Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2010, Qupperneq 39
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 3. tbl. 86. árg. 2010 35
á þessu vegna þess að eg efast ekki um
góðan vilja yngri og eldri hjúkrunarkvenna
til þess að verða að sem mestu gagni.
Margar þeirra hafa vafalaust komið auga
á ýmislegt á sjúkrahúsunum, sem betur
mætti fara, og ef til vill gert tilraunir til
þess að lagfæra það. Þetta er gott,
en ekki nógu gott, því til þess að ná
góðum árangri á skömmum tíma þarf góð
samtök. Ef við reynum hver í sínu horni að
breyta því sem við getum til batnaðar, þá
er mjög mikils virði að setja sig í samband
við aðrar hjúkrunarkonur, sem ef til vill eru
að fást við sömu viðfangsefni.
Hjúkrunarkvennablaðið er sá milliliður,
sem við höfum allar sameiginlega og er
það því hinn rétti staður fyrir umræður
um áhugamál okkar. Hér getum við borið
saman bækur okkar og vona eg að sem
flestar leggi orð í belg.
Til þess að forðast að verða að vinnuvélum,
þurfum við annað slagið að gefa okkur tíma
til þess að reyna að horfa á okkar eigið
starf með annarra augum, til dæmis augum
sjúklinganna og aðstandenda þeirra, eða
með okkar eigin augum, eins og þau
voru áður en við urðum hjúkrunarkonur.
Okkur kemur áreiðanlega öllum saman
um það, að sjúkrahúsin eru eingöngu
til vegna sjúklinganna. Ef fyrirkomulag á
sjúkrahúsunum er miðað við þetta, þá er
allt á réttri leið, og ef við notum þennan
mælikvarða við athugun okkar, hljótum við
að komast að réttri niðurstöðu. Vitanlega
verður að taka tillit til þeirra örðugleika,
sem okkur eru óviðráðanlegir, til dæmis
fjárskorts, lélegra bygginga og svo
framvegis, og ekki má það gleymast, að ein
fyrsta skyldan við sjúklingana er að skapa
heilbrigða og glaða hjúkrunarkvennastétt,
og að baráttan fyrir bættum kjörum hennar
er í raun og veru einn liður í starfi okkar til
hjálpar sjúklingum.
Sjúklingar látnir vakna of snemma
Í þeirri von að sem flestar hjúkrunarkonur
taki þetta mál til meðferðar, vil eg ríða á
vaðið með því að vekja athygli á einum
af þeim aðfluttu annmörkum, sem illilega
bitnar á sjúklingunum. Það er algengt
að heyra fólk, sem nýlega hefir legið
á sjúkrahúsi, minnast á vistina þar
með þessum orðum: „Verst af öllu var
þó að láta rífa sig upp eldsnemma á
morgnana!“ Við vitum allar, að á flestum
sjúkrahúsum þykir það blátt áfram
sjálfsagt að vekja sjúklingana þegar
best hentar fyrir hjúkrunarkonurnar, og
bæði þær og sjúklingarnir virðast trúa
því eins og nýju neti að þetta sé guðs
vilji. Satt að segja, þá er þessi meðferð
á veiku fólki alls ekki forsvaranleg, og ég
heyri þessa umkvörtun aldrei án þess að
sárskammast mín. Ró er ætíð nauðsynleg
sjúku fólki, og stundum er hún lífsskilyrði.
Okkar skylda er að sjá sjúklingunum fyrir
öllum þörfum. Hvernig leysum við þetta
atriði af hendi? Sannleikurinn er sá, að
á íslenskum sjúkrahúsum er enga ró að
finna. Bygging sjúkrahúsanna á náttúrlega
mikinn þátt í þessu, því í flestum þeirra er
svo hljóðbært, að þau gefa Almannagjá
lítið eftir í því efni, en þeim mun meira
þurfum við að leggja okkur í líma til
þess að gera þessi hús hæf sem
verustað handa sjúkingum. Hurðaskellir
og köll ættu að vera algerlega óþekkt
fyrirbrigði á sjúkrahúsum. Óþarfa ráp um
sjúkrastofurnar er mjög algengt, og stafar
það af vinnufyrirkomulaginu. Víða er það
svo, að sjúklingar á sambýlisstofum hafa
engan frið frá því kl. 5–6 á morgnana
og þangað til læknaheimsóknin er um
garð gengin, kl. 9–10 eða jafnvel seinna.
