllta hörpu;
hafði Atlas sterki kennt honum þá list. Hann syngur um slóðir
mánans og strit sólar, um upptök mannkyns og dýra, regns og
elds, syngur um Arktúrus, hinar vætusömu Hýades og báðar Trí-
ónes, og um það, hví sólirnar hafa svo mjög hraðan við á vetrum
að sökkva sér í úthafið og hvað veldur löngum nóttum.
Týrverjar fagna honum aftur og aftur með lófataki og eins
Trójumenn. En Dídó, hin ólánsama, dró nóttina á langinn með
samræðum og drakk í sig hina langæju ást; hún þráspurði margs
um Príamus og margs um Hektor; og um það, hvaða vopn sonur
Áróru hefði haft með sér, hvernig hestar Díómedesar hefðu verið,
um mikilleik Akkillesar. „Áfram nú, seg oss, gestvinur," biður
hún, „frá rótum allt um lymsku Danáa og ólán yðar og hrakning;
því komið er sjöunda sumar sem þér hrekist um lönd öll og höf.“