Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2010, Side 24
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 86. árg. 201020
Jónína með sjúklingi sínum, líklegast á
Skotlandsárunum.
Álagið minna í Danmörku
Þegar náminu lauk vorið 1945 fór Sigrún
aftur austur á Seyðisfjörð og gifti sig.
Hún vann af og til á Landspítalanum
eftir það en fór svo með manni sínum,
Bjarna Einarssyni íslenskufræðingi,
til Danmerkur og Noregs. Þar segist
hún hafa unnið á spítölum og farið í
sérfræðinám í blóðrannsóknum og ekki
hafi hún átt í erfiðleikum með tungumálið
enda höfðu kennslubækur nemanna
verið á dönsku. „Það var mikill munur
að vinna á sjúkrahúsi í Danmörku, álagið
var minna, sjúklingarnir færri sem við
áttum að sjá um og starfið allt léttara.
Næturvaktirnar á Frederiksberg hospital í
Kaupmannahöfn voru algjör lúxus. Okkur
voru ekki ætluð nein verk nema að svara
bjöllunum og okkar beið þægilegur stóll
með teppi sem við máttum sitja í milli
þess sem við sinntum sjúklingunum.“
Eftir heimkomuna vann Sigrún síðan á
ýmsum spítölum.
Sigrún minnist útskriftardagsins 1945 sem
bar upp á friðardaginn. Hjúkrunarfélagið
bauð nemunum í kaffi á Hótel Borg og
Sigríður Eiríksdóttir formaður talaði til þeirra
hvatningarorð. Að því loknu hlupu þær af
stað upp á Landspítala glaðar og hressar
eins og ungum stúlkum var eðlilegt. En
þær voru ekki komnar langt þegar þær
tók að svíða í augun. Táragasi hafði verið
dreift yfir þá sem voru þarna á ferð til
að róa fólkið því einhverjum fannst sem
kátína fólksins væri að fara úr böndunum,
gleðin yfir stríðslokunum og í þeirra tilfelli
námslokunum í hjúkrunarskólanum.
Jónína Stefanía Bjarnadóttir
GAF GÓÐ RÁÐ
JAFNT Á KVÖLDIN
SEM UM HELGAR
Þær voru 16 stúlkurnar í hollinu hennar
Jónínu Stefaníu Bjarnadóttur sem luku
hjúkrunarnámi haustið 1946. Reyndar var
siðferðiskennd þeirra sem réðu á þessum
tíma önnur en nú gerist því einni stúlku
var gert að fresta útskriftinni þar sem hún
varð ófrísk og farið var að sjást á henni
þegar að útskrift kom. Það mátti ekki!
Jónína segir að stúlkan hafi alltaf verið
talin ein af hópnum þótt útskriftin tefðist
þar til barnið var fætt.
Jónína kom úr stórum systkinahópi, 7
systur og 1 bróðir, og var eina systirin
sem fór til náms. Hún gerðist vinnukona
í Reykjavík hjá Ormssonfjölskyldunni,
stofnendum fyrirtækisins Bræðurnir
Ormsson, til þess að geta síðan farið í nám.
Í hjúkrun fór Jónína vegna þess meðal
annars að það var eina námið þar sem hún
fékk smákaup á námstímanum.
„Við fengum 100 kr. á mánuði, ef ég man
rétt, en líklega hefur það verið undir lokin,“
segir Jónína. „Það var varla fyrir einu pari
af skóm.“ Húsnæði og vinnuföt fengu
nemarnir líka, „og það munaði voða miklu.“
Nemahópurinn hélt ævinlega saman,
leið alltaf vel og leiddist aldrei þar sem
stúlkurnar bjuggu uppi á efstu hæð
Landspítalans, þrjár saman í herbergi.
„Mér fannst námið aldrei erfitt en vinnan
var dálítið mikil. Það voru allir almennilegir
við okkur og sögðu okkur vel til.“
Stúlkunum þótti heldur ekki tiltökumál
að vinnutíminn væri 10 tímar á dag enda
unnu allir mikið í þá daga.
Nemaárið úti á landi var Jónína á Ísafirði
og fannst skrýtið hvað mikið var þar af
færeyskum starfsmönnum. Hún átti þó
ekki í miklum erfiðleikum með að tala við
þá, líklega vegna þess að í Neskaupstað
hafði verið mikið af færeyskum fjölskyldum
og börnin léku sér gjarnan saman.
Framhaldsnám í fjórum löndum
Í framhaldsnám fór Jónína til Surrey í
Englandi og til Edinborgar og lenti ekki í
neinum erfiðleikum með tungumálið. Árið
1951 fór hún svo til Finnlands og neitar
því ekki að hún hafi kviðið svolítið fyrir
ferðinni. „Ég fór að vinna á sjúkrahúsi
þar sem yfirlæknirinn var nýtekinn við og
hann sagði einfaldlega: „Hér tölum við
bara finnsku og ekkert nema finnsku.“
Ég var snemma sett ein á vakt seinnipart
dags, allir töluðu finnsku og ég var
alveg ómöguleg. Yngri mennirnir skildu
hvernig mér leið en yfirlæknirinn var alveg
ákveðinn hvað þetta varðaði. Manneskjan
yrði bara að fara ef hún talaði ekki
finnsku. Þetta bjargaðist svo smátt og
smátt.“ Jónína fór síðan til Svíþjóðar og
hélt áfram námi sínu í skurðstofuhjúkrun
og þar var henni mjög vel tekið.
Árið 1952 varð Jónína fyrsta yfir hjúkrunar
konan á sjúkrahúsinu á Akranesi. Þar
kynntist hún manninum sínum, Gunnari
Sigurðssyni, en þau fluttust til Reykjavíkur
árið 1956. Hún hóf þá störf við
Heilsuverndarstöðina, meðal annars við
ungbarnaeftirlit. Dætur Jónínu, Steinunn,
lyfjafræðingur í Kaupmannahöfn, og
Guðrún, læknir í Hafnarfirði, minnast þess
þegar móðir þeirra fór út um allan bæ með
reisluna sína til að vigta ungbörnin. Þær
muna líka vel að hún vann myrkranna á milli
enda orðin einstæð móðir árið 1966 eftir
að maður hennar lést. „Hún var stöðugt
til taks og ungir foreldrar, áhyggjufullir út
af brjóstagjöf eða einhverju öðru, hringdu
oft heim. Mömmu fannst alltaf jafnsjálfsagt
að svara í símann bæði á kvöldin og um
helgar og gefa góð ráð,“ segja dæturnar.
Jónína vann síðar lengi á heilsugæslunni á
Seltjarnarnesi en nú eyðir hún ævikvöldinu
á Hrafnistu í Reykjavík þar sem blaðamaður
hitti hana og dætur hennar og spjallaði við
hana um liðinn tíma.