Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 38

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 38
Náttúrufræðingurinn 38 Umræða Fundarstaðir Vatnamýs hafa fundist strjált um mestallt land en ekki á neinu einu ákveðnu landsvæði (1. mynd). Fundarstaðir eru allt frá innsta hálendi landsins (Þjórsárverum) til sjávar. Hæst yfir sjó hafa vatnamýs fundist í um 630 m hæð (við Eyrarselsvatn). Þessi dreifing bendir til þess að búast megi við að vatnamýs eigi eftir að finnast á mun fleiri stöðum. Bæði að fjölda fundarstaða og eintaka sker Norðausturland sig úr, einkum Þistilfjörður. Hvort það er tilviljun skal ósagt látið. Benda má á að margar ár renna til sjávar í Þistilfjörð en þær hafa þó ekki allar verið kannaðar m.t.t. vatnamúsa. Þar voru einnig flest eintök á einstökum fundarstað þótt fjölmargir mosavöndlar hafi einnig fundist við Eyrarselsvatn á Fljótsdalsheiði og Stóra-Arfavatn á Arnarvatnsheiði. Hvernig myndast vatnamýs? Vatnamýs myndast í vötnum og ám við það að mosaflyksur falla niður í vatn eða losna frá árbotni og vöðlast upp. Vatnamýsnar úr Hafralónsá voru á mismunandi myndunarstigum, sumar sporöskju- laga frekar en kúlulaga og með mosataum út frá sér. Við Þórshöfn og Hraunsskeið, og að hluta til við Ormarsá, hafa vatnamýsnar borist til sjávar með ám enda vex mosi ekki í sjó og hlýtur því að vera ættaður af landi eða úr ferskvatni. Vatnamýsnar úr Hraunsfjarðar- vatni voru ólíkar öðrum vatna- músum að því leyti að þær voru miklum mun stærri um sig þegar þær voru lifandi enda gegnsósa af vatni (sjá 2. mynd). Við þurrk skruppu þær talsvert saman eins og við mátti búast. Helst hafa vatnamýsnar frá Ormarsá haldið sér við þurrkun en þær eru frekar þungar enda mosinn í þeim sérdeilis þéttvöðlaður. Önnur eintök en úr Hraunsfjarðarvatni voru meira eða minna þurr og létt, mosinn dauður en mörg þeirra höfðu legið um tíma á landi. Í nokkrum eintökum voru sprotar með grænum blöðum þótt þau virtust deyjandi. Eflaust myndast vatnamýs einnig úr mosategundum sem vaxa á kafi í ám en slitna upp. Ýmsar slíkar tegundir er að finna hér á landi og er sú stærsta svonefndur ármosi Fontinalis antipyretica.5,13 Hann finnst m.a. í Hölkná í námunda við fundarstaði vatnamúsa í Þistilfirði. Í tveimur sýnum þaðan fannst ármosi, svo og á fjórum öðrum stöðum. Meðal annarra mosa sem vaxa í ám og fundust í vatnamúsunum eru tegundir af ættkvíslunum Hygrohypnum, Calliergon og Drepanocladus. Á einum stað (í Sandvík við Ytra-Áland í Þistilfirði) fundust stórar gróðurtorfur í sömu fjöru og vatnamýsnar (7. og 8. mynd). Að sögn Skúla Ragnarssonar, sem átt hefur heima alla ævi á Ytra-Álandi (f. 1945), hafa mosavöndlar ætíð sést á sandinum í Sandvík. Ekki er ólíklegt að vatnamýs myndist a.m.k. öðru hverju þar sem aðstæður eru þannig, þ.á m. vatnafar. Er nokkuð öruggt að vatnamýsnar í Sandvík hafa borist úr Sandá en ós hennar er um 250 m vestan við fundarstað. Í vatnavöxtum, segir Skúli, brýtur áin úr bökkum og hólmum sem eru margir upp eftir ánni. Svo vill til að skömmu áður en vatnamýsnar fundust árið 2013 voru mestu vorleysingar í Sandá frá því mælingar hófust fyrir áratugum.14,15 Eflaust hafa stóru jarðvegsstykkin (sjá 7. mynd) losnað í þeim hamförum enda bólgnaði áin sem aldrei fyrr og fylltist af íshröngli og snjóstykkjum. Af þeim sökum hafa kannski myndast fleiri vatnamýs en vanalega. Vatnamýs ættu að geta myndast víða í vötnum þegar mosasneplar detta í vatn og veltast upp við bakka fyrir áhrif ölduhreyfinga. Sértækari skilyrði virðist þurfa til að vatnamýs myndist í straumvatni þótt ekki sé vitað nákvæmlega hvernig það gerist og hve langan tíma það tekur. Í ám myndast þær að því er virðist þar sem eru hringiður. Í öllum ánum fjórum þar sem vatnamýs hafa fundist – Ölfusá, Skjálfandafljóti, Ormarsá og Hafralónsá – eru lygnar breiður stuttu áður en þær renna um þröngan ós til sjávar en hringiður myndast talsvert á slíkum breiðum. Árbotninn er auk þess sand- eða leirkenndur og mosaflyksur rúllast upp við slíkar aðstæður með botninum. Á einum stað (í Ormarsá) sáust tveir stórir mosaflekkir, greinilega sams konar mosi og er í vatnamúsunum. Myndun vatnamúsanna í Hraunsfjarðarvatni hefur e.t.v. tengst því að hækkað hafði í vatninu og við það rofnað úr bökkum. Þegar komið var á staðinn 27. júní 2006 var fundarstaðurinn kominn á kaf en botninn var sléttur þar sem vatnsbakkinn fór undir vatn. Vatnsborðið hefur e.t.v. verið hæfilega hátt um tíma til að vatnamýs mynduðust. Engin eintök var að sjá né heldur síðar en farið var allnokkrum sinnum að vatninu eftir þetta. Bakkar Hraunsfjarðarvatns hafa rofnað mikið eftir að farið var að nota það til vatnsmiðlunar. Árlegar vatnsborðssveiflur nema mörgum metrum og berir, gróður- lausir bakkar blasa við þegar lágt er í vatninu. Við suðurbakkann hafa étist tugir metra af grónu landi undir Horni og hrynur stöðugt úr bökkunum. Vatnamýsnar frá Þórshöfn Fundur vatnamúsa í höfninni á Þórshöfn er einstakur, bæði vegna þess að þær fundust í sjávarfjöru langt frá ám og vegna þess hve mörg eintökin voru. Erfitt er að geta sér til um fjölda en sjálfsagt hafa verið þarna 2–3 þúsund eintök. Um þetta leyti hafa verið óvenjulegir straumar og öldufar þannig að vatnamýsnar hafa náð að fljóta inn um hafnarmynnið. Á liðnum árum hafa vöndlar af því tagi sem hér er fjallað um fundist öðru hverju á fjörum í Lónafirði (Guðjón Gamalíelsson, munnl. uppl.). Áður en könnun hófst var talið sennilegast að

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.