Kemur þá kannske ein hjúkrunarkona eða
nemi með hitamælirinn, nokkru seinna
önnur með þvottavatn og tannvatn, aðrar
tvær til að búa um, stúlka til að þurrka
af og ef til vill önnur til þess að þvo
gólfið; þá er morgunverðurinn, meðölin
og hver veit nema eitthvað hafi orðið eftir
af ræstingunni. Hjúkrunarkonan þarf að
athuga hitatöflurnar, búa um sár eða gefa
pípur o.fl. Þó sjúklingurinn sé sárþreyttur
eftir erfiða nótt, kemst hann að þeirri
niðurstöðu að tilgangslaust sé að reyna
að fá sér blund fyrr en það versta sé
um garð gengið, og hugsar sér gott
til glóðarinnar seinni hluta dagsins. En
viti menn! Ætli hann hafi ekki gleymt að
taka heimsóknirnar með í reikninginn? Því
miður er á sumum sjúkraúsum á Íslandi
allt of lítið eftirlit með heimsóknum til
sjúklinga. Eg heimsótti nýlega fjörgamlan
mann á Landakotsspítalanum. Hann lá
á tvíbýli í rúminu nær dyrunum, og var
að berjast við dauðann. Hann kvartaði
sáran um að hann hefði engan frið til að
deyja. Eg taldi 15 gesti hjá sambýlismanni
hans, þar á meðal tvö smábörn. Mörgum
mjög þjáðum sjúklingum er nóttin
erfiðasti tími sólarhringsins, og oft er
ekki um neinn svefn að ræða fyrr en
undir morgun. Hvernig ætli það sé, eftir
slíka nótt, að láta rífa sig upp fyrir allar
aldir vegna hitamælingar, þvottar eða
annars hégóma? Og jafnvel þó ekki sé
um miklar þjáningar að ræða, heldur
minni háttar uppskurði og þess háttar,
þegar sjúklingurinn liggur á sjúkrahúsinu
í 10–14 daga, þá veitir slíkum sjúklingum
heldur ekki af öllum þeim svefni, sem
þeir geta fengið, og á fáum dögum getur
enginn óþægindalaust vanið sig á nýjan
svefntíma.
Tilraun á Ísafirði
Á sjúkrahúsinu á Ísafirði hefi ég undanfarin
tvö ár gert dálitla tilraun í þá átt að breyta
þessu til batnaðar þar. Á skurðardeildinni
er enginn vakinn fyrr en eftir kl. 7, þegar
dagvaktin hefst, og er þá fyrst tekið til
starfa á þeim stofum sem minnst eru
veikindin á. Er svo reynt að ljúka störfum
á hverri stofu fyrir sig á sem skemmstum
tíma, það er að segja mælt, þvegið, búið
um og ræstað jafnóðum og hægt er að
komast að því, og stofurnar teknar þannig
koll af kolli. Ef einhverju af stofunum er ekki
lokið fyrir morgunverð, er þar aðeins mælt,
gefið tannvatn, gluggar opnaðir ef með
þarf og lauslega þurrkað af borðunum, en
annað látið bíða þangað til eftir máltíðina.
Eg hefi aldrei orðið vör við óánægju
starfsfólksins með þetta fyrirkomulag.
Næturhjúkrunarkonan og hjálparstúlka
hennar fara kl. 7 á morgnana, og þó þeim
séu ekki ætluð hin venjulegu morgunverk,
nefnilega hitamælingar og þvottur á öllum
sjúklingum þá hafa þær í þess stað á
hendi önnur störf til léttis dagvaktinni, til
dæmis frágang á umbúðum, hirðingu á
verkfærum, ræstingu og þess háttar og
kemur þetta sér fyllilega eins vel.
Ef til vill hafa aðrar hjúkrunarkonur velt
fyrir sér því atriði, sem eg hefi nú gert að
umtalsefni, og væri þá fróðlegt að heyra
tillögur þeirra.
Jóhanna Knudsen var þegar greinin var
skrifuð yfirhjúkrunarkona á sjúkrahúsinu á
Ísafirði en hún lést 1950. Greinin hefur verið
smávegis stytt. Stafsetningu hefur verið örlítið
breytt en eldri orðanotkun látin halda sér.
Millifyrirsagnir eru nýjar.