Morgunblaðið - 10.03.2016, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 10.03.2016, Blaðsíða 24
24 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. MARS 2016 Á þessu herrans ári 2016, sóttu 215 ein- staklingar um lista- mannalaun úr þeim sjóði sem ætlaður er rithöfundum. Tæpum tveim af hverjum þrem var hafnað en 75 duttu í lukkupottinn. Flestir þeirra höfðu verið í lukkupottinum árum saman, nokkrir nær samfellt frá árinu 1976. Aðrir lítið eitt skemur og með smáhléum. Þá er ótalinn tugur umsækjenda, sem fékk fyrst listamannalaun um síðustu aldamót og hefur síðan haldið þeirri stöðu á hverju ári, samfleytt í 17 ár, en nokkrir sjaldn- ar. Nýliðarnir, sem nú fá lista- mannalaun í fyrsta sinn eru 13. Stjórn listamannalauna hefur ítrekað hreyft þeirri hugmynd að þak verði sett á hversu oft sami listamaður geti samfellt fengið listamannalaun. Þessi hugmynd mætti strax harðri andstöðu lista- manna og stjórn Rithöfundasam- bandsins var algerlega mótfallin slíkri breytingu. Og ráðherrar menntamála, hver eftir annan, hafa ekki séð ástæðu til að fara gegn vilja rithöfunda hvað þetta varðar og núverandi menntamálaráðherra sem komst svo að orði að listin væri „dauðans alvara,“ hefur látið þar við sitja, því listamenn eru magn- aður þrýstihópur svo sem kunnugt er. Núverandi stjórn Rithöfunda- sambandsins er nú, líkt og fyrr, öll á listamannalaunum: formaður, varaformaður og þrír meðstjórn- endur og hafa fjórir þeirra verið þar árum saman og þar situr einnig sá, sem lengst allra hefur verið for- maður. Hann hefur verið á lista- mannalaunum meira og minna frá 1977 til 2016. Það er því ljóst að Rithöfundasambandið vill ekkert þak og telur núverandi fyrir- komulag henta best skjólstæðing- um sínum. Tímabilið 2000-2016 Umsóknir úr rithöfundasjóði listamannalauna síðastliðin 17 ár voru alls 2.791. Af þeim hópi þurfti úthlutunarnefndin að skrifa 1.729 bréf til þeirra sem var hafnað. Hér er þó ekki um að ræða fjölda ein- staklinga því margir þeirra höfðu sótt um árum saman, nokkrir í allt að 14 ár samfleytt en aðrir skemur. Þetta eru samt nokkur hundruð ein- staklingar sem fengu í hendur bréf frá úthlutunarnefndinni, sama bréf- ið ár eftir ár: Úthlutunarnefnd Launasjóðs rit- höfunda hefur fjallað um umsókn yðar um starfslaun listamanna. Því miður var ekki unnt að verða við umsókn yðar að þessu sinni. Gögn sem fylgdu umsókn, svo sem bækur og handrit, skulu sótt sem allra fyrst og eigi síðar en 1. apríl. Að öðrum kosti verða þau send umsækjanda á hans kostn- að. Ekki er tekin ábyrgð á fylgi- gögnum eftir 1. september, eftir þann tíma verður þeim fargað. Úthlutunarnefnd Launasjóðs rithöfunda. Hvað um það Það veldur mér engu hugarangri þótt ágætir rithöfundar hljóti lista- mannalaun árum sam- an. Í ár eru mánaðar- laun þeirra 339.494 krónur. Það gerir rúm- ar fjórar milljónir í árs- laun. Og þeir sem hreppa stóra vinning- inn (heiðurslaunin) fá ýmist þrjár milljónir og 862 þúsund krónur á ári eða aðeins þrjár milljónir og 89 þúsund. Hver slær hendinni á móti slíku? Segir ekki máltækið: Hver er sjálfum sér næstur. Og erum við ekki öll mannleg? Mér ofbýður hins vegar sú niðurlæging sem stór hóp- ur rithöfunda þarf að þola auk fjölda annarra einstaklinga sem hafa ástríðu og löngun til að stunda skáldskap og er alltaf synjað um listamannalaun. Þáttur alþingismanna