Morgunblaðið - 22.03.2016, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 22.03.2016, Blaðsíða 16
Innlent MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 22. MARS 2016 Kíktu á úrvalið í vefversluninni á michelsen.is/fermingar Laugavegi 15 og Kringlunni Sími 511 1900 - www.michelsen.is Fossil Riley 30.800 kr. Casio Retro 12.000 kr. Daniel Wellington Sheffield Frá 23.500 kr. Skagen Ditte 36.100 kr. Fallegar fermingar- gjafir ASA HRINGUR 9.700 kr. ASA LOKKAR 9.800 kr. ASA HÁLSMEN 9.700 kr. – fyrir stelpur SVIÐSLJÓS Sigurður Ægisson sae@sae.is Magnús Eiríksson, 65 ára gamall, sem frá áramótunum 1973-1974 hef- ur búið á Siglufirði, tók 6. mars síð- astliðinn þátt í Vasa-skíðagöngunni í Svíþjóð í 20. sinn og fékk að launum verðlaunapening fyrir það afrek sitt. Umrædd ganga er lengsta og fjöl- mennasta almenningsganga í heimi og er til minningar um frækilega skíðagöngu Gustavs Eriksson Vasa, síðar Svíakonungs, í lok 14. aldar. Hún er 90 km og er lagt upp frá bæn- um Sälen við landamæri Noregs og gengið til Mora. Hún var í fyrsta sinn haldin árið 1922. Magnús er fæddur 17. nóvember 1951 á Stóru-Reykjum í Fljótum í Skagafirði. Á uppvaxtarárum sínum þar fékk hann sín fyrstu kynni af skíðaíþróttinni, byrjaði á gömlum eikarskíðum, segir hann, að leika sér, renna sér og stökkva, eins og krakk- ar þá gerðu, og síðan smám saman vaknaði áhugi á skíðagöngu. Fyrir al- vöru fór hann þó ekki að stunda skíðagöngu að ráði fyrr en um eða eftir fermingu. Hann átti heima í Fljótum þar til hann fór suður til Reykjavíkur að vinna 19 ára gamall, bjó þar syðra í 2-3 ár, en flutti svo þaðan til Siglufjarðar. Þar fór hann að læra trésmíði og öðlaðist seinna meistararéttindi og hefur unnið við þá iðn síðan. Enginn aukvisi á skíðum Magnús er enginn aukvisi í téðri íþróttagrein, var lengi keppnismaður og einnig þjálfari í mörg ár. Hann byrjaði á tréskíðum, enda ekkert annað í boði á þeim tíma, en svo komu plastsólaskíði til sögunnar og loks plastskíði. Og vagga skíðaíþrótt- arinnar á Íslandi var einmitt í Fljót- unum. Fyrsta skíðamótið var haldið þar árið 1905, í Barðshyrnunni. „Þegar ég var að alast upp áttum við Íslandsmeistara, Sigurjón Hall- grímsson frá Knappstöðum í Stíflu, hann var Íslandsmeistari 1956 og 1960. Okkur þótti mikið til hans koma, hann var okkar fyrirmynd. Síðan fer þarna bylting af stað milli 1965 og 1970, þá fer boltinn svolítið að rúlla, þá kemur Trausti Sveinsson á Bjarnagili inn í þetta, hann varð Ís- landsmeistari að minnsta kosti níu sinnum,“ segir Magnús, þegar hann er spurður um upphafið að þessu hjá sér. „Það voru nánast allir, sem eitt- hvað gátu hreyft sig, á skíðum í Fljótum í þá daga. Þetta var og er snjóþung sveit. Við fórum t.d. þannig á milli bæja á vetrum og í skólann líka. Ég fór á Unglingalandsmót 1966 og á fyrsta Landsmótið 1969 og eiginlega hófs gullöld okkar þá og stóð frá 1968 til 1975. Þá vorum við með virkilega góða göngumenn. Á hverju ári var haldið Fljótamót. Þannig að þetta vatt upp á sig. Þetta voru mjög ánægjulegir tímar.