Tímarit Máls og menningar - 22.10.2002, Blaðsíða 40
Framan af sumri
Framan af sumri þegar máninn sendir út leynitákn
og liljubikararnir flæða um anganhvolfið
opnast margt eyrað við engisprettutíst
til að hlusta á hringsól jarðarinnar
og mál hinna frelsuðu anda.
En í draumunum fljúga fiskarnir í loftinu
og skógur festir rætur í stofugólfinu
en í miðjum klíðum töfranna
mælir tær og undrandi rödd:
Veröld! Hvernig geturðu haldið áfram loddaraleik þínum
og dregið tímann á tálar.
Veröld! Eins og flögrandi fiðrildum
hefur litlu börnunum verið varpað í logana.
Og jörð þinni hefur ekki verið fleygt eins og rotnuðu epli
í skelfingu lostin undirdjúpin.
Og Sól og Máni hafa haldið áfram lystigöngu sinni,
tvö rangeygð vitni sem ekkert hafa séð.
Landslag kveinstafa
Á nóttunni þegar Hel tekur að spretta saumum
slítur landslag kveinstafa svarta fyrirbandið frá.
Yfir Móría, bjargi upphafningarinnar til Guðs,
sveiflar fáni fórnarsveðjunnar, grátbæn ástmagar
Abrahams,
varðveittri enn í voldugu eyra ritningarinnar
og myndletur ópsins rist á hurð dauðadyranna.
Sárakristallar úr þverbrotnum barkaflautum.
Ó, ó, hendur fingraðar harmkvælajurtinni,
kaffærðar í æðisskekin föx fórnarblóðs.
Óp innsigluð fiskkjálkatætildum.
Angistarteinungur minnstu barnanna
og andkafa slóði gamalmenna
sprengd inn í sviðnuð bládjúpin með logasveipum.
Klefar fanganna hinna heilögu
dúklagðir martraðarmynstri kverkanna,
sóttvíti í hundakofa brjálæðisins úr fjötruðum tilhlaupum.
Þetta er landslag kveinstafa, himnaför kveinstafa
upp úr rifgirðingum líkamans.
Oddaflug kveinstafa, leist úr viðjum blóðugra örvamæla.
Eldstormakvein Jobs og launungarópið í Olíufjallinu
líkt skordýri í kristalnum yfirbuguðu af vanmætti.
Ó, rýtingur kveldroðans, fleygaður í strjúpana
þar sem blóðþyrstum svefntrjám skýtur upp úr moldinni.
Þar sem tíminn hrynur af beinahrönglinu í Magdanet
og Hiroshima.
Óp þrumunnar úr blindpíndu spámannsauga.
Ó, þú blæðandi auga í sundurtættum sólmyrkvanum
hengt upp til guðsþerris í alheiminum.
Jóhannes úr Kötlum þýddi
Nelly Sachs
Fimm ljóð
38 Ljóðaþýðingar Jóhannesar 22.10.2002 10:10 Page 40