Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1992, Side 128
126
MULAÞING
yfirvöldum landsins og virðingarleysi fyrir réttarfarinu sprottið af andúð
á því. 3. Eðlislæga góðmennsku og meðaumkun með smælingjum og
þeim, sem gerzt höfðu brotlegir við lögin. 4. Hugarfarsbreytingu mót-
aða af hinum breytta tíðaranda, sem þá var að ryðja sér til rúms erlendis
og miðaði að því að beita meiri mannúð og skilningi við afbrotamenn
en áður hafði tíðkazt og draga úr refsingum við minni háttar yfirsjónum.
Enda þótt allar þessar ástæður virðist hugsanlegar og erfitt að skera úr
um hver sé líklegust, má samt gera tilraun til þess að komast nær sann-
leikanum um það með því að líta nokkuð á þau verk önnur, sem eftir
Wíum liggja. Að vísu er þar ekki um mjög auðugan garð að gresja, sem
áður getur.
Er þá sennilega fyrst að nefna skýrslu hans til Landsnefndar fyrri frá
árinu 1771. Miðað við svör annarra sýslumanna er hún alls ekki ómerk,
því að á ýmsu er þar bryddað, er telja mátti til nýjunga á þeim tíma og
horfði til framfara. Til dæmis setti hann fram tillögur um breytingar á
hinni aldagömlu þingstaðaskipan í þá átt, að þingstaðir í sýslunni væru
aðeins einn í stað fjórtán. Þá gerðist hann einn fárra íslenzkra embættis-
manna til þess að lýsa yfir stuðningi við tillögur Skúla Magnússonar
landfógeta í verzlunarmálunum og setti fram tillögur um breytingar á
húsagatilskipuninni.1 Einnig var Wíum með þeim alfyrstu Islendingum,
sem fór þess á leit við stjórnina, að flutt yrðu hingað til lands til reynslu
nokkur hreindýr frá Noregi, þótt ekki næði það frarn að ganga þá.2 Þá
má að lokum geta þess, að Wíum mun hafa gert út leiðangur til þess að
finna að nýju leið af Austurlandi til Suðurlands norðan Vatnajökuls.
Ekki mun þó sá leiðangur hafa borið tilætlaðan árangur.3 Þessi dæmi
virðast öll benda til framfarahugar og viðleitni til umbóta, en tekið skal
þó fram, að þau þurfa á engan hátt að standa í sambandi við skoðanir
Wíums á réttarfarsmálum, og það sem hér hefur verið fjallað um í því
sambandi. Engu að síður eru þau þó vísbending, sem ekki er vert að
sniðganga með öllu.
Ef nú að lokum á að draga einhverja almenna ályktun út frá því, sem
hér hefur verið fjallað um, eða kveða upp dóm yfir afskiptum Wíums af
réttarfarsmálum og viðhorfum hans til þeirra, er við ýmsa örðugleika að
etja. Aðalástæðan er þó sú, að heimildir um Wíum eru hvergi nærri svo
fullkomnar eða fjölskrúðugar, að hægt sé að draga nokkra beina ályktun
út frá þeim eða kveða upp öruggan dóm yfir athöfnum hans og lífsskoð-
unum. Þau dæmi, sem hér hafa verið tilgreind, geta vart talizt nægjan-
leg, til þess að hægt sé að nota þau sem nokkra örugga sönnun í þessum
efnum.