Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Blaðsíða 44

Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Blaðsíða 44
Raymond Carver (1938–1988) sendi frá sér fjölda skáldverka. Greinin birtist upphaflega árið 1987 í október/nóvember hefti tímaritsins Poetry. Óskar Árni Óskarsson þýddi. Nokkrar línur um ljóðlist Raymond Carver Fyrir langalöngu — það hefur verið annaðhvort 1956 eða 1957 — þegar ég var ungur og nýgiftur og vann fyrir salti í grautinn sem sendill hjá lyfsala í Yakima, litlum bæ austarlega í Washingtonfylki, ók ég með lyf að húsi í fínni hluta bæjarins. Mér var boðið inn fyrir af hressilegum öldungi í vestispeysu. Hann bað mig vinsamlegast að bíða inni í setustofunni á meðan hann fyndi tékkheftið sitt. Í stofunni var mikið af bókum. Bækur um allt, hvert sem litið var, á sófaborðinu, á hliðarborðunum, gólfinu við hliðina á sófanum — alls staðar þar sem var autt pláss voru bækur. Meira að segja var lítið bókasafn á einum veggnum. (Ég hafði aldrei áður séð einkabókasafn; sérsmíðaðan skáp fullan af bókum á venjulegu heimili.) Á meðan ég beið hvörfluðu augu mín um stofuna og stöðvuðust á tímaritshefti sem lá á sófaborðinu — það var óvenjulegt og að því að mér fannst mjög sláandi nafn á kápunni: Poetry. Ég varð furðu lostinn og greip heftið. Þetta voru fyrstu kynni mín af „litlu tímaritunum“, ég hafði aldrei séð ljóðatímarit áður, og ég varð orðlaus. Kannski var það af ágirnd en ég greip líka bók sem bar nafnið The Little Review Anthology og Margaret Anderson ritstýrði. (Mér finnst rétt að geta þess hér að mér var hulinn leyndardómur hvað „ritstýrði“ merkti.) Ég renndi fingrinum gegnum tímaritið, gerðist svo enn bíræfnari og fór að blaða í bókinni. Í henni voru ljóð og stuttir lausamálstextar og eitthvað sem mér sýndist vera athugasemdir eða jafnvel heilar blaðsíður með útskýringum fyrir hvern efnisflokk. Hvað í ósköpunum var þetta? Ég velti því fyrir mér. Ég hafði aldrei áður séð svona bók — og að sjálfsögðu ekki tímarit eins og Poetry. Ég horfði til skiptis á þessi ritverk og ásældist þau bæði í laumi. Þegar gamli heiðursmaðurinn hafði lokið við að skrifa ávísunina, sagði hann, eins og hann læsi huga minn: „Taktu þessa bók með þér, strákur. Þú finnur kannski eitthvað þarna sem þér líkar. Hefurðu áhuga á ljóðum? Af hverju tekurðu ekki tímaritið líka? Kannski átt þú sjálfur einhvern tíma eftir að skrifa eitthvað. Ef svo færi, þá verðurðu að vita hvert á að senda það.“ Hvert á að senda það. Eitthvað — ég vissi ekki alveg hvað það var en ég fann að eitthvað alveg sérstakt var að gerast. Ég var átján eða nítján ára, heltekinn af þörfinni fyrir að „skrifa eitthvað“, og þegar hér var komið hafði ég gert nokkrar veikburða tilraunir til að setja saman ljóð. En eiginlega hafði mér aldrei dottið í hug að til væri staður þangað sem ég gæti í raun og veru sent þessar tilraunir mínar í von um að þær yrðu lesnar og hugsanlega — þótt mér þætti það ótrúlegt — skoðaðar með útgáfu fyrir augum. En hér hélt ég á áþreifanlegri sönnun þess að einhvers staðar úti í hinum stóra heimi væri til ábyrgt fólk sem gaf út, svei mér þá, mánaðarrit með ljóðum. Ég varð þrumu lostinn. Eins og ég sagði leið mér líkt og ég hefði orðið fyrir opinberun. Ég margþakkaði þessum gamla heiðursmanni og fór mína leið. Ég fór með ávísunina til lyfsalans, yfirmanns míns, og tók Poetry og The Little Review heim með mér. Og þannig hófst menntun mín í skáldskap. Að sjálfsögðu man ég ekki nöfnin á höfundunum sem áttu efni í þessu tímaritshefti. Líklegast voru þarna nokkur viðurkennd eldri skáld samhliða nýjum, „óþekktum“ skáldum, nánast sama staða og er hjá tímaritinu enn í dag. Náttúrlega þekkti ég hvorki