Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 204
198
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
Þessi uppástunga sníður vissa agnúa af eldri skilgreiningum og er
þarft framlag til umræðunnar um efnið. Hún sker þó að sjálfsögðu ekki
úr um hvort eða hvenær líknardráp sé siðlega réttlætanlegt. I framhaldi
af slíkri almennri skilgreiningu er venjan sú, í fræðiritum um líknardráp,
að skipta því í tvo meginflokka og ræða síðan um kosti og galla hvors
um sig. Þessir flokkar eru annars vegar (1) líknardráp að eigin ósk - sem
svo skiptist aftur í (1 a) líknardráp að eigin ósk hér og nú, hjá manni sem
vill deyja en er of máttvana til að stytta sér aldur, og (lb) líknardráp að
fyrirfram ósk aðila sem ekki getur tjáð sig um málið lengur en hefur gert
það áður, til dæmis með því að undirrita svokallaða líknarskrá - og (2)
líknardráp að ósk aðstandenda (sem túlka þá hver vilji sjúklingsins væri
ef hann gæti tjáð sig). Augljósar efasemdir vakna strax um flokka (lb) og
(2), hinn fyrri vegna þess að ekki er víst að yfirlýsing einstaklings, ef til
vill gefin mörgum árum fyrr, um að hann hafni tiltekinni læknismeðferð
sé ennþá í samræmi við vilja hans; hinn síðari vegna hættunnar á mis-
notkun, til dæmis þegar gírugir erfingjar vilja koma aflóga ættingja
sínum í gröfina sem fyrst. Eg ætla því, til flýtisauka og einföldunar, að
einbeita mér að flokki (la) hér á eftir; enda virðist, fljótt á litið, sem
sterkustu rökin fyrir líknardrápi lúti að dæmum úr honum.
Önnur alþekkt skipting líknardrápa, sem gengur að sumu leyti þvert
á hina fyrri, er sú að gera strangan greinarmun á beinu og óbeinu líknar-
drápi: því að valda milliliðalaust dauða annars (þ.e. beinlínis að stytta
honum aldur, til að mynda með „dauðasprautu") og hins vegar að leyfa
honum að deyja (með því að hefja ekki eða hætta meðferð). Segja má að
það sé ríkjandi skoðun á heilbrigðisstofnunum hérlendis og í flestum ná-
grannalöndum okkar að sjúklingar eigi engan rétt á að þeim sé bundinn
helskór með fyrrgreinda hættinum, og raunar sé slíkt öldungis siðlaust
athæfi; í mörgum tilfellum geti hins vegar verið eðlilegt að halda að sér
höndum og lengja ekki að óþörfu dauðastríð sjúklinga á heljarþröm.14
Vilhjálmur kemur fram í bók sinni sem hugheill talsmaður þessa hefð-
bundna sjónarmiðs:
Höfuðástæðan er sú að slíkur réttur [til þess að vera sviptur lífi]
myndi leggja öðrum á herðar samsvarandi verknaðarskyldu, sem sé
þá að drepa sjúklinginn. Slíka skyldu er ekki hægt að leggja á
nokkurn mann. Sama gildir um hvers konar athafnir eða athafnaleysi
af hálfu starfsfólks heilbrigðisstétta sem eru hugsaðar í því skyni að
gera sjúklingi kleift að taka eigið líf. (197)
14 Sjá einnig samþykktir ýmissa alþjóðlegra læknasamtaka og stofnana, sem
hníga í sömu átt. Sumra þeirra er getið í H. Jochemsen, „Euthanasia in Hol-
land: an Ethical Critique of the New Law“, Journal of Medical Ethics 20
(1994), nmgr. 22.