Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 30
24
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
SKÍRNIR
sameinaó Frakkland er, var ekki tilkomin vegna hertöku, ekki
heldur sem innlimun, heldur sem frjáls yfirlýsing um hollustu
þ.e.a.s sameining hafði verið samþykkt vegna þess að hún
bjargaði öllum réttindum héraðsins.50
Grunnhugmyndir manna eins og L'Estourbeillons minna um
margt á skoðanir frumkvöðla íslenskrar sjálfstæðisbaráttu.
Samkvæmt hugmyndum þeirra höfðu bæði Island og Bretagne
gengið erlendu valdi á hönd af fúsum og frjálsum vilja, með
„gömlum sáttmálum“, sem áttu að tryggja réttindi héraðanna án
þess að innlima þau í ríkin sem þau tengdust. Stolt Bretóna af
menningu sinni var líka litlu minni en Islendinga, sem sést m.a. af
þeirri víðtæku samstöðu sem myndaðist um kröfur þeirra fyrir
rétti bretónskrar tungu í skólakerfinu við lok fyrri heims-
styrjaldar. í anda þeirrar áherslu sem var lögð á þjóðréttindi í
málflutningi sigurvegaranna að stríðinu loknu, sendi U.R.B.
fulltrúum á friðarráðstefnunni í París áskorun þar sem bent var á
mikilvægi þess að „viðurkenna rétt sérhverrar þjóðar \Peuple] til
að vera hún sjálf, hver svo sem staða hennar er innan eða utan
skipulags ríkja“. Fjöldi einstaklinga og forystumenn bretónskra
samtaka skrifaði undir áskorunina, vegna þess að þeir sögðust
„trúir þeim tilfinningum sem búa í bretónskri sál, og töldu æðstu
skyldu sína að varðveita og bæta arfleifð feðranna“, eins og segir í
formála undirskriftarlistans sem fylgdi henni. Um leið tóku
stuðningsmennirnir skýrt fram að þeir beindu ekki spjótum
sínum gegn Frakklandi, enda væru stuðningsmenn áskorunar-
innar „tengdir römmum taugum hinu mikla föðurlandi sínu [leur
grande Patrie], Frakklandi", jafnframt því sem þeir lýstu yfir
tryggð við „tilfinningar bretónskrar sálar“.51
Að mati bretónska þjóðernissinnans Yanns Fouéré hefur saga
Bretagneskaga, allt frá þeim tíma er landið gekk Frakkakonungi á
hönd á fyrri hluta sextándu aldar, einkennst af baráttu Bretóna af
öllum stéttum „fyrir að varðveita pólitísk sérkenni héraðsins,
lagakerfi þess, frelsi íbúanna í stjórnmálum, stjórnkerfi og
50 M. de L'Estourbeillon, La nation bretonne (Redon: A Bonteloup, 1924), bls.
1. Leturbreyting í frumtexta.
51 M. de L'Estourbeillon, Le droit des langues et la liberté des Peuples (Saint-
Brieuc: René Prudhomme, 1919), bls. 8-10 og 12.