Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 237
SKÍRNIR
ÆXLUN MYNDA
231
Með því að samsama hér myndhverfingu öðrum stílbrögðum, einsog
nafnskiptum eða persónugervingu, brýtur Nietzsche upp vestræna hefð
allt frá Platoni sem tengir myndhverfingar við skáldskap. Þótt mörkin á
milli myndhverfinga og nafnskipta séu oft óljós hafa fræðistefnur á þess-
ari öld, einkum formalismi og sálgreining, haldið þessari hefð til streitu
og gert slíkan mun að afmarkandi þætti í skáldskap. Hér má hins vegar
minna á að hellissaga Platons er auðvitað samansafn myndhverfinga -
sem er ætlað að gegna því tvíþætta hlutverki að þjóna sannleikanum
(einsog heimspekin á að gera) og fegurðinni (einsog skáldskapurinn á að
gera).
Myndhverfing er oft skilgreind sem tilfærsla milli myndsviða, og er
þá oft litið svo á að „nýja“ sviðið sé annað hvort til skilnings- eða
fegurðarauka.261 þessu ferli býr sú þversögn að tilfærslan er ekki aðeins
milli myndsviða heldur frá því frumstæða til þess fullkomna: gömul
mynd, sem líkist mynt er „glatað hefur mynd sinni“, víkur fyrir nýrri
sem ætlað er að komast nær sannleikanum eða fegurðinni. Nýja myndin
fær að vissu leyti tákngildi sannleikans eða fegurðarinnar, einsog ný
mynt yfirtekur öll hagræn gildi þeirrar sem hún kemur í staðinn fyrir. I
þessu flókna ferli öðlast nýja myndin, og jafnvel fyrirbærið myndhverf-
ing, blætisgildi og verður með merkingar- og vísanavef sínum tilefni
nýrra mynda og nýbreytni í tungumálinu. Hér mætti til skýringar nefna
þá útvíkkun hugmynda um sjálfsveruna sem myndhverfingarnar „dauði
Guðs“ og „sundrun" hafa haft í för með sér á mörgum orðræðusviðum.
Zombíljóðin benda oft á að „sannleikur“ hefur ekki aðeins þá merk-
ingu sem við erum vön að leggja í sannleiksboð Ara fróða,27 heldur einn-
ig að gildi hans liggi í leik bins sanna. Það sem sannara reynist er þá ævin-
lega tengt blekkingum, sem verða að myndhverfingum sem sífellt er ver-
ið „að endurraða" (s. 38). I þessum „sann-leik“ er myndhverfingum léð
skiptagildi myntar sem mælandinn getur safnað og víxlað eða farið með
á skiptimarkaðinn og „bíttað" þeim einsog leikaramyndum, líktog gefið
er í skyn í 68. ljóði. Þar hefur mælandinn ekki einungis „safn leikara-
mynda undir kodda“ heldur er líka hægt að „kaupa eina kippu af öðling-
um / eða tvær“ (s. 90). Slíkan samanburð táknkerfis við hagkerfi má
einnig finna hjá upphafsmanni nútíma táknfræði, Ferdinand de Saussure,
sem gerði hvert orð, hugtak og mynd að ígildi myntar, þareð „skipta má
á orði fyrir eitthvað ólíkt, einsog hugmynd; auk þess má bera það saman
við eitthvað sama eðlis, einsog annað orð“ (Saussure, s. 115). Myndir og
myndhverfingar, og jafnvel sjálf máltáknin, öðlast þannig skiptagildi eftir
tveimur meginleiðum, merkingu og verði (eða gengi). Merkingin ákvarð-
ast af tengslum táknanna við hluti eða heim, en verðið af kerfinu og
26 Sjá t.d. greiningu Derrida (1982).
27 Helga Kress (1995) hefur bent á að þetta sannleiksboð sé boðskapur og m.a.s.
framleiddur eftir pöntun tveggja biskupa.