“ Fyrsti Íslandsmeistara- titillinn árið 1969 Magnús varð fyrst Íslandsmeistari í aldursflokknum 17-19 ára, á sínu fyrsta móti, 1969, á Ísafirði, og varð það öll þrjú árin sem hann keppti. Þá gerði hann tveggja ára hlé en byrjaði aftur 1973, keppti á Siglufirði og lenti í fimmta sæti í 15 km göngu og í þriðja sæti í 30 km, en er með Fljóta- mönnum í boðgöngunni, sem þeir vinna. Árið eftir vann hann allt, í Reykjavík, 15 og 30 km göngu og Fljótamenn vinna aftur boðgönguna. Árið 1975 var hann ekki í alveg nógu góðu formi að eigin sögn, en vann þó boðgönguna með Fljótamönnum, og 1976 vann hann bæði 15 og 30 km göngu og lenti í öðru sæti í boðgöng- unni með Siglfirðingum. Árið 1977 vann hann 30 km gönguna og var annar í 15 km göngunni, svo lenti hann í því að fótbrotna árið 1978 og missti þá af möguleika á að komast á Ólympíuleikana 1980, en var kominn vel af stað aftur 1981 og vann allar göngurnar hér á landi. Árið 1982 keppti hann á heimsmeistaramótinu í Osló. Það ár varð hann Íslandsmeist- ari í 30 km göngu en hætti eftir það sem keppnismaður og helgaði næstu árin þar á eftir fjölskyldulífinu. Hann náði þó að verða Íslandsmeistari í 30 km göngu 2003. Magnús byrjaði að stunda Íslands- göngur 1987, en það eru göngur hugsaðar fyrir almenning sem og keppnismenn og haldnar víða á land- inu. Skíðafólkinu er raðað í flokka eftir aldri og samanlagður árangur af mótunum yfir veturinn metinn. Hægt er að vinna farandbikar og það hefur Magnús gert í mörg ár, í sínum flokki. Og eiginkona hans, Guðrún Ólöf Pálsdóttir, í sínum flokki. Og þau eru enn að. Guðrún er fædd 5. maí 1955 á Siglufirði. „Hún hefur farið fjórum sinnum til Svíþjóðar með mér og gengið Vasa og er alltaf að hugsa um að fara í fimmta skiptið, hvað sem úr verður. Þetta þarf góðan undirbún- ing. Þú ert ekki að fara í svona göngu nema þú stundir þetta svolítið,“ segir hann. 15.800 keppendur Er þetta fjölmenn ganga? spyr blaðamaður. „Það er þak á þessu, það eru á milli fimmtán og sextán þúsund sem taka þátt. Í ár voru 15.800 keppendur skráðir til leiks. Þegar opnað er fyrir skráningu í mars árinu fyrir selst upp í gönguna á örfáum mínútum. Það hefur verið ansi mikil fjölgun í þessu af Íslendingum núna undan- farið. Það var töluverð fjölgun rétt fyrir hrun, 2008, svo datt það niður, en núna hefur þetta verið stígandi og ég held að við höfum verið u.þ.b. 60 núna sem gengum. Börnin okkar þrjú eru líka í þessu skíðastússi: Hulda Ingibjörg, fædd 1974, Ingólfur Kristinn, fæddur 1980, og Eiríkur Ingi, fæddur 1991. Þau byrjuðu ung að keppa á Andrés- arleikunum í göngu og unnu sinn flokk alveg upp úr öll árin. En svo þegar þau fóru að heiman, í skóla, þá lognaðist þetta út af hjá þeim, það var erfitt að stunda þetta í burtu, en svo hefur Ingólfur, sem er lögfræð- ingur að mennt, verið að koma inn í þetta aftur og hann er búinn að fara með mér til Svíþjóðar í þrjú skipti og var einmitt með mér núna í mars. Ei- ríkur heillaðist af fótboltanum og hefur verið að spila með Leikni í úr- valsdeildinni og hefur varla stigið á skíði síðan í gamla dag, en er í hörku- formi og fór einnig með í Vasa- gönguna núna, í fyrsta sinn, og stóð sig með prýði.“ Vasa-gangan þarf mikinn undirbúning En hvernig æxlaðist það að þú fórst að taka þátt í Vasa-göngunni og svo kona þín og synir? „Ja, þetta sumsé byrjaði fyrir 20 árum. Þá voru félagar mínir að byrja að fara í þetta, sem ég þekkti vel úr skíðagöngunni og var að keppa við hér á árum áður á landsvísu. Og ég fékk pínu áhuga strax að prófa, að fara eina ferð með þeim, og þá bara varð ekki aftur snúið. Síðan er ég bú- inn að fara árlega. Fyrir tíu göngur þar fær maður bronsmedalíu, fyrir tuttugu silfurmedalíu og svo kemur gullið einhvern tíma seinna.