Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2013, Side 29

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2013, Side 29
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 3. tbl. 89. árg. 2013 25 „Brunchara“ er einnig á sínum stað og við höfum farið saman á ráðstefnur og í dekurferðir til Akureyrar. Nú höfum við þekkst í að minnsta kosti 16 ár, sumar lengur, og erum orðnar mjög nánar og virkilega góðar vinkonur. Ákveðið var að ganga Laugaveginn með trússi þannig að hægt væri að leggja mikið upp úr mat og drykk og ekkert var til sparað. Þá var einnig mikið lagt upp úr skemmtiatriðum. Skemmtilegar spurningakeppnir einkenna klúbbinn ásamt miklum leik­ og danshæfileikum. Þar sem ekki átti að hafa fararstjóra var leiðinni skipt niður á göngufélaga og sá hver og ein um ákveðinn hluta. Inni í því var að fræða hinar um það sem náttúran hefði upp á að bjóða og fara yfir söguna sem tengdist þeim kafla sem genginn var hverju sinni. Fengnar voru bækur að láni og kort keypt. Ávallt var hægt að læra og fræðast um leiðina og landssvæðið í heild sinni. Laugavegsgangan er 54 km og fer upp í 600 m hæð yfir sjávarmáli. Ýmsar hættur eru á leiðinni þannig að göngufólk þarf að vera í æfingu og við ýmsu búið. Undirbúningsvinna hófst og klúbbfélagar voru misákafir við að koma sér í form. Sumar fór vikulega á fjall, hjóluðu, aðrar fóru í Bootcamp, héldu áfram hlaupum, byrjuðu að hlaupa eða stunduðu aðra líkamsrækt af áfergju. Útbúnaður var flestur til hjá félögunum en okkur til mikillar ánægju fundum við verslun þar sem hægt var að fá góðan útivistarbúnað á enn betra verði en vanalega. Farið var í þrjár æfingaferðir, á Esjuna, Helgafellið og Akrafjallið. Þetta voru mjög mikilvægir áfangar og hjálpuðu til við að minnka kvíða fyrir því óþekkta. Aðeins tvær höfðu gengið Laugaveginn áður og vissu hvað þær voru að fara út í. Gerður var nákvæmur listi yfir allt það sem átti að fara með. Það var nú augljóst að ekki hefði verið möguleiki að fara þessa ferð með farangur hópsins í bakpokum. Hlutir eins og spilið kubbur, sem er þungt og fyrirferðamikið útispil, naglalakk og annað fínerí fékk að fara með í ferðina. Lagt var af stað í gönguna á fallegum sumardegi seint í júní 2012. Við vorum sex úr hópnum sem fórum í gönguna og gengið var frá Landmannalaugum. Veðrið lék við okkur. Við vorum í góðu formi og í réttu fötunum. Lögðum af stað upp úr hádegi. Við fórum Laugaveginn á fjórum dögum og gáfum okkur góðan tíma í að njóta náttúrunnar og hver annarrar og hafa gaman af þessu. Við gistum í skálum Ferðafélags Íslands og höfðum pantað gistingu með um hálfs árs fyrirvara. Við ætluðum ekki að vera of seinar. Allt var skipulagt í þaula. Gæfan var okkur hliðholl og erum við iðulega svo heppnar stelpurnar. Þetta var alvöru frí. Við gengum yfir úfið hraunið og upp og niður holt og hæðir. Náttúran hefur upp á margt að bjóða á fyrstu dagleiðinni. Mikilfengleg litadýrð og útsýnið, sem við höfðum, var æðislegt. Við áðum. Það sem við gátum ekki fengið nóg af í ferðinni var Swiss Miss og bollasúpur ásamt orkunamminu okkar en hver okkar fór heim aftur með um hálft kíló af hnetublöndu með suðusúkkulaði og um hálfan dunk af Swiss Miss. Í Hrafntinnuskeri gistum við okkar fyrstu nótt. Hreinn og góður skáli salernisaðstaðan snyrtileg en óvenjuleg, sem gerir þó fyllilega sitt gagn. Við elduðum og höfðum það huggulegt, kálfanudd var á boðstólum eftir erfiðan fyrsta dag sem gekk þó mjög vel. Í kvöldgöngunni var ákveðið að skrifa grein í Tímarit hjúkrunarfræðinga því við þyrftum að fræða kollega okkar um það hvað alvöru frí væri. Slökkva á símum, kveðja börn og menn, njóta nærveru vinkvenna og náttúrunnar. Þetta er lífið. Nútímamaðurinn er orðin svo góðu vanur að svona smávegis fjallgönguferð er hin mesta paradís, svo ekki sé minnst á yndislegan félagsskap. Við vöknuðum snemma næsta morgun, elduðum hafragraut og smurðum brauð. Lögðum síðan ánægðar af stað í átt að Álftavatni. Veðrið lék við okkur og ferð þessi varð full vonar um jafn góðan dag og fyrri dagur hafði verið. Þegar maður sér í Álftavatnið magnast tilhlökkunin um að komast í skálann og að komast í sturtu. Við komum að skálanum um kaffileytið í glaðasólskini og blíðu. Við höfðum nægan tíma til að fara í sturtu og koma okkur fyrir áður en skálafélagar okkar birtust gegnblautir upp fyrir haus með enga þurra flík í bakpoka. Eftir dýrindismáltíð (sumir skálafélagar okkar voru hissa á matseðlinum hjá okkur á meðan þeir hrærðu í bollasúpu) var farið út í leiki. Við fórum í kubb, sungum og trölluðum. Hve yndislegt er lífið.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.