Alþingismenn eru þektir fyrir að leysa vandamál með því að skipa nefndir og ráð og telja gjarnan að sá gjörningur leysi allan vanda. Í um- ræðum um listamannalaun á Alþingi 27. janúar sl. lýstu margir þeirra sem til máls tóku undrun sinni og hneykslan yfir því að menn væru með múður, við værum með stofnun á vegum rithöfunda sem sæi um þessi mál. Frummælandinn, Ás- mundur Friðriksson, átti greinilega í vök að verjast og benti á að fram- kvæmd listamannalauna væri ekki hafin yfir gagnrýni og tóku sumir að vísu undir það sjónarmið. Í þessum umræðum komst einn ágætur þing- maður svo að orði að rithöfundar ættu engan málsvara: „Þetta fólk hefur engan stuðning, enga stofnun, enga skrifstofu til að fara á.“ En það er nú öðru nær. Rithöfundar eiga heilt stéttarfélag, Rithöfundasam- band Íslands og þar áður önnur samtök allt frá árinu 1928. Þetta slagar hátt upp í heila öld. Í lögum Rithöfundasambandsins segir að til- gangur þess sé „að gæta hagsmuna rithöfunda og standa gegn hvers kyns ofsóknum á hendur rithöfund- um og hindrun í starfi þeirra“. Fé- lagsmenn í Rithöfundasambandinu eru nú á fimmta hundrað. Til fróð- leiks má nefna að 63% þeirra um- sækjenda um listamannalaun frá 2000 til 2016 eru félagar í Rithöf- undasambandinu. Hinir eru án stéttarfélags og má því segja að það sé sá hópur sem engan málsvara á. Hitt er svo annað mál hve vel Rit- höfundasambandinu hefur tekist að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, allra eða bara sumra. Tvö einbýlishús á Ægisíðu Í áðurnefndum umræðum á Al- þingi komst annar háttvirtur þing- maður svo að orði að heildarfjár- munir til listamannalauna í ár væru um 560 milljónir og léti nærri að væri andvirði tveggja einbýlishúsa á Ægisíðu. Þarna er auðvitað átt við alla flokka listamanna sem hljóta listamannalaun (hönnuði, myndlist- armenn, sviðslistafólk, tónlistarflytj- endur, tónskáld og rithöfunda). Ef aðeins er tekin sú upphæð lista- mannalauna sem rennur til rithöf- unda í ár eru þetta um 197,2 millj- ónir. Ef við bætum við þeim 28,6 milljónum sem Alþingi veitti níu rit- höfundum í heiðurslaun í ár gerir þetta tæpar 226 milljónir, sem ætti að slaga upp í eitt einbýlishús á Æg- isíðu ef fasteignamat þingmannsins stenst. Stóru bókaforlögin og áhrif þeirra Úthlutunarnefnd til rithöfunda byggist á stöðluðum verklagsreglum líkt og aðrar úthlutunarnefndir listamannalauna. Þetta kemur vel fram í grein sem Kjartan Már Óm- arsson skrifaði og birtist í Morg- unblaðinu 5. júlí í fyrra. Við mat á umsóknum um listamannalaun hef- ur úthlutunarnefndin lagt mikla áherslu á að verk umsækjenda hafi fengið birtingu og hvar þau hafa birst. Birting hjá stóru forlagi sem auglýsir mikið skiptir máli. Þeir sem gefa út bækur sínar sjálfir eða hjá litlu og lítt þekktu forlagi eru nánast útilokaðir, nema þeir hafi eitthvað sérstakt til brunns að bera, eitthvað sem hefur auglýsingagildi í fjöl- miðlum eða eigi að einhvern áhrifa- mikinn stuðningsmann. Þessi vinnu- brögð hafa viðgengist árum saman með smávægilegum breytingum, sem virðast oft frekar yfirborðs- legar. Ég veit ekki til þess að í þess- ari umræðu hafi nokkurn tíma verið rætt um vanhæfi þótt umsækjandi hafi verið nátengdur einhverjum áhrifaaðila, sem allmörg dæmi eru um. Bækur þeirra 140 umsækjenda sem var hafnað 2016 eru yfirleitt gefnar út af höfundinum sjálfum. Bækur