Morgunblaðið - 22.03.2016, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 22.03.2016, Blaðsíða 27
MINNINGAR 27 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 22. MARS 2016 félagar saman um nýjusta blaða- fréttina í New York af morðinu á Normu. Ég man vel að margir, innan sjónvarpsins, voru mótfallnir því að hafa „eftirleikinn“ með, en Er- lingi fannst að þarna væri gullið tækifæri til að ná fram nýjum fleti á verkinu og að við öll mundum skilja betur titil leikritsins Vér morðingjar og hvernig harmleik þessara tveggja persóna er teflt gegn umhverfinu og okkur sem lesum um skelfilega atburði í blöðunum. Sem betur fer hafði Erlingur betur og „eftirleikurinn“ er hluti af þessu sjónvarpsleikriti. Við Erlingur áttum oft eftir að vinna saman, en um tuttugu árum eftir sjónvarpsævintýrið urðum við svo óvænt skólasystkin. Ég hafði ákveðið að setjast á skóla- bekk í Háskóla Íslands til að nema bókmenntafræði og mér til mikillar gleði hitti ég þarna minn gamla vin og leikstjóra. Það var ómetanlegt að hafa hann sér við hlið þennan vetur, sem skólabróður og sálufélaga í náminu. Í kennslustundum var hann líka manna skemmtilegast- ur og ég gleymi því seint þegar kúrsinn um leikrit Shakespeares var kenndur. Þá blómstruðu bæði kennarinn og Erlingur, því að sjálfsagt hafði kennarinn aldrei haft svona fróðan nemanda í Shakespeare-fræðum áður. Samvinnan og vináttan við þau hjón, Erling og Brynju, var dýr- mæt og þakka ég þúsundfalt fyrir hana og bið fyrir innilegar sam- úðarkveðjur til sona hans og fjöl- skyldna þeirra Megi minningin um góðan listamann lifa. Edda Þórarinsdóttir. Erlingur, félagi minn og fóst- bróðir í meira en hálfa öld, var vægast sagt óvenjulegur maður. Hann var gæddur miklum gáfum og það lá í hans eðli að stækka allt fremur en minnka. Hann var „stór í sniðum“. Allt varð stórt hjá Erlingi hvort sem var á leiksvið- inu, í útvarpinu eða bara í daglega lífinu. Hann gat með áherslum, raddblæ og kúnstpásum tendrað líf í marflötum texta. Hann gat breytt vatni í vín. Tilburðir hans utan sviðs voru einatt stórir sömuleiðis, ekkert skorið við nögl, síst skoðanirnar. Ekki veit ég hvað olli því að við smullum svona vel saman, Erling- ur og ég, því oft vorum við ósam- mála um ýmis mál, allt stórmál auðvitað, en aldrei minnist ég þess að þau átök hafi verið nema í góðvild og gamansemi þótt tæp- ast hafi þau lotið lögmálum kurt- eisi. Algengt var að hann segði t.d. við mig: „Ertu sá dómadags, djöf- uls asni að halda...?“ Hann fékk það óþvegið til baka en aldrei man ég til að við yrðum vitund ósáttir út af slíkum tittlingaskít enda sneri Erlingur aldrei að mér nema sinni bestu hlið, ljúf- mennskunni og húmornum. Fáir menn í lífinu hafa sýnt mér meiri hlýju og umhyggju en þessi freki og stundum óárennilegi gaur. Við Erlingur supum marga fjöruna saman og ýmsar minning- ar koma upp í hugann þegar ég er að hripa þetta niður í 41 þúsund feta hæð yfir Borneó. Ég sé fyrir mér tvo prakkaralega kumpána sitja á útiskenki í Kínahverfinu í Barcelona fyrir 45 árum mælandi meðaltímann sem það tók digrar, tannlausar kellingar að afgreiða smávaxna, langstaðna, banda- ríska sjóliða. 