Jón á Bægisá - 01.02.2007, Page 36
W.H. Auden
„Musée des Beaux Arts“
Um þjáninguna skjöplaðist þeim eigi,
þessum öldnu meisturum: þeir skildu til hlítar
hlut hennar í mannlífinu; hvernig einn líður
meðan annar matast eða opnar glugga eða ferðast um á förnum vegi;
skildu, að meðan öldungar fullir eftirvæntingar bíða
hinnar undursamlegu fæðingar, hljóta alltaf að fæðast börn,
sem fráleitt hafa berlega óskað þess, en skríða
á skautum eftir skógi gyrtri tjörn.
Þeir gleymdu því ekki að
jafnvel argasta píslarvætti hlýtur að renna sitt skeið
í einhverju horni, á afviknum stað
þar sem hundar heyja sitt hundalíf og hrossið, sem níðingurinn reið,
nýr sinni saklausu lend upp við tré.
Tökum Ikaros Brueghels sem dæmi: hvernig allt annað
lætur sig óhappið engu varða; plógmaðurinn kann að
hafa heyrt byltuna, hið niðurbælda óp,
en í augum hans var þetta ekki verulegt tjón; sem löngum fyr
var sól á lofti og skein nú á hvíta fæturna, hverfandi í grænt
vatnið; og velbúið haganlegt skipið, sem hlýtur að hafa mænt
á þessa merkilegu sýn, hrapandi skýjaglóp,
átti skyldum að gegna og sigldi til hafnar hægum byr.
(1938)
(Titill þessa kvæðis er almennt talinn sóttur til Fagurlistasafnsins í Brussel,
sem geymir fræga mynd flæmska meistarans Pieter Brueghels (ca. 1520-
1569) af Ikarosi, hinum ofurhugaða syni völundarins Dedalosar, sem brá
sér í fjaðurham föður síns og steyptist til jarðar er hann flaug of nærri sólu.
A mynd Brueghels má í einu horni myndflatarins sjá fótleggi unglingsins
hverfa í vatn, en að öðru leyti virðist efni myndarinnar með öllu ósnortið af
þessum hörmulega atburði.)
34
á- ,93æýe/riá — Tímarit þýðenda nr. ii / 2007