Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 199
SKÍRNIR
SAMRÁÐ, VIRÐING, VELFERÐ
193
- en það sé sú siðferðiskrafa sem heilbrigðisþjónustu beri að lúta (12).
Mikla hótfyndni þyrfti til að andmæla áherslu Vilhjálms á þessa kröfu.
Það var Diljá í Vefaranum mikla frá Kasmír sem minnti okkur á að „al-
vara einnar sálar er alvara allrar tilverunnar"; léttúð og virðingarleysi
frammi fyrir alvöru slíkrar sálar setur óafmáanlegan blett á starf hvers
heilbrigðisstarfsmanns. En í hverju felst virðing fyrir annarri manneskju?
Vilhjálmur greinir tvo meginþætti hennar: annars vegar sé virðing fyrir
sjálfrœði einstaklingsins og dómgreind, að tekið sé mark á verðmætamati
hans og sjónarhorni á lífið, hvert sem það er, enda sé persóna hans „í
þeim fólgin". Hinn þátturinn sé svo að bera umhyggju fyrir velferð per-
sónunnar sem í hlut á. Saman myndi þessir tveir þættir „siðferðilega
hagsmuni“ okkar sem einstaklinga (19-20).
Mér virðast rök Vilhjálms fyrir þessari tvískiptingu hagsmuna, sem
byggist að nokkru á hugmyndum úr heimspeki Kants, fremur völt. For-
senda hans er sú að auk þess að tryggja fólki ákveðna „mannhelgi“ (sbr.
„landhelgi"), rými þar sem sjálfræði þess er virt skilyrðislaust, þá hljót-
um við „einnig að bera umhyggju fyrir velferð annarra" (20). Það er orð-
ið „einnig" sem ég hnýt hér um. Helgast ekki gildi mann-helginnar
(griðasvæðisins) af því að hún eykur velferð þeirra sem hennar njóta?
Getur hún haft eitthvert annað gildi en það? Helstu siðapostular sög-
unnar, allt frá Guði almáttugum til Johns Stuart Mill, hafa fært að því
sannfærandi rök að sjálfræði til syndar kunni að vera betra en nauðung
til nytsemdar:5 Forsenda siðferðilegrar ábyrgðar og þroska sé sú að ein-
staklingar hafi svigrúm til að taka ákvarðanir um ýmis þau mál er næst
þeim standa, án íhlutunar annarra, jafnvel þótt þær ákvarðanir reynist á
endanum rangar, enda verði mönnum eigin víti fremur að varnaði en
annarra. Slíkt frelsi (þar á meðal til að skjátlast) þjóni þannig á endanum
heildarhagsmunum þeirra. Það að hefja sjálfræðið á stall, óháð velferð, er
því undarlegra sem Vilhjálmur teflir oftar og betur fram frelsisreglu Mills
sér til fulltingis; en hún kveður einmitt á um rækt við sjálfræði einstak-
lingsins að svo miklu leyti sem það stuðli í raun að langtíma farsæld
hans, því sem Mill kallaði „nytsemi í víðustu merkingu".6 Ég skil hina
ágætu greinargerð Vilhjálms fyrir þagnarskyldunni, sem fyrr var nefnd,
einmitt svo að hann sé að vega og meta, í anda Mills er hann kallar til
vitnis (82), hvenær sú velferð sem þagnarskyldan tryggir vegi þyngra en
hin sem hún dregur úr - og öfugt.
Ástæða þess að Vilhjálmur neitar að leggja velferð okkar og hags-
muni að jöfnu, þ.e. hafnar því að líta á rækt við sjálfræði einstaklingsins
5 Sjá t.d. frekari rökstuðning þessa £ „Frelsi og nytsemd" og „Hvað er alhliða
þroski?“ í ritgerðasafni mínu, Þroskakostir (Reykjavík: Rannsóknarstofnun í
siðfræði, 1992).
6 Frelsið, þýðendur Jón Hnefill Aðalsteinsson og Þorsteinn Gylfason (Reykja-
vík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1970), bls. 47.