7 mínútur, minnir mig. Sama vorið ókum við um Spán tveir saman á rauða Dodge- inum mínum og höfðum það prin- sipp að nota ódýrustu gistingu sem við fyndum í hverjum bæ þótt við spöruðum ekkert við okkur á öðrum sviðum. Þetta hélt Erling- ur út þótt hann væri svo þjáður af liðagigt að hann varð að drekka heila koníaksflösku á morgnana til að verða kvalalaus og geta byrjað daginn glaður og frjáls. Ég sé okkur félaga líka fyrir mér í kjallaranum á Laufásvegi 22, bruggandi öl fyrir bæði heim- ilin (lögnin var 22 kassar á hvort, 24 flöskur í hverjum kassa). Þá kom sér vel að hafa til skiptis full- trúa KGB á Íslandi og yfirmann CIA og geta notað þá í flöskuþvott sem er leiðinlegasti parturinn af þessari iðju. Óvæntur og ótímabær dauði Brynju, yndislegrar vinkonu okk- ar Helgu, fyrir átta árum, var reiðarslag fyrir Erling. Það var eiginlega eins og hann missti allt í einu allan lífsvilja. Sorglegt að horfa upp á þessa stórlyndu hetju svona þreytta og raunamædda. Stundum erum við kannski full óspör á orðið „vinur“, gætum ekki að því hvað vinátta er dýrmæt, jafnvel einstök, og á stóran þátt í lífi okkar og hamingju. Mér dett- ur í hug þegar maður nokkur kássaðist upp á okkur Moham- med Chukri á krá í Tanger og bar fyrir sig vinskap við Chukri sem var ekki ósvipaður karakter og Erlingur, lét engan vaða yfir sig. Hann sagði: „Þú ert ekki vinur, heldur bara kunningi. Vinur er eitthvað einstakt, eins og perla.“ Erlingur var vinur minn, hann var perla. Örnólfur Árnason. Einn af okkar allra slyngustu leikurum, Erlingur Gíslason, er lagður til hinstu hvílu í dag. Við, sem unnum leiklistinni, eigum honum margt að þakka, bæði í tengslum við listina og ekki síður það hversu örlátur hann var á tíma sinn og tilbúinn að segja sög- ur af mönnum og málefnum hve- nær sem færi gafst. En auðvitað verður það hið margbrotna safn persóna sem hann gæddi lífi á leiksviðinu, í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum, sem mun halda minningu hans á lofti um ókomna tíð. Hvílíkt persónugallerí! Með hjálp gagnagrunns Leikminja- safns Íslands sé ég að hann hefur leikið Skrifta-Hans í Ævintýri á gönguför, fyrstu leiksýningunni sem ég man eftir að hafa séð í Iðnó. Tíu árum síðar kynntist ég honum svo að tjaldabaki í sýningu Þjóðleikhússins á Sporvagninum Girnd, í hlutverki Stanleys Ko- walsky, sem hann túlkaði á ógleymanlegan hátt eins og svo mörg önnur hlutverk. En þegar minnst er mikils sagnameistara er ekki úr vegi að gera það með sögu af honum sjálf- um. Vorið 1991 störfuðum við saman í úthlutunarnefnd Leiklist- arráðs á stuðningi við sjálfstæða leikhópa. Ýmislegt bar á góma á fundum nefndarinnar, en eitt var alveg ófrávíkjanlegt, ekki var hægt að ganga til dagskrár fyrr en Erlingur hafði sagt a.m.k. eina góða sögu. Sú sem ég man best fjallar um feluvísur; þ.e. vísur sem leynst geta í mæltu máli fram- settu án áherslu á ljóðstafi eða bragliði. Sú sem Erlingur fór með er svona: „Það er hægt að hafa yf- ir heilar bögur án þess rímið þekkist, þegar þær eru nógu al- þýðlegar.