Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 207
SKÍRNIR
SAMRÁÐ, VIRÐING, VELFERÐ
201
mega líða bærilega. Þótt dauði hans sé ef til vill fyrirsjáanlegur er hann
ekki ásetningsverk á borð við beint líknardráp. Megingallinn við þessa
röksemd er aftur almenns eðlis.18 Flestir ntitíma siðfræðingar telja til
dæmis að forsvarsmenn efnaverksmiðju geti ekki leyst hendur sínar af
mengun sem verksmiðjan veldur eftir stækkun með því að benda á að
ætlunin með stækkuninni hafi einungis verið sú að auka hagsæld í sam-
félaginu þó að mengunin hafi verið fyrirsjáanleg aukageta. Eins og
Vilhjálmur orðar það svo ágætlega: Það er „fölsk réttlæting ef ekki
skálkaskjól að einskorða ábyrgð gerandans við ásetning hans“ (195).
Með öðrum orðum: Hann gerir þessi rök ekki heldur að sínum.
d) Ég hef þóst greina þá röksemd, ef röksemd skyldi kalla fremur en
hugboð, hjá ýmsu heilbrigðisstarfsfólki að beint líknardráp sé siðlaust og
guðlaust vegna þess að það stríði gegn „gangi náttúrunnar“. Erfitt er að
festa hendur á þessu viðhorfi. I fyrsta lagi virðist það koma úr hörðustu
átt frá fólki sem beinlínis hefur atvinnu af því að grípa inn í gang náttúr-
unnar og í öðru lagi er það öldungis ókristilegt líka, þó að sumir telji sér
trú um hið gagnstæða. Fremur ber það vott um einhvers konar íslenska
örlagahyggju (af austrænum meiði): að hverjum manni sé áskapað sitt
banadægur og goðgá að reyna að hrófla við því með beinni íhlutun. Ég á
ekki önnur svör við þessu en að vitna aftur í Vilhjálm: „Allar lækningar -
eins og önnur mannanna verk - grípa með einhverjum hætti inn í ,gang
náttúrunnar' og engin leið er að greina hvað er náttúrulegt og hvað
ónáttúrulegt í þeim efnum" (181).
e) „Hospice“ (hlynningar) hreyfingin hefur á síðustu árum boðið
upp á nýjan kost fyrir deyjandi sjúklinga, meðal annars (að hluta til) hér
á Islandi: að fá að deyja á „náttúrlegan hátt“, með hjálp kvalastillandi
lyfja, í heimahúsi eða þá á sérstökum hlynningarstofnunum. Hospice-
hugmyndafræðin, sem orðið hefur mörgum sjúklingum og aðstandend-
um til raunabóta, kveður líknarmeðferð sína vera millileið milli öfga
tæknivæddra oflækninga og hugmynda um beint líknardráp. Vilhjálmur
ýjar að vísu ögn að þessum nýju meðferðarkostum, sem nokkurs konar
aukaröksemd fyrir máli sínu (199-200), en gerir þá ekki að kjarnaatriði
andmælanna gegn beinu líknardrápi. Slíkt er enda eins gott því að bláber
tilvísun í hugmyndafræði Hospice-hreyfingarinnar er dæmi um þá
rökvillu sem á latínu nefnist argumentum ad verecundiam: skírskotun til
kennivalds. Það að einhver virðingarverður aðili hafi haldið skoðun fram
og hún hafi reynst honum vel eru ekki fullnægjandi rök fyrir skoðun-
inni.
18 Ég ræði þennan galla í mun ítarlegra máli (sem og raunar einnig rökin úr b-
lið) í ritgerð minni, „Af tvennu illu: Um klípusögur, nytjastefnu og dygða-
fræði“, er flutt var sem opinber fyrirlestur á vegum áhugamannafélaganna um
heimspeki í Reykjavík og á Akureyri á árinu 1995 (væntanleg 1 Hug 1996).