Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Page 25

Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Page 25
Björn Þór Vilhjálmsson: Sögur úr samtímanum bls. 25 hins vegar ekki að líkja eftir innihaldi fyrirmyndanna heldur notar hann umgjörðina til að staðsetja atburðarásina á mjög skemmtilegan hátt í íslenskum veruleika. Fíaskó hefur á að skipa fjölbreytilegri persónu- flóru sem áhorfandinn kynnist meðan frásögninni vindur fram og þótt sögupersónurnar eigi sér ólík markmið og séu á misjöfnum aldri liggja leiðir þeirra saman í úthugsaðri formgerðinni. Sem dæmi má nefna atvikið þegar fjárhagsleg örvænting knýr Karl til að gera tilraun til bankaráns sem reyndar fer úrskeiðis á spaugilegan hátt. Meðan á ránstilraun- inni stendur hittir hann annan vonbiðil dótturdóttur sinnar, en sú staðreynd er báðum ókunnug. Það er fremur ámátlegur bankastarfsmaður (Ólafur Darri Ólafsson) sem í geðshræringu missir út úr sér ýmsar upplýsingar, sem síðar er hnykkt betur á, en athugull áhorfandi getur strax sett í rétt samhengi. Persónurnar eru enn fremur notaðar til að fjalla um ólíka þætti í íslensku nútímasamfélagi. Samúel, „stríðsmaður guðs“, reynist flottræfill á nesinu sem rekur trúarsamtök sín líkt og um bandaríska sjónvarpskirkju sé að ræða. Hann hefur safnaðarmeðlimi að fífli og er ekki hirðir þeirra nema að því leytinu til sem hann hirðir af þeim peningana. Án þess að of langt sé gengið í fullyrðingum má ætla að þessi skopmynd sem dregin er upp af Samúel eigi fullt erindi á Íslandi þar sem hinir ýmsu sérstrúarsöfnuðir klofna og fjölga sér eins og gorkúlur. Þá sjáum við fátæka ellilífeyrisþegann sem fer með það litla sem hann á í spilakassa, erkitýpu sjómannsins og stutt viðkoma er inni á nýfæddri strippbúllumenningu borgarinnar. Þá vitnar Ragnar líka á skemmtilegan hátt í eitt merkasta listaverk bandarískrar kvikmyndasögu, Sunset Boulevard (1950). Í þessari mynd Billy Wilders segir frá undarlegu ástarsambandi aldraðrar leikkonu og ungs handritshöfundar. Leikkonan er fallin stjarna frá tímum þöglu myndanna sem einangrast hefur á glæsiheimili sínu í firrtri minningu um forna frægð en fátækur handritshöfundurinn nýtur góðs af gestrisni hennar. Helga, sem segist vera virt leikkona sem enn fái fjölda tilboða, minnir óneitanlega á hlutverk Gloriu Swanson í áðurnefndri mynd. Veggirnir á heimili hennar eru skreyttir gömlum minjagripum og sjálf hegðar hún sér líkt og ekkert hafi breyst frá því að hún stóð á hátindi frægðarinnar, ef hún þá nokkurn tíma var fræg, því tök hennar á veruleikanum virðast dálítið farin að losna. Farið er smekklega með þessa tilvitnun líkt og annað í myndinni og unnið út frá henni í stað þess að taka hana upp á beinan hátt. Persónugerð Helgu vísar líka til einnar þekktustu skáldsagna- persónu hjarðbókmenntanna, sjálfrar Guðríðar Faxen, „kanamellunnar“ í sögu Indriða G. Þorsteins- sonar, 79 af stöðinni. Kostir Fíaskó eru reyndar fjarskalega margir og einskorðast engan veginn við meðvitaða notkun tilvitnana og textatengsla. Myndin er fagmannlega unnin á öllum sviðum, listrænt gildi í hávegum haft og einfaldlega má segja að hún sé sólríkur dagur í kvikmyndasumrinu íslenska. Í bók Indriða segir á einum stað um íslenska vorið: „Og næsta kynslóð á ekki lengur vor og ekki kyrrðina og vatnsblá skýin yfir heiðum; að okkar vor verður aldrei endurlifað öðruvísi en í minningu og í ljóðinu um tregann og ástina á landinu rauðu undan snjónum. Vor verður ekki fundið í bifreið, heldur í köldu leysingarvatni um fætur barnsins er göslast í pollum túnsins.“ (5) Í vorlýsingu Indriða er hjarð- sælan allsráðandi, vorið finnst ekki í bifreið og væntanlega enn síður á malbikuðum götum borgarinnar. Eins og áður segir er kvikmyndavorið íslenska loksins liðið, hjarðmyndin vonandi horfin í bili og ef verk á borð við Engla alheimsins, Fíaskó, 101 Reykjavik og Óskabörn þjóðarinnar leysa hana af hólmi er engin ástæða til annars en að horfa fram á veginn með bjartsýni. Allt eru þetta kvikmyndir sem hver í sínu lagi, og á ólíkan hátt, lofa góðu fyrir íslenska kvikmyndagerð. Á boðstólum eru nú meira að segja metnaðarfullar tilraunamyndir eins og Villi- ljós, þar sem fimm ungir leikstjórar fengu tækifæri til að vinna saman á sérstökum vettvangi. Meðan upprennandi listamenn hafa næg tækifæri til að leggja rækt við formið getur kvikmyndagerð á Íslandi aðeins vaxið og dafnað. Björn Þór Vilhjálmsson er bókmenntafræðingur. (1) Kristján B. Jónasson. „Íslenska hjarðmyndin: Andstæður borgar og sveitar í 79 af stöðinni og Land og synir“. Heimur kvikmyndanna. Ritstj. Guðni Elísson. Forlagið og art.is, Reykjavík 1999. Bls. 910. (2) Guðni Elísson. „Höfundur lífs síns: Myndsmiðurinn Friðrik Þór Friðriksson“. Morgunblaðið 8. desember 2000. (3) Grein Egils Helgasonar „Gegn banni!“ birtist í Tímanum 18. apríl 1982 og gerir ritskoðun Rokks í Reykjavík að umfjöllunarefni. (4) Sama. (5) Indriði G. Þorsteinsson. 79 af stöðinni. Iðunn. Reykjavík, 1962. (Fyrsta útgáfa 1955). Bls. 61. G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:49 PM Page 25

x

Tímarit Máls og menningar

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.