“ Sannarlega ekki aug- ljóst að hér sé vísa á ferð, sagði Erlingur, svo hóf hann upp raust sína og flutti hana með tilþrifum svona: Það er hægt að hafa yfir heilar bögur án þess rímið þekkist, þegar þær eru nógu alþýðlegar. Ég heyri enn hljómmikla rödd- ina óma um félagsheimili leikara á Lindargötunni, sé kímið brosið og blikið í augunum. Minningin er ekki af mikilfenglegri túlkun ein- hvers magnaðasta leikara þjóðar- innar á sinni tíð, en hún hefur lifað með mér vegna þess lærdóms sem í henni fólst og skilaði mér hæfileikanum til að spjalla um og þekkja feluvísur. Ekki þekking sem skiptir sköpum um eitt eða neitt, en fánýtur fróðleikur um eina af okkar þjóðlegu íþrótta- greinum: vísnakveðskap. Takk fyrir það, Erlingur. Miklu síðar komst ég að því að vísukornið er eignað Andrési Björnssyni eldri (1883-1916), sem fékkst m.a. við leiklist í Reykjavík á sinni tíð en það er önnur saga. Fjölskyldu Erlings votta ég dýpstu samúð á sorgarstundu um leið og þökkuð er samfylgdin við þennan aðsópsmikla sómamann. Kolbrún Halldórsdóttir. Einn ástsælasti leikhúslista- maður þjóðarinnar um áratuga skeið er fallinn frá. Erlingur Gíslason er einn af stórmennum íslenskrar leikhússögu. Erlingur lék ótal hlutverk á sviði, í kvikmyndum og í útvarpi. Mörg þeirra eru ógleymanleg. Sjálfur man ég eftir að hafa, sem barn, heillast af honum í hlutverki Skugga-Sveins í Þjóðleikhúsinu. Í minningunni var Skugga-Sveinn Erlings risavaxinn, rammíslensk- ur og sköruglegur. Meðal annarra ógleymanlegra hlutverka eru í Ís- landsklukkunni, Hafinu, Gæjum og píum, Veislunni og Mávinum. Ég var svo lánsamur að leikstýra Erlingi, meðal annars í Rommí eftir D.L. Coburn þar sem hann fór á kostum á móti Guðrúnu Ás- mundsdóttur. Erlingur var skarp- greindur leikari, afar næmur og með einstakan húmor. Fáir stóðu honum á sporði þegar kom að blæbrigðaríkri textameðferð og djúpur skilningur hans á tungu- málinu var augljós í allri hans vinnu. Ég bý að því alla tíð að hafa fengið að vinna með Erlingi þegar ég var að taka mín fyrstu skref í listinni og er ekki síður þakklátur fyrir hlýju hans og vináttu í minn garð alla tíð. Erlingur og eiginkona hans, Brynja Benediktsdóttir, mörkuðu djúp spor í íslenskt leikhúslíf. Þau voru meðal stofnenda leikhópsins Grímu og síðar byggðu þau og ráku Skemmtihúsið af skörungs- skap. Það voru ekki einungis íslensk- ir leikhúsáhorfendur sem nutu listfengi Erlings Gíslasonar, því að hann var tíður gestur á hvíta tjaldinu og einnig starfaði hann reglulega fyrir Ríkisútvarpið. Hlutverk hans í Útvarpsleikhús- inu eru ótal mörg, meðal annars nýlega í verðlaunaverkinu Opið hús eftir Hrafnhildi Hagalín og auk þess er ljóðaflutningur hans ógleymanlegur. Aðeins tveimur vikum fyrir andlátið lauk Erling- ur lestri á sjálfri Ilíonskviðu í Út- varpshúsinu en flutningur hefst í september næstkomandi á Rás 1. Nú í janúar var endurfluttur sjón- varpsþátturinn Persónur og leik- endur þar sem Erlingur ræddi líf- ið og listina við Evu Maríu Jónsdóttur. Þannig mun minning- in um stórleikarann Erling Gísla- son ekki einungis lifa í hugum landsmanna, heldur verður list- fengi hans varðveitt í Gullkistu Ríkisútvarpsins um ókomna tíð. Ég sendi fjölskyldu og vinum innilegar samúðarkveðjur. Ríkis- útvarpið og íslenskir listunnendur eru þakklátir fyrir þær gjafir sem Erlingur hefur fært þjóðinni. Minningin um listamanninn og öðlinginn Erling Gíslason mun lifa um ókomna tíð. Blessuð sé minning hans. Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri. Erlingur kom ekki í Mennta- skólann fyrr en í þriðja bekk og við kynntumst ekki að ráði fyrr en að loknum vorprófum það ár. Ég var að rölta frá Lilju frænku minni á Bergstaðastræti 55 þegar hrópað er til mín úr glugga fyrir ofan Gíslabakarí. Þar var saman komin heima hjá Erlingi klíka úr Miðbæjarskólanum, Einar Þor- láksson, Geir Magnússon, Pétur Pálmason og Vigfús Magnússon. Þeir voru að fá sér í staupinu eftir prófin. Eftir matinn hjá Kristínu græddi ég einhver ósköp – á okk- ar mælikvarða – af Erlingi í pók- er, honum til sárrar raunar. Eftir þetta máttum við heita dálitlar samlokur það sem lifði mennta- skólatímans og reyndar mun lengur. Við urðum hálfgerðir heimagangar hvor hjá öðrum um hríð og Erlingur varð guðfaðir frumburðar míns en Ingibjörg Stephensen guðmóðir. Þá var æskan við stýrið á gamlársdag heima hjá síra Jakob. Fyrir sveitadreng úr óbreyttri bændafjölskyldu var ekki lítils virði að kynnast notalegu reyk- vísku menningarheimili á ung- lingsárum. Erlingur var liðtækur á píanó og leiddi mig inn í margs- konar músík sem mér hafði áður verið framandi. Við fórum meðal margs annars að syngja glúnta, vorum í Karlakór háskólastúd- enta, slörkuðum stundum saman á háu plani svo að mæðrum okkar þótti nóg um, sóttum allskyns uppákomur, tónleika og annað menningarpjatt og hugleiddum stundum svolítið kvenfólksins að- skiljanlegu náttúrur. Oft var Þor- geir Þorgeirsson í slagtogi við okkur. Við þrír létum taka stúd- entsmynd af okkur sem hékk sumstaðar uppi á vegg og krakkar sögðu að þetta væru Alli, Palli og Erlingur. 40 árum seinna létum við aftur taka mynd í sömu upp- stillingu. Við vorum saman í fararstjórn á heimsmóti æskunnar 1959 í Vín- arborg. Það var þá sem Erlingur fór á fund Kínverja með glímu- flokk Ármanns undir stjórn Lár- usar Salómonssonar. Foringi Kín- verja flutti að sjálfsögðu ávarp í anda friðar og vináttu og Erlingur svaraði með hjartanlegri fullvissu um að Íslendingar mundu aldrei fara með stríði á hendur öðrum þjóðum og síst Kínverjum. Síðan hófst glímusýning. Erlingur var tónelskur og ljóð- elskur og lipur fræðari á þeim nótum. Og hann gat stundum orð- ið svolítið heimspekilegur. Auk þess hafði hann ríka réttlætis- kennd fyrir hönd lítilmagnans og fannst klókir fjármálamenn ekki endilega eiga að bera meira úr býtum en dugnaðarmenn að grafa skurð. Hann vildi hafa Ísland sem óháðast og laust við erlenda her- setu, en þó samvinnufúst með öðr- um þjóðum, tvinna saman menn- ingararf og framandi nýjungar án þess að gleypa allt útlent blóð- hrátt. Líkamlega var hann vel að manni en átti frá unga aldri við liðagikt að stríða svo hann varð stundum að ganga við staf. Hann kunni því vel þegar eitt sinn var sagt að nú vantaði hann ekkert nema skáldgáfuna til að vera eins- og Byron lávarður. Hann gat reyndar verið dálítið stór uppá sig og fannst aðrir ekki heldur þurfa að lítillækka sig. Ég má þakka honum fyrir að efla með mér sjálfstraust. Samskipti skóla- félaga strjálast eðlilega með tím- anum en þráðurinn milli okkar Erlings slitnaði aldrei með öllu. Árni Björnsson. Langt af fjöllum hríslast lækirnir og laða þig margir til fylgdar. En vegurinn er einn, vegurinn velur þig, hvert spor þitt er stigið. Og frá upphafi allra vega fór enginn þá leið nema þú. (Snorri Hjartarson) Erlingur Gíslason var fé- lagsmaður í Félagi íslenskra leik- ara frá árinu 1959 og sinnti um margra ára skeið trúnaðarstörf- um