Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 46

Náttúrufræðingurinn - 2016, Page 46
Náttúrufræðingurinn 46 Ljóst er að fjöldi fugla er mjög misjafn milli talningarsvæða, og ekki síður dreifing einstakra tegunda eða hópa, svo sem vaðfugla og anda (3. mynd). Þannig virðast fuglar lítið nýta svæði 1, en að meðaltali voru um 11 fuglar þar í hverri talningarferð. Á svæði 2 voru að meðaltali 5,5 fuglar í hverri ferð. Á svæði 3 er fjörugerðin nokkuð blönduð. Nokkru fleiri tegundir sáust þar en á svæðum 1 og 2 (2. mynd) og þar var einnig að finna heldur fleiri fugla, eða 17 að jafnaði. Svæði 4 sker sig verulega úr framantöldum svæðum hvað varðar fjölda fugla. Þar töldust að meðaltali 83 fuglar í ferð, aðallega vaðfuglar (2. mynd). Á svæði 5 töldust að jafnaði 49 fuglar í hverri ferð og 63 að meðaltali á svæði 6. Svæðanotkun helstu tegunda Þegar talningarsvæðin eru borin saman innbyrðis m.t.t. fjölda tegunda á öllu talningartímabilinu kemur í ljós allt að helmingsmunur í fjölda tegunda milli svæða. Fjöldi tegunda var mestur í sandfjörunni norðan til í Fossvogi (svæði 5) þar sem 30 tegundir sáust og á leirunni (svæði 4) eða 29 tegundir. Á svæði 1 (uppfylling) og úti á vognum á svæði 6 sást 21 tegund og 15 tegundir á svæði 2. Eftirtektarvert er að á svæði 3, í aflíðandi þangvaxinni klappar- og stórgrýtisfjöru, var að finna töluverðan fjölda tegunda, eða alls 26, þó að heildarfjöldi fugla hafi ekki verið sérlega mikill. Þegar heildarfjöldi fugla af hverri tegund er skoðaður fyrir mismunandi talningarsvæði yfir allt talningartímabilið kemur í ljós allnokkur breytileiki milli svæða (3. tafla). Æðarfugl var algengasta tegundin á öllum svæðum nema á svæði 4 (leirunni), þar sem heiðlóa var algengust, en heiðlóa sást einnig á svæðum 3 og 5. Hávella hélt sig nánast eingöngu á svæði 6 (úti á voginum) og þar kom toppönd einnig oftast fyrir en rauðhöfðaönd virtist kunna best við sig í flæðarmálinu á svæði 4. Stokkönd sást á öllum talningarsvæðum en algengust var hún á svæðum 3 og 4. Rauðbrystingur og stelkur komu helst fyrir á svæði 4, sem og stari, tildra og hettumáfur, en tjaldur hélt sig aðallega á svæðum 4 og 5. Þessi dreifing mismunandi fuglategunda virðist endurspegla þau búsvæði sem einkenna viðkomandi talningarsvæði. Fjöldi fugla á flatareiningu Þegar litið er til þess hve mikinn mun má sjá í fjölda og teg unda samsetningu fugla á mismunandi talningarsvæðum á öllu talningartímabilinu kemur óhjákvæmilega upp sú spurning hvort munurinn stafi af mismunandi stærð/flatarmáli svæðanna, eða af mismunandi fjörugerð og þar með gæðum svæðanna fyrir fugla. Því var flatarmál fjöru innan hvers talningarsvæðis metið gróflega að undanskildu svæði 6, Fossvogi utan stórstraumsfjörumarka. Þær mælingar staðfestu að flatarmál svæðanna var afar mismunandi (3. tafla). Í ljós kom að fuglatalningarnar endurspegla þennan mun og raunar er sterkt jákvætt samband (R2 = 0,92) milli heildarfjölda fugla og flatarmáls hvers talningarsvæðis. Þegar nánar er rýnt í meðalþéttleika fugla á flatareiningu á öllu talningartímabilinu kemur í ljós að mestan þéttleika er að finna á svæði 5, eða 35 fugla á hektara (ha.), en á hinum svæðunum er fjöldinn á bilinu 17–30 fuglar á ha. (3. tafla). Þessi munur er þó ekki tölfræðilega marktækur. Jafnframt má sjá mun á fuglahópum sem sækja þessi mismunandi svæði, eins og fram hefur komið. Þegar hlutdeild helstu fuglahópa á flatareiningu er skoðuð kemur í ljós að á talningarsvæðum 1–3 er uppistaða fuglanna æðar- fuglar og aðrar endur (65–85%) en vaðfuglar eru stærsti hópurinn á svæðum 4 og 5 (50–60%). Þó að skráning atferlis hafi ekki verið útgangspunktur í vöktuninni kom samt sem áður í ljós að á svæðum 1 og 2 var algengt að fuglar væru í hvíld, sérstaklega æðarfuglar, en fæðunám var meginatferli á öllum hinum svæðunum. Þetta kann að hafa breyst á svæði 1 þar sem grjótvörn hefur aukist á kostnað malarbakka sem æðarfuglum virtist þykja hentugir hvíldarstaðir. Það er því nokkuð ljóst að þótt fjöldi fugla endurspegli flatarmál talningarsvæða velja mismunandi tegundir og hópar sér mismunandi svæði. Það er því fleira en flatarmál 3. mynd. Samanlagður fjöldi fugla á hverju talningarsvæði á öllu tímabilinu frá maí 2008 til október 2011 (44 talningar), skipt upp í helstu fuglahópa (súlur) og meðalfjölda fugla í hverri talningu (hvítir hringir) ásamt staðalskekkju (SE). – Grand total and average number of birds between areas in 44 counts between May 2008 and October 2011, presented as major bird groups (columns) and average number of birds per count (white circles) with standard error (SE).

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.