þeirra sem fengu lista- mannalaun í ár eru nánast und- antekningarlaust gefnar út af sórum útgefendum, aðallega: JPV, Forlag- inu og Máli og menningu, sem eru reyndar eitt og sama fyrirtækið ásamt Vöku-Helgafelli og Heims- kringlu og hafa einnig á sinni könnu rekstur og útgáfu Tímarits Máls og menningar. Þetta er ekki sagt útgef- endum til hnjóðs heldur aðeins til að rökstyðja óeðlileg áhrif þeirra á störf úthlutunarnefndar listamanna- launa. Sama er upp á teningnum þegar litið er yfir tímabilið frá alda- mótum til 2016. Bækur þeirra sem fá listamannlaun eru með örfáum undantekningum gefnar út af stóru forlögunum. Þeir sem þurfa sjálfir að gefa út bækur sínar, oft af litlum efnum, fá í flestum tilfellum ekki listamannalaun. Þetta er hinn kaldi raunveruleiki. Þingmenn vantreysta sjálfum sér Þetta hljómar sem öfugmæli en þegar upp kom sú hugmynd að þing- menn ættu sjálfir að úthluta lista- mannalaunum, líkt og áður tíðkaðist þá lýstu þeir hver um annan þveran andstöðu við hugmyndina og einn komst svo að orði að Alþingi væri „einn versti staður,“ til að ákveða hverjir eigi að fá listamannalaun. Er ekki hugsanlegt að ný kynslóð þing- manna valdi sinnaskiptum, neiti að fara ofan í skotgrafirnar. Ég hef trú á því. Ég vil benda á að undirliggj- andi pólitísku viðhorfi eru auðvitað ákveðin grundvallar viðhorf. Og pólitík í þeim skilningi er ekki bara á Alþingi heldur alls staðar í kringum okkur þar sem rætt er um menn og málefni. Það gleymist oft að í litlu landi eins og okkar eru áhrif per- sónutengsla mjög mikil og áhrif fjöl- miðla eru hvergi meiri en í fámenn- um, einlitum samfélögum eins og á Íslandi. Áberandi í bókmenntum Um og eftir miðja síðustu öld voru órímuð ljóð umdeild og hefðbundin, rímuð ljóð hátt skrifuð. Enn í dag hefur þetta áhrif á skoðanir fólks. Það hefur lengi verið viðhorf þeirra sem skrifa ritdóma um ljóðagerð og reyndar almennings líka, að mæli- kvarði á góð ljóð sé að þau séu „gáfuleg.“ Miður gáfuleg ljóð hafa átt undir högg að sækja. Ég held að flestir viti hvað hér er átt við. Róm- antískur skáldskapur hefur lengi verið hátt skrifaður á Íslandi en þegar kemur að grófum erótískum skáldskap hafa sumir álitsgjafar þjóðarinnar á sviði bókmennta haft tilhneigingu til að fara á taugum. Sakamálasögur eru vinsælar í dag og frá fornu fari hafa Íslendingar alltaf verið hrifnir af bardagasögum þar sem menn voru höggnir í herðar niður og þar fram eftir götunum. Skáldsögur sem byggjast á sögu- legum grunni eða eru endursagðar upp úr Íslendingasögunum hafa lengi verið vinsælar. Aðrir eru meira fyrir frumlegan skáldskap. Rithöf- undar og ljóðskáld sem berjast af ástríðu gegn óréttlæti í heiminum hafa alltaf verið umdeildir. Sama á við um þá sem beita fyrir sig kald- hæðni gagnvart einu og öllu, gagn- vart álverum, trúmálum, óspilltri náttúru, vændi og svo mætti lengi telja. Svo eru það rithöfundar sem hafa engan boðskap og fylgja þeirri bókmenntastefnu sem nefnd hefur verið „listin fyrir listina“. Þá er það höfundurinn sjálfur sem hefur áhrif: Hver er hann? Það hefur alltaf skipt máli hver hann er. Hallgrímur Helgason skrifaði stórmerkilega grein um áhrifamátt höfundarins í tímaritið Stínu í apríl 2007 og nefnir grein sína: Lesandinn er slappur, bókin er veik en höfundurinn hress. Hann kemst svo að orði: „Við lifum á öld höfundarins. Höf- undurinn er jafnvel fyrirferðarmeiri en verk hans. Hann er alltaf í forgr- unni, verkin í bakgrunni. Gott dæmi, þótt úr öðrum geira sé, eru ljós- myndir sem fylgja viðtölum við myndlistarmenn í dagblöðum og tímaritum dagsins. Afurðir lista- mannsins eru aukaatriði. Andlit hans og ímynd eru númer eitt.