Náttúrufræðingurinn

Årgang

Náttúrufræðingurinn - 2016, Side 6

Náttúrufræðingurinn - 2016, Side 6
Náttúrufræðingurinn 6 Vísbendingar eru um að útbreiðsla lúpínu í íslenskri náttúru fari ört vaxandi.5,15,16 Mikilvægt er að hemja útbreiðslu ágengra tegunda til að takmarka tjón af þeirra völdum og eru aðgerðir líklegri til að bera árangur því fyrr sem gripið er til þeirra.17–21 Aðgerðir gegn ágengum plöntum hér á landi hafa helst falist í slætti og eitrun. Þetta virðast einnig vera algengustu aðferðirnar erlendis. Í nýlegri yfirlitsgrein um rannsóknir á aðgerðum gegn ágengum plöntum var eitur notað í 55% tilfella og eyðing með tólum (sláttur og trjáfelling) í 34% tilfella.22 Aðrar aðferðir voru meðal annars bruni, að reita plöntur upp með höndum, endurbætur á jarðvegi, beit, breyting vatnsfarvegar og sáning upprunalegra tegunda.22 Nokkur sveitarfélög hafa reynt að hamla útbreiðslu lúpínu eða ráðgera slíkar aðgerðir, þar á meðal Akureyrarkaupstaður, Garðabær, Húsavíkurbær, Ísafjarðarbær, Seltjarnarnesbær og sveitarfélagið Vogar.7,23,24 Stykkishólmur er það sveitarfélag á landinu sem lengst hefur gengið í slíkum aðgerðum. Komu þær til að frumkvæði íbúa sem höfðu áhyggjur af vaxandi útbreiðslu tegundarinnar og leituðu því til bæjarstjórnar árið 2007. Í kjölfarið sneri sveitarfélagið sér til Náttúrustofu Vesturlands, og gerði hún sumarið 2008 úttekt á útbreiðslu lúpínu og annarra ágengra eða mögulega ágengra plantna í landi sveitarfélagsins, þ.e. skógarkerfils (Anthriscus sylvestris), spánarkerfils (Myrrhis odorata) og risahvanna (Heracleum teg.). Lúpína fannst á 148 stöðum í sveitarfélaginu og þakti samtals ríflega 10 hektara eða um 1% af heildarflatarmáli sveitarfélagsins. Lagði Náttúru- stofan til að sveitarfélagið reyndi að uppræta framangreindar tegundir í landi sínu með skipu- legum aðgerðum.25 Í framhaldi af tillögum Náttúrustofunnar hóf Stykkishólmsbær markvissar, árlegar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu fyrrgreindra plantna. Samhliða aðgerðum Stykkis- hólms bæjar var ákveðið að kanna árangur tveggja mismunandi aðferða til að eyða lúpínu; sláttar og eitrunar (1. mynd). Markmið rannsóknarinnar var að mæla áhrif árlegs sláttar og eitrunar á a) þekju og nýliðun lúpínu, b) samsetningu og þekju annars gróðurs, og c) að bera saman árangur þessara tveggja aðferða við eyðingu lúpínu. Aðferðir Rannsóknarsvæði og skipulag tilraunar Tilraunareitir voru lagðir út sumarið 2010 í stærstu lúpínubreiðunni á landgræðsluskógasvæði austast í landi Stykkishólmsbæjar (N65,065°; V22,726°). Árið 1998 gerðu sveitar- félagið og Skógræktarfélag Stykkis- hólms með sér samning um að félagið fengi 24 hektara svæði til afnota fyrir landgræðsluskóg næstu 70 árin, til viðbótar við tæplega 10 hektara aðliggjandi svæði sem tekið hafði verið undir skógrækt áratugum fyrr. Á svæðinu liggja klettaásar með norðaustur-suð- vestur-stefnu og á milli þeirra eru lægðir, sumar með deiglendi. Lúpína var á litlum bletti á skógræktarsvæðinu árið 1967 og var sáð á rannsóknarsvæðinu um 30 árum síðar, þegar um einu kílói af lúpínufræi var dreift á melabletti norðan við svokallaðan Zimsensblett (Trausti Tryggvason, munnl. upplýs.). Árið 2010 voru melablettirnir og næsta nágrenni orðnir nær alþaktir lúpínu. Krækilyngsmói var algeng asta gróðurlendið utan lúpínubreiðnanna en lúpína hafði dreift sér inn í hann. Skógrækt var skammt á veg komin á rann- sóknarsvæðinu. Tilraunareitir voru alls 15, hver um sig 100 m2 (5 m × 20 m). Þeir voru lagðir í fimm blokkum í einsleitri lúpínubreiðu, þrír í hverri blokk, þar sem lúpína var slegin árlega í einum reitanna, eitrað fyrir henni í öðrum en látin óhreyfð í þeim þriðja (2. mynd). Tilviljun réð röð meðferða innan blokkar. Tímasetning aðgerða réðst af blómgunarstigi lúpínu, þegar plöntur voru langt komnar í blómgun og einstaka belgir byrjaðir að myndast, en þó vel áður en fræ voru fullþroskuð. Lúpínan var slegin og eitrað fyrir henni 5. júlí 2010, 22. júlí 2011, 16. júlí 2012, 30. júlí 2013, 24. júlí 2014 og 9. júlí 2015. Starfsmenn Stykkishólmsbæjar slógu lúpínu með bensínknúnum handsláttuorfum í sláttureitum, en í eitrunarreitum var lúpína meðhöndluð með plöntueitrinu glyphosate, sem t.d. er selt undir vörumerkjunum Roundup eða Clinic. Leiðbeiningum á umbúðum var fylgt um styrkleika eiturblöndunnar (3 l á hektara). Í bæði sláttar- og eitrunarreitum voru einungis stálpaðar plöntur (stærri ungplöntur og fullorðnar plöntur) meðhöndlaðar og var reynt að komast hjá því að aðgerðir hefðu áhrif á annan gróður en lúpínu innan reita. Slegin lúpína var látin liggja og rotna. Árin 2010–2012 var öll lúpína utan reita slegin. Vegna manneklu náðist það ekki árin 2013–2015 en þá var lúpína slegin á u.þ.b. 5 m breiðu belti umhverfis alla reiti til að hindra að lúpínufræ bærist inn í þá. Sumarið 2010 var skráð nákvæmlega hversu langan tíma tók að meðhöndla hvern reit. Í Stykkishólmi eru skráðar lengstu samfelldu veðurathuganir á landinu. Á árunum 1949–2015 var meðalhiti heitasta mánaðar 10,3°C (júlí) og þess kaldasta -0,7°C (janúar). Meðalúrkoma var mest í október, nóvember, febrúar og janúar (í þessari röð) en minnst í maí, júní og júlí. Tíðarfar árin 2010–2015 var að mestu leyti gott en óvenju hlýtt var flest árin og stundum þurrt (1. tafla). Gróðurmælingar Gróður var mældur í öllum tilraunareitunum 7.–8. júlí 2011 og 6.–7. júlí 2015, í báðum tilvikum áður en lúpínan var slegin eða eitrað fyrir henni. Lúpína hafði því verið meðhöndluð einu sinni og fimm sinnum þegar mælingar fóru fram.

x

Náttúrufræðingurinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.