Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1992, Blaðsíða 72
70
MÚLAÞING
vegna forfalla hefði Sunnefa ekki getað komið til alþingis í umrætt
skipti og tilkynnti jafnframt, að annar vottur að forföllum hennar gæti
ekki vegna fjarveru komið til þingsins fyrr en næsta dag, og var því
málinu frestað þangað til. Næsta dag komu sömu aðiljar fyrir réttinn, en
Jóns Jónssonar er þó ekki getið. Lagði Hans þá fram skjal eitt, dagsett
26. júní s.á., en í því kvaðst hann hafa spurt Sunnefu, hvort hún gæti
ekki lagt upp í fyrirhugaða alþingisferð vegna veikleika, en hún hafi þá
svarað, að hún treysti sér ekki einu sinni til þess að fylgja fötum, hvað
þá heldur til alþingisferðar. Undir þetta skjal höfðu ritað nöfn sín þrír
menn til vitnis um, að þeir hafi verið viðstaddir þessa yfirheyrslu. Hétu
þeir Brynjólfur Brynjólfsson, Sigurður Eyjólfsson og Nikulás Gíslason.
Jafnframt skýrði Hans frá því, að eitt vitnið væri enn ókomið til þings-
ins, en skuldbatt sig til þess, að það skyldi verða þar til staðar á næsta
föstudegi. Kom nú vitnið, Brynjólfur Brynjólfsson, fyrir réttinn og
spurði þá Magnús lögmaður Wíum, hver hann væri, en Wíum gaf það
svar, að hann hefði verið skólapiltur. Enn spurði lögmaður Wíum, hvort
hann gæti framvísað skilríkjum (“kinníngu”) Brynjólfs, en Wíum
óskaði eftir fresti á því til næsta föstudags. Féllst lögmaður á frestun
málsins þangað til, en fyrirskipaði Wíum að mæta “tydlega” og hafa til
reiðu lögleg vitni um forföll Sunnefu.13 Brynjólfur, sá sem hér um ræð-
ir, var sonur Brynjólfs Gíslasonar lögréttumanns í Nesi í Norðfirði og
varð síðar sýslumaður í Vestmannaeyjum um tíma. Hefur þetta senni-
lega verið á skólaárum hans í Skálholti, en þar mun honum hafa verið
vikið úr skóla fyrir þjófnaðargrun. Má vera, að það hafi verið orsökin til
þess, að hann var ekki tekinn gildur sem vitni, enda þótt ekki væri það
sagt berum orðum.14 Sá sem var ennþá ókominn til þingsins hefur senni-
lega verið skrifari Wíums og meðreiðarmaður, Sigurður Eyjólfsson, og
að auki voru þeir mágar.15 A þriðja manninn, Nikulás Gíslason, var ekki
minnzt, hvorki þá né heldur síðar, en augljóst er, að hann hefur hvergi
verið nálægur.
Á næsta föstudegi (15. júlí) kom Hans Wíum aftur fyrir lögréttuna á-
samt Jóni Benediktssyni sýslumanni. Hafði Lafrentz amtmaður skipað
Jón verjanda systkinanna hinn 13. s.m. samkvæmt skriflegri beiðni
Wíums. Mótmælti hann því, að Brynjólfur, sem Hans Wíum hefði vilj-
að láta vitna um forföll Sunnefu fyrir réttinum 12. s.m., væri nú yfir-
heyrður, nema því aðeins að hann hefði löglegt vottorð (“attest”) um,
hver hann væri. Wíum kvaðst hins vegar reiðubúinn að sanna, hvar
Brynjólfur hefði haft aðsetur, þegar hann var fenginn til þess að vera
vitni, en viðurkenndi þó, að ekki hefðu öll vitnin verið heimilisföst.