Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.07.2016, Síða 35

Læknablaðið - 01.07.2016, Síða 35
LÆKNAblaðið 2016/102 351 L Ö G F R Æ Ð I 1 9 . P I S T I L L Læknar eru hvattir til að koma ábendingum um efni á framfæri við ritstjórn eða pistlahöfund. Dögg Pálsdóttir lögfræðingur Læknafélags Íslands Dogg@lis.is Heilbrigðisþjónusta yfir landamæri Hinn 1. júní síðastliðinn gengu í gildi lög nr. 13/2016 um breytingu á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 sem fela í sér rétt sjúklinga sem sjúkratryggðir eru á Íslandi varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Með lagabreytingunni eru innleiddar í íslenskan rétt tvær tilskipanir Evrópusambandsins (ESB) frá 2011 og 2012 um þetta efni.1 Með tilskipuninni frá 2011 eru lögfest ýmis réttindi innan ESB sem hafa verið viðurkennd í dómum Evrópudómstóls- ins og varða heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, ekki síst endurgreiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er í öðru aðildarríki en búseturíki viðtakanda þjónustunnar. Markmið tilskipunarinnar er að greiða fyrir aðgengi að öruggri há- gæðaheilbrigðisþjónustu yfir landamæri, tryggja frjálst flæði sjúklinga innan ESB og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjón- ustu á milli aðildarríkja, að teknu tilliti til valdheimilda aðildarríkjanna til að skipu- leggja og veita sína eigin heilbrigðisþjón- ustu. Tilskipunin gildir um sjúklinga sem ákveða að nýta sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki en því ríki sem þeir eru sjúkratryggðir í en henni er ekki ætlað að leiða til þess að sjúklingar séu hvattir til að leita sér meðferðar erlendis. Tilskipuninni er hins vegar ætlað að tryggja rétt sjúkra- tryggðra til frjálsrar farar milli aðildarríkja til að sækja sér heilbrigðisþjónustu með þeim takmörkunum sem hvert ríki fyrir sig setur. Lögð er áhersla á það að sjúkratryggð- ur fái alltaf endurgreiddan raunkostnað heilbrigðisþjónustunnar, en aðeins að því marki sem greitt er fyrir þjónustuna í því ríki þar sem hann er sjúkratryggður. Með því er tryggt að sjúkratryggður hefur aldrei fjárhagslegan ávinning af því að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annars aðildarríkis. Tilskipuninni er ekki ætlað að hafa áhrif á rétt tryggðra einstaklinga til endurgreiðslu kostnaðar við heilbrigðis- þjónustu sem verður nauðsynleg af lækn- isfræðilegum ástæðum við tímabundna dvöl í öðru aðildarríki samkvæmt reglu- gerð (ESB) nr. 883/20042 og skal þannig ekki svipta sjúklinga hagstæðari réttind- um sem tryggð eru með fyrrgreindri reglugerð. Tilskipunin tekur ekki til þjónustu sem fyrst og fremst er stuðningur við þá sem þarfnast aðstoðar við venjubundin, dagleg verk, það er athafnir daglegs lífs. Er hér til dæmis átt við langtímaumönnun aldraðra, heimahjúkrun eða aðstoð í þjónustuíbúð- um. Tilskipunin gildir auk þess ekki um líffæraígræðslur og bólusetningar almenn- ings gegn smitsjúkdómum sökum sérstaks eðlis þeirra. Heilbrigðisráðherra hefur vegna fram- angreindrar lagabreytingar sett reglugerð nr. 484/2016 sem einnig gekk í gildi í byrj- un júní. Þar kemur fram sú meginregla að sjúklingur þarf ekki að sækja um sam- þykki fyrir að sækja sér heilbrigðisþjón- ustu í EES-landi (Evrópska efnahagssvæð- ið) áður en þjónustan er veitt. Frá þessu eru þó undantekningar sem fram koma í 9. gr. reglugerðarinnar. Undantekningarnar eru: 1) Þegar meðferðin krefst innlagnar á sjúkrahús í að minnsta kosti eina nótt eða óslitinnar meðferðar í meira en sólar- hring, 2) þegar meðferð felur í sér sérstaka áhættu fyrir sjúkling eða almenning, 3) þegar tilefni er til að efast um gæði þjón- ustunnar sem sótt er. Þó meginreglan sé sú að Sjúkra- tryggingar skulu endurgreiða sjúkra- tryggðum kostnað vegna heilbrigðisþjón- ustu sem hann hefur sótt í EES-landi er stofnuninni engu að síður heimilt skv. 11. gr. reglugerðarinnar að synja um endur- greiðslu þegar: 1) hægt er að veita heil- brigðisþjónustuna hér á landi innan tíma- marka sem má réttlæta læknisfræðilega þegar tekið er mið af heilsufars ástandi sjúklings og líklegri framvindu sjúkdóms; 2) öryggi sjúklings eða almennings er stefnt í hættu með heilbrigðisþjónust- unni sem veitt var; 3) tilefni er til að efast um að veitandi heilbrigðisþjónustu fylgi lágmarkskröfum um gæði og öryggi. Í reglugerðinni kemur ekki fram hvaða viðmið verða notuð varðandi tímamörkin varðandi bið. Þó Embætti landlæknis hafi nýverið birt viðmið um biðtíma eftir heil- brigðisþjónustu virðast þau ekki tengjast ákvæðum reglugerðarinnar með neinum hætti.3 Í viðmiðunum segir að sjúklingur skuli komast í aðgerð eða meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu. Ekkert í reglugerðinni bendir þó til þess að sjúklingur sem á slíka bið að baki geti treyst því að hann fái endurgreitt fyrir að- gerð eða meðferð sem hann þá ákveður að sækja til EES-lands. Mat Sjúkratrygginga á réttlætanlegum tímamörkum eftir meðferð getur með öðrum orðum verið annað en viðmið Embættis landlæknis. Það sýnist því skynsamlegt fyrir sjúk- linga sem vilja sækja sér heilbrigðisþjón- ustu yfir landamæri og sem búnir eru að bíða lengi hér á landi að fá fyrirfram samþykki fyrir meðferðinni þótt þeim sé það ekki skylt. Í þessum nýju reglum felst mikilvæg réttarbót fyrir þá sem vilja sækja heilbrigð- isþjónustu til útlanda. Til slíks er þó ekki hvatt sérstaklega því skýrt kemur fram í reglugerðinni að ferðakostnaður eða kostnaður vegna uppihalds sé ekki endur- greiddur og þarf sjúkratryggður því alltaf að standa sjálfur undir honum. 1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/24/ESB frá 9. mars 2011 um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjón- ustu yfir landamæri og tilskipun framkvæmdastjórnar 2012/52/ESB frá 20. desember 2012 um ráðstafanir til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem eru gefnir út í öðrum aðildarríkjum. 2. Tilskipunin var innleidd hér með reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. 3. landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item29708/ Vidmidunarmork-um-bidtima-eftir-heilbrigdisthjonustu - júní 2016.

x

Læknablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.