Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 24
18
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
Þótt kenningar módernista hafi notið mikillar hylli í heimi
félags- og hugvísinda síðan á sjöunda áratugnum hafa þær ekki
sannfært alla þá sem skrifað hafa um uppruna þjóðernis á undan-
förnum árum. Fremstan mótmælenda á þessu sviði má tvímæla-
laust telja enska félagsfræðinginn Anthony D. Smith, sem rekið
hefur eins konar heilaga krossferð gegn kenningum módernist-
anna. I skrifum sínum hefur Smith dregið í efa að þjóðerni sé jafn
rótlaust fyrirbæri og módernistarnir vilja vera láta. „Hvers vegna
virðist þessi ,ímyndun‘ snerta svo djúpan streng, svo oft, svo
lengi, og við svo ólíkar menningar- og félagslegar aðstæður?"
spyr hann í einni af fjölmörgum greinum sínum um þjóðernis-
stefnuna.33 Þar að auki finnst honum ótrúlegt að „þúsundir og
jafnvel milljónir karla og kvenna hafi látið leiða sig til slátrunar í
nafni afkvæmis eigin ímyndunarafls eða annarra", svo vitnað sé
til annarrar nýlegrar greinar hans um efnið.34 Svarið við þessum
vangaveltum sínum hefur Smith sett fram í þeirri kenningu að
þjóðerni sé einungis ein gerð samkenndar sem greint hafi mann-
kynið í hópa frá barnæsku samfélaga, en hann nefnir slíka hópa
ethnie, eða þjóðflokkasamfélög. Hugtakið skilgreinir hann sem
„nafngreindan hóp manna sem á sér goðsögn um sameiginlegan
uppruna, sameiginlegar sögulegar minningar, sameiginleg menn-
ingareinkenni, tengist ákveðnu ,heimalandi‘ og á sér ákveðna
sjálfsmynd“. Smith telur þjóðir skilgetið afkvæmi slíkra þjóð-
flokkasamfélaga, eða sérstaka undirgerð þeirra, en sérkenni
þjóðar er fyrst og fremst áhersla þjóðernisstefnunnar á réttindi og
skyldur þegnanna, auk mikilvægis þess sem hann nefnir fjölda-
menningu í hugmyndafræði hennar.35
Ef við berum kenningar Smiths saman við málflutning
módernista kemur í ljós að munurinn er tæpast jafn mikill og
hann vill vera láta. Engum dettur í hug að þjóðir séu skapaðar úr
engu, en hver þjóð getur yfirleitt valið úr stóru safni tákna eða
33 A. D. Smith, „Nationalism and Historians,“ bls. 72.
34 A. D. Smith, „The Problem of National Identity: Ancient, Medieval and
Modern,“ Ethnic and Racial Studies 17 (1994), bls. 378.
35 A. D. Smith, „A Europe of Nations - or Nation of Europe?" Journal of Peace
Studies 30 (1993), bls. 130 og A. D. Smith, The Ethnic Origins ofNations, bls.
22-32.