Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Page 1
Brynhildur Þórarinsdóttir: Frá ritstjóra bls. 1
Frá ritstjóra
Brynhildur Þórarinsdóttir
Tímarit Máls og menningar hefur fengið andlits-
lyftingu. Það ætti ekki að fara fram hjá þeim sem á
þessu blaði halda. Blaðið hefur verið stækkað á alla
kanta, viðfangsefnum þess fjölgað og efnistökum
breytt. Tímaritið er litríkara en verið hefur, bæði í
útliti og efnisvali. Menningarumfjöllun eru í raun
engin takmörk sett og hún getur snert hvaða svið
mannlífsins sem er.
Þjóðmenningin sjálf er til umfjöllunar í þessu
blaði. TMM bauð sagnfræðingi, skáldi og kynja-
fræðingi upp á kaffi og kökur í Þjóðmenningarhúsinu
og hleypti umræðum þeirra um víðan völl.
Þjóðmenning Svía er einnig til skoðunar en
innflytjendur setja sífellt litríkari svip á sænskt
samfélag. Samtímis hefur þjóðernishyggju og
útlendingahatri vaxið fiskur um hrygg.
Ísland er nú að ganga í gegnum svipaða þróun og
Svíþjóð fyrir nokkrum árum. Mannlífið er að verða
litríkara og menningin fjölbreyttari en um leið eru
rasistar farnir að skjóta upp kollinum í fjölmiðlum.
Vilji menn taka á vandanum strax í byrjun er vert að
líta til þeirra landa sem reynsluna hafa, því „rasismi
er ekki skoðun heldur ofbeldi,“ eins og sagði í
yfirskrift hátíðardagskrár Mannréttindasamtaka
nýbúa fyrir skömmu.
Rasismi er ekki meðfæddur frekar en aðrar
kreddur. Ljóst er af athugun Margrétar Tryggva-
dóttur, sem birt er hér í blaðinu, að tilbúnir leikfanga-
heimar geta gefið börnum skakka mynd af
heiminum. Margrét kannaði dótakassa þekktra
framleiðenda og komst að því að þar ráða hvítir
karlmenn ríkjum. Konur og litað fólk sinna einungis
þjónustustörfum og ýmiss konar dundi.
Annað efni TMM er margvíslegt. Tímarit Máls og
menningar hefur löngum vakið athygli fyrir vandaðar
greinar á bókmenntasviðinu. Bókmenntir munu
áfram eiga greiða leið inn í TMM, jafnt skáldskapur,
vangaveltur sem rannsóknir. Í þessu fyrsta tölublaði
í breyttri mynd fær ljóðlistin nokkuð vægi sem
helgast af því að framundan er vika bókarinnar, að
þessu sinni tileinkuð ljóðum.
Framhaldssaga hefur göngu sína í blaðinu.
Sagan er óvenjuleg fyrir þær sakir að höfundar
hennar eru jafnmargir og sögukaflarnir og þurfa þeir
að leysa ákveðna þraut með skrifum sínum. Þá er
rétt að benda á skáldskap í myndum sem verður
sífellt vinsælla bókmenntaform en Bjarni Hinriksson
hefur skapað sérstakan teiknimyndaheim fyrir
TMM.
Nýjar íslenskar kvikmyndir eru teknar til
gagngerrar athugunar og íslenskar sakamálasögur
eru sendar til rannsóknar hjá lögreglunni.
Fjölmargt fleira er að finna í þessu fyrsta hefti
nýs TMM. Það tekur tíma að þróa nýtt blað og
aðeins lítill hluti leiðarinnar er að baki. Þetta tölublað
gefur forsmekkinn að því sem koma skal en hafa
ber í huga að lifandi menningartímarit er í stöðugri
þróun og óhrætt við að stefna í nýjar áttir. TMM er
ekki kvótablað í þeim skilningi að listgreinar sitji á
merktum bás í blaðinu, þær geta tvinnast saman,
setið í hásæti eða á hakanum, allt eftir því hvernig
vindar blása hverju sinni. Það eina sem er því hægt
að segja um næsta blað er að það verður fróðlegt,
fjölbreytt og ófyrirsjáanlegt.
Tímarit Máls og menningar, TMM, er með þessu
tölublaði orðið að Tímariti um Menningu og Mannlíf.
Því er ætlað að höfða til þess stóra hóps sem vill
njóta þeirra lystisemda sem lífið hefur upp á að
bjóða, fræðimanna jafnt sem almenns áhugafólks
um menningu og listir. Það er vel við hæfi að
endurtaka orð Kristins E. Andréssonar úr 1. tbl.
Tímarits Máls og menningar sem út kom í mars
1938: „Við munum ekki taka gildan neinn barlóm
eða víl, og viljum engan bölmóð heyra kveðinn yfir
þjóðinni. Við vitum, að hún á nægan auð, þrek og
gáfur, til að skapa sér menningarríkt líf.“
G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:44 PM Page 1