haus né sporð á neinum rithöfundi þegar þetta var — og ég hafði heldur ekkert lesið, hvorki rit módernistanna, samtímabókmenntir né neitt annað. Ég man að ég tók eftir því að tímaritið var stofnað 1912 af konu sem hét Harriet Monroe. Árið man ég af því að þetta var sama ár og faðir minn fæddist. Seinna þetta kvöld, hálfdasaður af lestri, fékk ég það sterklega á tilfinninguna að líf mitt væri að taka einhverja nýja og mikilvæga — já, það hljómar kannski einkennilega — stórkostlega stefnu. Mig minnir að í sýnisbókinni hafi verið alvarleg umfjöllun um „módernisma“ í bókmenntum, og hvaða þátt í þróun hans hefði átt maður sem bar það undarlega nafn Ezra Pound. Nokkur ljóða hans, bréf og listi yfir reglur — hvernig ætti að skrifa og hvernig ekki — voru einnig birt í sýnisbókinni. Þar mátti lesa að á fyrstu árum tímaritsins hefði fyrrnefndur Ezra Pound verið ritstjóri þess í útlöndum — þessa sama tímarits og borist hafði upp í hendur mínar einmitt þennan dag. Það sem meira var, Pound hafði verið afar hjálplegur við að kynna verk nýrra skálda í tímaritinu hennar Monroe og einnig í The Little Review. Eins og allir vita var hann óþreytandi við að ritstýra og koma á framfæri höfundum eins og H.D., T.S. Eliot, James Joyce og Richard Aldington, svo fáein nöfn séu nefnd. Þarna var líka einhver umræða og greining á stefnum í ljóðlist; ímagismi, man ég að var ein af þessum stefnum. Ég komst að því að auk The Little Review, var Poetry tímarit sem var opið fyrir skrifum í anda ímagisma. Þegar hér var komið var allt farið að hringsnúast í höfðinu á mér. Ég get ekki ímyndað mér að ég hafi sofið mikið þessa nótt. Þetta átti sér stað eins og ég hef áður sagt árið 1956 eða 1957. Hvað hef ég mér þá til afsökunar á að það hafi tekið mig tuttugu og átta ár eða meira að senda tímaritinu Poetry efni? Ekkert. Það sem var alveg einstakt og réð úrslitum var að þegar ég loksins sendi eitthvað til þeirra árið 1984 kom tímaritið enn út, var enn framsækið og eins og endranær var því ritstýrt af ábyrgu fólki sem hafði það að leiðarljósi að halda úti þessu ágæta tímariti og gera það vel. Og einn ritstjóranna skrifaði mér og lauk lofsorði á ljóðin mín og sagði mér að tímaritið mundi birta sex þeirra þegar þar að kæmi. Brást ég glaður og hreykinn við þessu? Auðvitað gerði ég það. Og ég held að hann eigi líka skilið hluta af þakklæti mínu, þessi nafnlausi gamli heiðurs- maður sem gaf mér eintak af tímaritinu. Hver var hann? Hann hlýtur að vera löngu dáinn núna og litla bókasafnið hans hefur tvístrast og að lokum lent þangað sem lítil og sérhæfð, og oftast frekar verðlítil, bókasöfn hafna að lokum — í hillum fornbókasala. Ég hafði sagt honum daginn sem ég hitti hann að ég mundi lesa tímaritið ásamt bókinni og að ég léti hann vita hvernig mér líkaði. Ég gerði það auðvitað aldrei. Það var of margt annað sem bankaði upp á hjá mér; þetta var loforð sem var auðvelt að gefa og gleyma svo um leið og dyrnar lokuðust á hæla mér. Ég sá hann aldrei eftir þetta, og ég vissi aldrei hvað hann hét. Það eina sem ég get sagt er að þessi samfundur átti sér í raun og veru stað og nokkurn veginn eins og ég hef lýst honum. Ég var bara strákhvolpur þegar þetta var en ekkert getur útskýrt eða varpað ljósi á slík augnablik: andartakið þegar einmitt það sem ég þurfti mest á að halda í lífinu — köllum það leiðarstjörnu — var hreinlega lagt upp í hendurnar á mér af miklu örlæti. Ekkert í líkingu við þetta atvik hefur borið fyrir mig síðan. G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:54 PM Page 44
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Tímarit Máls og menningar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.