Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 22
16
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
áhugi ekki leitt til ákveðinnar niðurstöðu um viðfangsefnið -
þvert á móti, því meira sem rætt hefur verið um það og ritað, því
fjölbreyttari hafa viðhorf fræðimannanna orðið. I þeirri flóru
fræðirita og ritgerða sem komið hafa út undanfarin ár um efnið
má þó greina samstöðu um vissa þætti í sögu þjóðernis og
þjóðernisstefnu, eins og t.d. það að sem pólitískt fyrirbæri teljist
þjóðernisstefnan vera tiltölulega ný af nálinni. Þótt ekki ríki full
eining um nákvæman fæðingardag stefnunnar rekja flestir
uppruna hennar til síðari hluta átjándu aldar, eða til þeirra átaka
sem urðu um uppsprettu fullveldisins í frönsku byltingunni.26
Þessi niðurstaða hefur hins vegar ekki leyst þann vanda sem snýr
að uppruna og eðli þjóðernis, af því að eins og ýmsir fræðimenn
hafa bent á eru þjóð og þjóðernisstefna ekki sami hluturinn.27
Þannig er alls ekki nauðsynlegt að þjóðernisvitund - sú tilfinning
fólks sem býr á ákveðnum landsvæðum að það eigi eitthvað
sameiginlegt sem greinir það frá íbúum annarra landsvæða - leiði
óhjákvæmilega til þjóðernishyggju, eða til þeirrar trúar að þessi
hópur hljóti að krefjast pólitísks sjálfstæðis.28
I nýlegum fræðiritum um eðli og uppruna þjóðernisins hafa
tvær meginstefnur verið ríkjandi. Það sem greinir þær fyrst og
fremst að eru ólík viðhorf til uppruna þjóðernis, þ.e. hvort
þjóðerni skuli teljast nútímafyrirbæri eingöngu, eða hvort það sé
aðeins nýr angi samkenndar sem einkennt hefur mannleg
samfélög um aldir. I raun eru fylgismenn fyrri stefnunnar einung-
is ósamstæður hópur manna sem nefndir hafa verið „módern-
istar“ af andstæðingum sínum, á meðan fylgismenn hinnar síðari
26 Sjá t.d. Eugene Kamenka, „Nationalism: Ambigious Legacies and Contigent
Futures," Political Studies 42 (Special Issue, 1994), bls. 78-92 og A. D. Smith,
The Ethnic Origins of Nations (Oxford: Basil Blackwell, 1986), bls. 11. Sumir
líta á Englendinga sem þjóð þegar á sextándu öld, en telja þó að þar hafi verið
um algera undantekningu að ræða; Liah Greenfeld, Nationalism, 29-87.
27 Sjá t.d. John Keane, „Nations, Nationalism and Citizens in Europe,"
International Social Science fournal nr. 140 (1994), bls. 169-84 og Yoash
Meisler, „Nationology in Retrospect," History of European Ideas 14 (1992),
bls. 629-45.
28 Ernest Gellner, Nations and Nationalism (Ithaca: Cornell U.P., 1983), bls. 1
og Charles Tilly, Coercion, Capital, and European States, AD 990-1990
(Oxford: Basil Blackwell, 1990), bls. 114-17.