Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2010, Side 39
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 86. árg. 2010 35
Framhaldsnám á meistarastigi í hjúkrun
á Íslandi er ekki til í öllum sérgreinum og
hefur eflaust með framboð og eftirspurn
að gera. Erfitt er að bjóða upp á nám
innan allra sviða hjúkrunar og undirsviða
en þó mætti alveg endurskipuleggja
meistaranám eða að minnsta kosti
bjóða upp á fleiri leiðir til að mennta
hjúkrunarfræðinga með áherslu á klíníkina
en ekki bara bókina.
Nýburaflutningar er afar sérhæft svið
innan hjúkrunar og því erfitt að fullnægja
þeim þörfum hér á landi að sérmennta fólk
til þessara starfa. Þó væri hægt að fara þá
leið sem farin er erlendis, að skipuleggja
sérnámskeið fyrir þá hjúkrunarfræðinga
sem vinna við þetta. Það er sérstaklega
mikilvægt þar sem hér á landi eru einungis
tvær stofnanir sem sinna veikum nýburum.
Einungis er ein sérhæfð vökudeild á
Íslandi, á Barnaspítala Hringsins, enda er
það vel skiljanlegt miðað við fólksfjöldann
og fjölda fæðinga, og síðan er vökustofa
innan barnadeildar FSA sem tekur við
nýburum og fyrirburum fæddum eftir 34.
viku meðgöngu. Sama skipulag, að hafa
eina sérhæfða vökudeild og síðan minni
einingar sem á ensku eru kallaðar „special
care baby units“, er víða erlendis og
hefur þetta reynst vel bæði hvað varðar
sérhæfingu starfsfólks og útbúnað. Þetta
gerir það að verkum að ávallt verður þörf
fyrir flutninga á veikum nýburum milli
stofnana hér á Íslandi og einnig héðan
til sjúkrahúsa erlendis til enn sérhæfðari
lækninga, eins og hjartaaðgerða.
Hér á landi er þó, eins og áður sagði,
engin sérmenntun fyrir hjúkrunarfræðinga
sem sinna þessum störfum. Aðallega er
það reynsla, færni og áhugi sem fær þá
til að vinna við þessi verkefni. Það er þó
þannig að það er afar sérhæft að vinna
við veikan nýbura í hitakassa í flugvél og
ýmislegt sem hafa ber í huga. Að auki
er mjög erfitt að viðhalda færni sinni þar
sem flutningarnir eru ekki, sem betur
fer, á hverjum degi. En nýburaflutningar
eru afar gefandi fyrir þá sem vinna við
nýburahjúkrun og hafa áhuga á krefjandi
verkefnum.
Ég var á árunum 20052006 í meistara námi
við Nottinghamháskóla í Bretlandi með
áherslu á nýburahjúkrun og var í verklegu
námi í 6 mánuði á nýburagjörgæslu á
Queens Medical Centre í Nottingham. Þar
er starfandi sérhæft nýburaflutningsteymi
sem er afar framarlega á sínu sviði og var
ég svo heppin að fá að starfa með því.
Ákveðnir hjúkrunarfræðingar eru í teyminu
og eru á svokölluðum flutningsvöktum
í vinnunni. Þetta er afar vel skipulagt.
Hjúkrunarfræðingarnir þurfa að fara á
námskeið í nýburaflutningum þar sem
farið er yfir ýmsa þætti sem hafa ber í
huga við flutninga, allt frá samskiptum milli
deilda til flutninganna sjálfra. Síðan þurfa
hjúkrunarfræðingarnir að fara í flutninga
með öðrum og standast síðan próf í að
flytja barn í öndunarvél með lærimeistarann
með sér. Þetta flutningsteymi er nú að
verða opinberlega viðurkennt sem sérhæft
teymi en ekki bara hluti af þeim tveimur
nýburagjörgæsludeildum sem það er rekið
út frá. Við á Íslandi gætum auðveldlega
tileinkað okkur að halda námskeið
og sérmennta hjúkrunarfræðinga til
nýburaflutninga í samstarfi við erlend teymi
og jafnvel með því að fá að taka þátt í
þeirra námskeiðum.
Því miður er staðan sú á FSA núna að
einungis unglæknar „fá“ að fara með í
sjúkraflug með veika nýbura. Þetta er
auðvitað ekki til fyrirmyndar né eftirbreytni.
Myndi það þykja í lagi að hafa sjúkling á
gjörgæslu án þess að hafa hjúkrunarfræðing
til að sinna honum? Nei, það þætti sem
betur fer ekki tilhlýðilegt. Án þess að ætla
að vanmeta þekkingu og færni unglækna
,sem starfa við FSA, þá er það mín skoðun
að með barnalækni í þessa flutninga ætti
að fara hjúkrunarfræðingur sem er fær
í að sinna veikum nýburum. Sérhæfð
námskeið í nýburaflutningum myndu auka
þá þekkingu og færni sem til þarf og gera
hjúkrunarfræðingana enn færari til að sinna
þessu starfi.
Þetta er alls ekki tæmandi umræða en
ætlað að vekja fólk til umhugsunar um
sérhæfð hjúkrunarstörf og þá menntun
sem þarf til slíkra starfa.
Ég skora á Eydísi Birtu Jónsdóttur að
skrifa næsta þankastrik.
NÝBURAFLUTNINGAR
Menntun hjúkrunarfræðinga á Íslandi er afar góð og erum við eftirsóttir
starfskraftar erlendis. Það er þó þannig að við höfum mjög almenna
menntun í allri hjúkrun og sérhæfing byrjar ekki fyrr en eftir útskrift.
ÞANKASTRIK
Elma Rún Ingvarsdóttir, elmarun@gmail.com
Elma Rún Ingvarsdóttir er hjúkrunarfræðingur
á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri og með
meistaragráðu í nýburagjörgæslu.