Þjóðmál - 01.03.2012, Page 96
Þjóðmál VOR 2012 95
Væri Ísland í Evrópusambandinu og gengi
samrunastefnan til þess endapunkts, sem
trúuðustu samrunamennirnir þrá, mætti
með sanngirni segja, að staða hins íslenska
Alþingis yrði mjög áþekk því, sem hún var
á fyrstu dögum hins endurreista þings, fyrir
150 árum . [ . . .]
Um daga Jónasar Hallgrímssonar var
mikill munur á móðurríkinu, Danmörku
og hinum hrímhvíta kletti, hinum kalda
klaka ríkisins í norðri . Munurinn á aumasta
koti og hárri höll nægir vart til samanburðar
á Reykjavík og Kaupmannahöfn árið 1845 .
En hvorki Jónas skáld né Jón forseti efuðust
eitt augnablik um tilverurétt þjóðar sinnar,
þrátt fyrir það og því síður flögraði að
þeim, að þessi þjóð gæti ekki séð málum
sínum borgið, fengi hún til þess traust og
tækifæri .
Nú, 150 árum síðar, getur Ísland borið
sig kinnroðalaust saman við hvaða þjóð
sem er . Þetta land hefur ótal kosti, sem
margur þráir, sem annars staðar býr . Því er
þyngra en tárum taki, þegar velmenntað
og velmeinandi fólk er uppfullt af
vanmetakennd fyrir þjóðarinnar hönd . Þeir,
sem lengst ganga, segja að Ísland geti í besta
falli nýst sem verstöð til að tryggja þjóðinni
mannsæmandi líf í útlöndum .“
Auðvelt er að komast að þeirri niðurstöðu
að Páll oftúlki orð Davíðs svo að vægt sé til
orða tekið . Forsætisráðherra sagði til dæmis
hvergi að aðild að ESB jafngilti „svikum við
Jón forseta“ .
Þegar lesinn er kafli bókarinnar um
Evrópusambandið blasir tvennt við: Í
fyrsta lagi hve fráleitt er að túlka orð Jóns
Sigurðssonar í bréfi til bróður síns á þann
veg að í því felist stuðningur við ESBaðild .
Þegar Þorsteinn Pálsson vitnaði til þeirra árið
1989 stóð Íslendingum til boða að gerast
aðilar að innri markaði Evrópubandalagsins
án þess að ganga í bandalagið . Það gekk
síðan eftir með samningnum um evrópska
efnahagssvæðið árið 1992 . Það er mikill
munur á því að mæla með frjálsum
viðskiptum og aðild að fjórfrelsinu innan
Evrópubandalagsins og vilja aðild að ESB .
Í öðru lagi að í umræðunum um ESBaðild
er Jón Sigurðsson tákngervingur fyrir að
Íslendingar geti staðið á eigin fótum og átt
góð samskipti við aðrar þjóðir, þetta tvennt
eru ekki andstæður . Í því felst hins vegar
alls ekki að Íslendingum sé nauðsynlegt að
ganga í ríkjasamband á leið til sambandsríkis
í Evrópu .
Í umræðum um stöðu Íslands í samfélagi
þjóðanna og framtíðarmarkmið má
stundum heyra að það sé til marks um
afdalamennsku að benda á Jón Sigurðsson
eða önnur stór nöfn í Íslandssögunni máli
sínu til stuðnings . Þjóðerniskennd sem
brjótist fram á þennan hátt eða annan sé
ekki í takt við tíðarandann „úti í hinum
stóra heimi“ eða eigi ekki upp á pallborðið
hjá fræðimönnum .