Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Page 7

Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Page 7
Brynhildur Þórarinsdóttir: Er glansmyndin að upplitast? bls. 7 Þeir sem gagnrýna borgaryfirvöld í innflytjenda- málum benda á að erlendir íbúar í Rinkeby hafi ekki átt neitt val. Þeim hafi verið beint þangað af ráðamönnum. Það sé einfaldlega verið að búa til gettó. Borgarskipulagið er talið undirrótin að þessari gríðarlegu stéttaskiptingu milli hverfa. Byggð voru stór úthverfi þar sem fyrst og fremst voru blokkir en minna var lagt í þjónustu og skólamál. Þar með fengu hverfin strax á sig illt orð og íbúarnir stimpil undirmálsmanna. Erfitt að sleppa frá nýnasistum Það má ræða um innflytjendur í Svíþjóð en það er viðkvæmara að ræða um þá sem eru andvígir þeim. Nýnasistar eru vandamál sem margir vilja gleyma að sé til staðar. Blöðin hafa tekið af skarið við að opna umræðuna. Fyrir fáeinum misserum birtu öll stærstu dagblöðin sams konar forsíðu einn daginn. Á henni voru myndir af tugum nasista. „Varist þessa menn!“ var inntakið. Lesendum var óneitanlega brugðið. Umræðan snýst um að útrýma vandamálinu, hreinsa landið af nýnasistum. Í sænsku pressunni er rætt um hvort rétt sé að reka unglinga úr skóla ef þeir eru hallir undir nasismann. Kveikjan að umræð- unni er að Christian sem er 18 ára hefur verið útilokaður frá skólagöngu í Skara til ársins 2002. Ástæðan: Áróður fyrir nasista. Aftonbladet spyr hvort þessi drengur hafi ekki einmitt þörf fyrir fræðslu og þjálfun í gagnrýninni hugsun. Með því að reka Christian er verið að kynda undir andstöðu hans – og fleiri við yfirvaldið. Hugmyndir nasista eiga einmitt greiða leið að þeim sem er uppsigað við yfirvöld, hvort sem um er að ræða skólastjórn eða lögreglu. Dæmi um þetta má lesa í bók Patriks Asplunds, Drifinn áfram af hatri eða Med hadet som drivkraft. Patrik, sem áður var virkur nýnasisti, lýsir því hvernig viðhorf fullorðna fólksins styrkti hann í „trúnni“. Honum fannst hann brennimerktur og reiðin vegna þess breyttist smátt og smátt í hatur. Fleiri bækur hafa verið skrifaðar um drengi sem snúa við blaðinu og segja skilið við hakakrossinn. Ein þeirra kallast Exit – Min väg bort från nazismen og er sönn saga Kents Linndahls sem í tíu ár var virkur nýnasisti. Líf hans einkenndist af hatri, ofbeldi og eiturlyfjaneyslu. Það er augljóst af sögu Kents að það er auðvelt að verða nýnasisti en það er erfiðara að losna. Kent, eins og margir fyrrverandi skoðana- bræður hans (og systur þótt þær séu mun færri), átti ömurlega æsku, hann var beittur ofbeldi og ánetjað- ist snemma fíkniefnum. Í nýnasistasamtökunum fékk hann útrás fyrir reiðina og ósættið við stöðu sína í lífinu. Nú starfar Kent að verkefni sem kallast Exit, og á að aðstoða þá sem segja skilið við nasismann við að lifa eðlilegu lífi. Margir sem eru í hans stöðu þurfa hreinlega lögregluvernd. Nýnasistar hata innflytjend- ur en það er samt ekkert sem þeir hata meira en fyrrverandi nýnasistar sem hafa „kastað trúnni“. G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:46 PM Page 7

x

Tímarit Máls og menningar

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.