fyrir félagið. Stjórn FÍL send- ir ástvinum Erlings innilegar samúðarkveðjur og þakkar fyrir áralangt og gefandi samstarf. Fyrir hönd stjórnar, Birna Hafstein, formaður FÍL. Erlingur Gíslason, einn mikil- hæfasti og ástsælasti leikari landsins, er látinn og mikill sjón- arsviptir að honum úr íslensku leikhúsumhverfi. Hann átti að baki áratuga feril sem leikari og leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur auk þess sem hann var einn af stofnendum leikfélagsins Grímu og fór með fjölda hlutverka í útvarpi, sjón- varpi og kvikmyndum. Leikfélag Reykjavíkur naut krafta Erlings á árunum milli 1961 og 1965 en þar lék hann nokkur minnisstæð hlutverk, t.d. Greifann í Ástarhringnum eftir Arthur Schnitzler, Blocher í Eðl- isfræðingunum eftir Friedrich Dürrenmatt og Skrifta-Hans í Ævintýri á gönguför eftir Host- rup. Þegar litið er yfir glæsilegan leiklistarferil Erlings Gíslasonar vekur ekki síst athygli hversu mikill eldhugi hann var og áhuga- maður um að hvetja til ýmissa nýjunga í íslensku leikhúslífi. Þar ber eflaust hæst þegar hann árið 1961 stofnaði Leikfélagið Grímu ásamt nokkrum ungum fram- sæknum leikhúsmönnum þess tíma, Vigdísi Finnbogadóttur, Kristbjörgu Kjeld, Þorvarði Helgasyni, Magnúsi Pálssyni og Guðmundi Steinssyni og jafn- framt starfaði með þeim eigin- kona Erlings, Brynja Benedikts- dóttir. Hópurinn var atkvæðamikill á árunum milli 1961 og 1970 og hafði það að að- almarkmiði að sýna ný íslensk leikrit og ný ögrandi, erlend sam- tímaverk. Leikfélagið Gríma hóf hér starf sem vert er að veita at- hygli og fylgja eftir en hópurinn setti á svið mörg splunkuný ís- lensk leikverk eftir nokkra af okkar markverðustu höfundum á þessum árum, t.d. Guðmund Steinsson og Odd Björnsson. Ég átti því láni að fagna að fá að vinna með Erlingi í útvarps- leikritinu Opið hús árið 2011. Nærvera Erlings ásamt hans hlýju og blæbrigðaríku rödd léði því verkefni mikla töfra sem verða seint fullþakkaðir. Ég votta öllum aðstandendum Erlings mína dýpstu samúð. Kristín Eysteinsdóttir. Útfarar- og lögfræðiþjónusta Vesturhlíð 2 Fossvogi | Sími 551 1266 | útför.is Með kærleik og virðingu Útfararstofa Kirkjugarðanna Hugrún Jónsdóttir Við erum til staðar þegar þú þarft á okkur að halda Við önnumst alla þætti undir- búnings og framkvæmd útfarar ásamt vinnu við dánarbússkiptin. Við þjónum með virðingu og umhyggju að leiðarljósi og af faglegum metnaði. Elskulegur bróðir okkar, GUNNAR TRYGGVASON, Þórsgötu 2, Reykjavík, lést aðfaranótt 19. mars síðastliðins. Útförin verður auglýst síðar. . Erla Dennison, Guðmundur Þórir Tryggvason, Kristján Grétar Tryggvason og aðrir aðstandendur. Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir og amma, ANNA LUCKAS forstjóri, áður til heimilis að Ásbúð 96, Garðabæ, varð bráðkvödd á heimili sínu Boðaþingi 22 laugardaginn 19. mars. . Udo Luckas, Rósa Linda Thorarensen, Claudia M. Luckas, Þórður Bachmann, Frank D. Luckas, Gígja Magnúsdóttir og barnabörn. Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, TÓMAS ANTONSSON, Heiðarbrún 37, Hveragerði, lést að Dvalarheimilinu Bæjarási í Hveragerði þann 18. mars. Útför fer fram í kyrrþey að ósk hins látna. . Ásdís Dagbjartsdóttir, börn, tengdabörn og fjölskyldur.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.