“ Síðar í greininni víkur hann að bókmenntahátíðum sem haldnar eru víða um heim þar sem höfundar lesa upp úr bókum sínum og þangað kemur fólk „til að sjá höfundinn og kynnast honum“. Almenningur á Ís- landi þekkir nöfn þeirra höfunda sem mest eru auglýstir, þeirra sem fá bækur sínar gefnar út hjá stóru forlögunum en ef spurt er: Hvaða bækur? Þá verður oft fátt um svör. En sem betur fer eru á þessu und- antekningar. Viðhorf almennings til rithöfunda og skáldskapar byggist á ýmsu, eins og hér hefur verið rakið og það á líka við um þá sem sitja í úthlutunarnefndum listamanna- launa. Áhrifamikil stofnun Rithöfundasambandið er áhrifa- mikil stofnun og þar ræður ferðinni stjórnin og þannig hefur það verið lengi. Hún gerir tillögu til mennta- málaráðherra um hverjir skuli vald- ir í úthlutunarnefnd listamanna- launa og hún var mótfallin því að þak yrði sett á fjölda ára sem sami rithöfundur má fá listamannalaun. Og þegar ráðherra setti reglugerð um listamannalaun var, að tillögu stjórnar RSÍ, sett inn heimild til að veita sama rithöfundi listamanna- laun í allt að þrjú ár í senn. Og þegar vakin var athygli á því að flestir þeirra sem voru á listamannalaun- um væru jafnframt í föstu starfi, sem samkvæmt lögum er óheimilt þá samþykkti stjórnin að í staðinn fyrir „fast starf“ kæmi „fullt starf“ sem jafnframt yrði skilgreint sem 67% starf eða meira. Þar með var í raun áfram hægt að sniðganga lögin þeim í hag sem voru í föstu, launuðu starfi jafnframt því að vera á lista- mannalaunum. Stjórnin hefur því vissulega gætt hagsmuna félags- manna sinna, í það minnsta sumra. Og þegar farið var fram á heimild til að greiða listamannalaun inn á kennitölu einkahlutafélags viðkom- andi listamannalaunþega gerði stjórn Rithöfundasambandsins enga athugasemd. Menntamálaráðherra hafnaði reyndar hugmyndinni og hefur sennilega fundist nokkuð langt gengið. Annars hafa ráð- herrar, sem farið hafa með yfir- stjórn þessara mála verið ótrúlaga sofandi og sama má segja um al- þingismenn. Eldri höfundar Í lögum um listamannalaun er heimild til að veita listamannalaun þeim listamönnum „sem fengið hafa listamannalaun undanfarin ár og eru orðnir 60 ára eða eldri“. Þetta laga- ákvæði útilokar þá, sem komnir eru yfir sextugt ef þeir hafa ekki áður sótt um og fengið listamannalaun. Eldri höfundar sem sótt hafa um listamannalaun í fyrsta skipti eftir miðjan aldur hafa því aldrei fengið listamannalaun en þetta er allstór hópur og hefur farið vaxandi. Hér er auðvitað gróflega brotið á rétti þess- ara einstaklinga sem árum saman hefur verið synjað um listamanna- laun og án þess að úthlutunarnefnd- in sæi ástæðu til að vekja athygli þeirra á þessu furðulega ákvæði. Það virðist því vera ríkjandi viðhorf hjá þeim sem hafa með úthlutun listamannalauna að gera að ein- staklingum sem ekki sækja um lista- mannalaun fyrir sextugt beri að hafna. Þó eru dæmi þess að ein- staklingar hafa stundað ritstörf sem aðalstarf eftir að þeir voru komnir yfir sjötugt, jafnvel áttrætt. Það virðist oft gleymast að