Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Page 58
Í skjóli raunveruleikans
Íslenskar glæpasögur í lögreglurannsókn
Karl Steinar Valsson
Íslenskt samfélag hefur tekið umfangsmiklum
breytingum á síðustu áratugum, mannlífið orðið
fjölbreytilegra og upplýsingabyltingin hefur sett
mark sitt á það. Þegar ég var spurður að því fyrir
skömmu hvernig mér litist á að setja fáein orð á blað
um það hvernig íslenskar sakamálasögur endur-
spegluðu þann raunveruleika sem lögreglumenn sjá
í starfi sínu fannst mér hugmyndin strax mjög
spennandi. Ekki síst vegna þess að ég hef í gegnum
tíðina lesið mikið af sakamálasögum, mest erlendum
vegna þess hversu fáar innlendar bækur hafa verið
til af því tagi. Og lestur þeirra hefur ekki alltaf fallið
mér í geð og frásagnirnar ekki alltaf gengið upp í
mínum huga. Þetta er þó að breytast til betri vegar,
bæði eru innlendir reyfarar orðnir fleiri og gæði
þeirra hafa stóraukist. Svo allrar sanngirni sé gætt
má þó segja að íslenskt samfélag hafi þar til fyrir
fáum árum verið svo einlitt og fábreytt að það hafi
ekki gefið mikil tækifæri til þess að skapa þar lifandi
og trúverðugar frásagnir af æsilegum sakamálum.
En hvað skyldi búa að baki þessari þróun? Öllum er
ljóst að umfjöllun um lögreglumál og mál tengd
afbrotum hefur aukist verulega hér á landi. Að hluta
til er það vegna stóraukinnar fjölmiðlunar, að hluta til
vegna aukins upplýsingastreymis frá yfirvöldum,
meðal annars vegna áhuga almennra borgara á
þessum málaflokki. Á lögreglu hvílir, eins og yfir-
völdum almennt, meðal annars sú skylda að fræða
almenning um þróun afbrota og samhliða því hvað
gera megi til að hindra afbrot og fjölgun þeirra eins
og kostur er.
Þótt það kunni að þykja einkennilega til orða
tekið af lögreglumanni, þá hefur aukin tíðni afbrota
og fleiri alvarleg sakamál gefið rithöfundum miklu
meiri möguleika en áður til þess að sviðsetja
trúverðuga glæpasögu í íslenskum samtíma. Það er
kannski hið eina „jákvæða“ við þessa þróun á
Íslandi.
Fyrsta afbrotasaga sem kom upp í huga minn í
þessu sambandi var Svartfugl Gunnars Gunnars-
sonar sem lengi hefur verið ein af mínum uppá-
haldsbókum. Þar eru raunverulegir atburðir settir á
svið með sterkri persónusköpun og skírskotað til
frumheimilda um sakamál. Svartfugl kom fyrst út á
íslensku 1938 og mun vera að koma út í nýrri útgáfu
á þessu ári. Í þeirri bók sýnir Gunnar okkur að hægt
er að byggja á raunverulegum heimildum og halda
tryggð við staðreyndir, en búa jafnframt til grípandi
frásögn. Þessi frásagnarmáti er reyndar þekktur í
nútímabókmenntum og má líka vísa í Grámosann
glóir eftir Thor Vilhjálmsson sem einnig byggir að
miklu leyti á raunverulegum atburðum.
Fleiri kvikmyndir kalla á góðar saka-
málasögur
Allar götur síðan Svartfugl kom út má segja að
áhrifamiklar sakamálasögur í íslensku umhverfi hafi
verið afar fáar, þar til á síðasta áratug. Að mínu mati
má ótvírætt rekja þá þróun að hluta til sífellt fleiri
kvikmynda um sakamál. Oftar en ekki eru þær
byggðar á bókum og hafa þannig skapað mikla
spurn eftir sakamálasögum
Fyrir nokkrum árum hefði verið nánast útilokað
að skrifa bók eða frásögn um morð og sviðsetja hér
á landi. Frásögnin hefði þótt ótrúverðug og ekki
verið líkleg til að halda athygli lesenda, sem vissu
sem var að morð voru afar fátíð í íslensku samfélagi
og jafnvel mörg ár liðu án þess að nokkurt morð
væri framið á Íslandi. Þessu er nú öðruvísi farið, því
alvarlegum afbrotum hefur fjölgað verulega og
mörg þeirra eru vel skipulögð og undirbúin.
G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:55 PM Page 58