“ En hvað ertu lengi að fara þessa 90 kílómetra? „Það getur verið svolítið misjafnt. Það fer eftir færi og veðri. Fljótastur hef ég verið fjóra tíma og rúmar fjörutíu mínútur, en alla jafna hef ég verið svona milli fimm og sex tíma. Núna var ég á 5,46 sem ég var mjög sáttur við, náði að verða fyrstur af Ís- lendingunum, af þessum tæplega sextíu manna hóp, sem lauk göng- unni. Við erum tveir í hópnum sem höfum farið tuttugu sinnum í göng- una, ég og Kristján Rafn Guðmunds- son, hann er sjö árum eldri en ég, og svo er einn á Akureyri, Jóhannes Kárason, sem var að fara sína nítjándu göngu núna.“ Hjólaskíði besti undirbúningurinn „Ég hef stundað mikið hjólaskíðin á sumrin og finnst það vera besti undirbúningurinn fyrir Vasa. Og ég hef reynt að nota þau á veturna líka þegar hefur gefið. Aðstaðan fyrir skíðagönguna hér á Siglufirði hefur verið upp og niður, við höfum gott gönguland en það er ekki troðið reglulega; þá hef ég reynt að ýta mér á götunum og fóttroðið sjálfur braut og alla vega, þannig að það er dálítið erfitt yfir þennan versta árstíma. Þessar löngu göngur hafa þróast út í að menn eru að nota hendurnar miklu meira en fæturna, maður þarf að styrkja sig gríðarlega vel á efri hluta líkamans. Maður þjálfar ýting- arnar svo vel á hjólaskíðunum, finnst mér.“ Og Magnús er að þessu enn, reynir helst að fara a.m.k. tvisvar og stund- um þrisvar í viku á sumrin á hjóla- skíðin, og kveðst líka eitthvað stunda það að ganga á fjöll, til að styrkja fæturna en hleypur ekki mikið nú- orðið. „Það er komið slit í hnén og svona svo ég þoli það ekki eins mikið og ég gerði hér áður fyrr.“ Þetta er allt svo mjúkt En hvað svo? Á að halda áfram? „Meðan maður hefur gaman af þessu og hefur heilsu, þá vil ég halda þessu áfram,“ segir Magnús. „En hversu duglegur maður verður, það verður að koma í ljós. Ég hef alltaf unnið mikið með þessu, svo að þetta hefur oft verið dálítið snúið, en ég hef bara haft svo gaman af þessu og er þannig gerður að ég vil helst ekki vera að fara í svona erfiða göngu öðru vísi en að vera vel undirbúinn. Það kostar svolítinn tíma, þannig að maður þarf að skipuleggja sig vel til að þetta gangi upp og svo er maður bara kominn á þennan aldur að mað- ur er alltaf að hugsa um að fara að draga saman seglin í þessari vinnu, hægja á sér í henni, en það hefur ein- hvern veginn jafnan þróast þannig, að ég hef alltaf fengið í hendurnar verkefni sem ég hef haft áhuga á að takast á við og átt erfitt með að ýta frá mér og því lent í netinu aftur og aftur. Ég er búinn að snerta á nokkrum íþróttum, en ég tel skíðagöngu vera einhverja bestu og hollustu íþrótt sem maður getur stundað. Það er ekkert sambærilegt við hana. Hún er líka svo góð fyrir fólk sem er orðið fullorðið, þarna reynir þetta ekkert á liðina, hné og ökkla, þarna eru engin högg, eins og eru í hlaupum og mörg- um öðrum íþróttum, þarna bara styrkir þetta, þetta er allt svo mjúkt. Eftir að ég var búinn að fara tíu sinnum í Vasa-gönguna og í þá elleftu og tólftu, þá ákvað ég að næsti áfangi yrði sú tuttugasta. Nú stefni ég á 25, ef heilsan verður í lagi. Hvað gerist eftir það verður að koma í ljós, það verður enn önnur ákvörðun, sem er ekki í sjónmáli núna,“ segir Magnús. Þetta er mikið púl en gríðarlega skemmtilegt  Fór í sína 20. Vasa-skíðagöngu  Eiginkonan og synirnir hafa einnig tekið þátt Klárir í gönguna Feðgarnir Eiríkur, Magnús og Ingólfur klárir í Vasa- gönguna í Svíþjóð aðfaranótt sunnudagsins 6. mars. Morgunblaðið/Sigurður Ægisson. Skíðafólk Hjónin Magnús Eiríksson og Guðrún Ólöf Pálsdóttir. Þau hafa bæði tekið þátt í Vasa-göngunni í Svíþjóð, hann 20 sinnum en hún 4 sinnum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.