Skírnir - 01.04.1996, Blaðsíða 208
202
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
SKÍRNIR
Með ýtrustu virðingu fyrir hreyfingu þessari, sem lyft hefur
Grettistaki á sviði líknarmeðferðar, verður hinu ekki leynt að hún svarar
ekki kalli fólks sem kýs ekki slíka meðferð eða nægir hún ekki (sbr.
dæmið af Lillian Boyes). Þá er alls ekki sjálfgefið að heimild til beinna
líknardrápa kæmi til með að grafa undan starfi Hospice-hreyfingarinnar.
I Oregon-ríki í Bandaríkjunum á sér nú til að mynda stað ítarleg um-
ræða um hvernig hreyfingin geti starfað samhliða kostinum á beinu líkn-
ardrápi sem nýlega hefur verið leiddur þar í lög.19
f) Það sneyðist mjög um mögulegar stoðir Vilhjálms, í andstöðu hans
við beint líknardráp, fyrst hann hafnar (með réttu) flestum hefðbundn-
um rökum er hníga í þá átt. Rök hans sjálfs eru nokkuð flókin og skiljast
ef til vill ekki fullkomlega nema bókin sé lesin í heild, en fyrir stuttleika
sakir verð ég að fá að draga þau saman á eftirfarandi hátt: Gera skal
greinarmun á griða- og gæðarétti sjúklinga. Hinn fyrri er réttur til
taumhaldsskyldna af hálfu annarra (að vera látinn í friði) og tengist
vernd sjálfræðis; hinn síðari réttur til verknaðarskyldna (að vera liðsinnt)
og tengist umhyggju fyrir velferð (85-87). Þótt sjúklingur geti réttilega
ráðið því hvort hann þiggur eða afþakkar þá heilbrigðisþjónustu sem í
boði er (sbr. taumhaldsskyldurnar) er „tómt mál að tala um gæðarétt
sjúklinga nema innan þess ramma sem skyldur heilbrigðisstétta setja“
(91). Rétturinn til að hafna meðferð, jafnvel lífsnauðsynlegri, er þannig
ótvíræður en „þegar talað er um að sjúklingur hafi rétt til að deyja í þeim
skilningi að hann eigi tilkall til þess að eitthvað sé beinlínis gert í því
skyni að stytta honum aldur fer málið að horfa öðru vísi við“ (193). Þá
er gerð krafa um gæðarétt sjúklings, tilkall til þjónustu, sem í þessu til-
felli stangast á við skyldur starfsfólksins. Það er nefnilega ekki hægt að
ætlast til þess að fagfólk í heilbrigðisþjónustu stytti skjólstæðingum sín-
um aldur; það getur aldrei verið skylda læknis að deyða sjúkling,20 jafn-
vel þótt sjúklingurinn óski þess eins að deyja (197-99).21
19 Sjá C. S. Campbell, J. Hare og P. Matthews, „Conflicts of Conscience:
Hospice and Assisted Suicide“, Hastings Center Report 25/3 (1995).
20 Þótt ég andmæli sjónarmiði Vilhjálms hér á eftir er rétt að taka strax fram, til
að fyrirbyggja misskilning, að ég legg almennt ekki til að starfsfólk á sjúkra-
stofnunum sé skyldað til að taka þátt í aðgerðum sem eru því um megn (af
einhverjum ástæðum). Slík vandamál eru einatt leyst með því að færa starfs-
fólk á aðrar deildir (t.d. hjúkrunarfræðinga sem alls ekki vilja taka þátt í fóst-
ureyðingum). Bein líknardráp eru ekki frábrugðin öðrum læknisaðgerðum að
þessu leyti. Þótt þau séu siðlega réttmæt undir vissum kringumstæðum, eins
og ég held fram, á ekki að skylda einstaklinga til að sinna þeim, fremur en
öðrum læknisverkum. Hitt er svo annað mál að svo mjög getur þrengt að
mögulegu verksviði sums heilbrigðisstarfsfólks, ef það hefur ekki geð í sér til
að sinna þessu og hinu, að því væri heppilegast að leita sér að annarri vinnu.
21 Vilhjálmur viðurkennir hins vegar að beint líknardráp geti átt rétt á sér við
vissar aðstæður utan heilbrigðisstofnana, t.d. í hernaði, og vitnar þar m.a. í