margir rit- höfundar skrifuðu sum af sínum bestu verkum eftir að þeir voru komnir á áttræðisaldur og nægir í því sambandi að nefna norska skáld- ið Knut Hamsun, sem var virkur og áhrifamikill rithöfundur fram til ní- ræðs. Með bættu heilsufari hefur líf- aldur hækkað og fjöldi rithöfunda sem komnir eru á níræðisaldur er enn að skrifa skáldverk og yrkja ljóð. Ekki bara rithöfundar Í grein þar sem Kolbrún Berg- þórsdóttir ræddi við listmálarann Pétur Gaut og birtist í Morgun- blaðinu 23. júní 2013 segir hann: „Hér áður fyrr, þegar ég var búinn að fá tíu sinnum neitun hjá úthlut- unarnefnd listamannalauna var ég farinn að hugsa með mér: Hvað þarf ég að gera til að fá úthlutun?“ Og síðar í greininni segir: „Ég ákvað að hætta að svekkja mig á þessu og hef ekki sótt um listamannalaun síðustu árin. Heldur reynt að standa á eigin fótum.“ Mér finnst trúlegt að ýmsir listamenn aðrir en rithöfundar og myndlistarmenn hafi sömu sögu að segja. Kiljan fyrir rithöfunda Lengi var Lesbók Morgunblaðs- ins sá fjölmiðill sem best kynnti rit- höfunda og verk þeirra. Árið 2007 tók Ríkisútvarpið við því hlutverki og hefur gegnt því síðan af miklum skörungsskap með bókmenntaþætt- inum Kiljunni. Og rithöfundar eru mjög glaðir þegar fjallað er um verk þeirra og þá sjálfa. En svo er ein hjáróma rödd sem kvartar. Hvers vegna er ekki fjallað um mínar bæk- ur? Ég hef þó stundað skáldskap í hálfa öld og er enn að. Mér er spurn! Og hvað segir stjórnandi Kiljunnar þegar spurt er: Hvers vegna er ekki fjallað um mínar bækur. Og svona spurningum ansar hann ekki. Og hvað segir umboðsmaður Alþingis um það, á maður ekki að fá svar? Og umboðsmaður Alþingis segi: Þetta heyrir ekki undir mig, talaðu við fjölmiðlanefnd. Og hvað segir fjöl- miðlanefnd? Ekki nægt tilefni. Ha? Og menn setur hljóða. Auðvitað leita til stéttarfélagsins. Biðja þá að hlaupa undir bagga og biðja stjórn- anda Kiljunnar að svara til saka. Og stjórn stéttarfélagsins svarar þeim kvartsára, sem er auðvitað enginn annar en höfundur þessa pistils: „Það er ekki hlutverk stjórnarinnar að sjá til þess að fjölmiðlar svari er- indum höfunda.“ Hvað er til ráða Ég tel að setja eigi þak á fjölda ára sem sami rithöfundur fær lista- mannalaun, t.d. miðað við fjögur ár og takmarka eigi greiðslur til lista- manna við sex mánuði í senn. Mér finnst koma til greina að veita lista- mannalaun rithöfundum sem þurfa sjálfir að gefa út bækur sínar. Þá tel ég að veita eigi listamannalaun í auknum mæli til listviðburða og bókmenntalegrar starfsemi, m.a. til að greiða rithöfundum fyrir flutning verka sinna og birtingu þeirra í sjónvarpi og tímaritum. Með lagfær- ingum á gildandi lögum um lista- mannalaun og framkvæmd þeirra tel ég að auka eigi framlag til þessa málaflokks, segjum, um sem svarar til … eins einbýlishúss á Ægisíðu. Um listamannalaun og stéttarfélag rithöfunda Eftir Braga Jósepsson »Ég tel að veita eigi listamannalaun í auknum mæli til list- viðburða og bókmennta- legrar starfsemi. Bragi Jósepsson Höfundur átti sæti í úthlutunarnefnd listamannalauna 1979 og 1980 og er rithöfundur og prófessor emeritus. Atvinnublað alla laugardaga Sendu pöntun á augl@mbl.is eða hafðu samband í síma 569-1100 Allar auglýsingar birtast bæði í Mogganum og ámbl.is ER ATVINNUAUGLÝSINGIN ÞÍN Á BESTA STAÐ?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.