Morgunblaðið - 17.06.2017, Side 47
47
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. JÚNÍ 2017
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Ég tek við þessari viðurkenningu
með gleði og stolti fyrir hönd allra
sem stóðu að stofnun, tilurð og
rekstri Íslensku óperunnar, og sungu
sig inn í hjörtu og vitund heillar þjóð-
ar,“ segir Garðar Cortes sem í gær-
kvöldi hlaut heiðursverðlaun Sviðs-
listasambands Íslands fyrir ævistarf
sitt í þágu sviðslista á Íslandi. Í sam-
tali við Morgunblaðið segist Garðar
líta svo á að hann sé fulltrúi alls þess
gæfufólks sem með honum kom að
stofnun Íslensku óperunnar (ÍÓ) á
sínum tíma.
Garðar hefur komið víða við í tón-
listarlífi Íslendinga. Hann lauk ein-
söngvara- og söngkennaraprófum frá
The Royal Academy of Music og Tri-
nity College of Music London í Eng-
landi 1968 og 1969, en aðalkennari
hans var Joyce Herman Allen. Hann
fylgdi því námi eftir með söngnámi
hjá Linu Pagliughi á Ítalíu og Helene
Karusso í Vínarborg. Árið 1973 stofn-
aði hann Söngskólann í Reykjavík og
hefur verið skólastjóri hans frá upp-
hafi. Árið 1978 var Íslenska óperan
stofnuð að frumkvæði Garðars með
það að markmiði að gefa söngvurum
tækifæri til að vinna að list sinni og
gera óperulistformið aðgengilegt fyr-
ir íslenska áheyrendur. Garðar var
óperustjóri fyrstu tvo áratugina og
sinnti hljómsveitarstjórn ásamt því
að syngja á annan tug hlutverka á
sviði. Garðar hefur í gegnum tíðina
hlotið fjölda viðurkenninga fyrir
frumkvæði sitt og störf að tónlistar-
málum og var t.a.m. fyrstur til að
hljóta Bjartsýnisverðlaun Brøste ár-
ið 1981 fyrir stofnun ÍÓ.
Valið að vera hreinskilinn
Garðar gengst fúslega við því að
hafa á ferli sínum verið bjartsýnn.
„Þessa ofurbjartsýni mætti líka túlka
sem einfeldni eða sjálfsblekkingu, því
það kemst kraftaverki næst að hafa
komið hlutum í framkvæmd og feng-
ið allt þetta ótrúlega fólk til liðs við
mig,“ segir Garðar og rifjar upp að
hann hafi þegar hann var óperustjóri
ekki hikað við að hringja beint í það
tónlistarfólk erlendis sem hann lang-
aði að vinna með.
„Bjartsýni mín var þvílík að ef mig
langaði í frægan mann þá bara
hringdi ég í hann þó að ég gæti ekki
boðið laun í líkingu við það sem
þekktist erlendis. Ég passaði ávallt
upp á að við fengjum fólk til sam-
starfs sem kunni til verka. Þegar ég
stofnaði Óperuna hringdi ég í Covent
Garden og bað óperustjórann að
senda mér færan æfinga- og hljóm-
sveitarstjóra sem leiddi til þess að
Robin Stapleton kom hingað og varð
okkar dýrmætasti tengiliður við óp-
eruheiminn því hann bjó yfir mikilli
reynslu og var einn besti hljómsveit-
arstjóri sem fyrirfannst,“ segir Garð-
ar og tekur fram að hann hafi lært
mjög mikið af Stapleton. „Hann átti
það til að vera yfirdrifinn í fasi, en
kenndi okkur listina að flytja, syngja
og túlka óperu. Ég bý að þessu ennþá
þegar ég kenni og stjórna í dag. Ég
hef valið að vera hreinskilinn eins og
hann án þess þó að vera jafn yfirdrif-
inn.“
Vildi vera heima á Íslandi
Spurður hvort aldrei hafi komið til
greina að Garðar ílengdist í Englandi
að námi loknu svarar Garðar því neit-
andi. „Ástæða þess að ég gat verið öll
þessi ár í námi úti var að ég vissi að
ég myndi snúa heim,“ segir Garðar
sem við heimkomuna 1969 tók við
skólastjórastöðu við Tónlistarskól-
ann á Seyðisfirði. Örlögin höguðu því
svo að Guðrún Á. Símonardóttir
söngkona veitti rödd hans eftirtekt
og hvatti Guðlaug Rósinkrans, þáver-
andi Þjóðleikhússtjóra, til að ráða
Garðar í hlutverk piltsins í Pilti og
stúlku eftir Emil Thoroddsen sem
frumsýnt var í mars 1970 og var þar
um frumraun Garðars á sviði að ræða
hérlendis.
Síðan hefur hann á sviði m.a. sung-
ið hlutverk Rudolfo í La bohème,
Alfredo Germont í La Traviata, Don
José í Carmen, Sándor Barinkay í
Sígaunabaróninum, Taminó í Töfra-
flautunni, Manrico í Il Trovatore,
Cavaradossi í Toscu, hertogann í
Rigoletto og Otello í samnefndu
verki.
„Í reynd einsetti ég mér að verða
söngvari áður en ljóst var hvort ég
hefði hæfileikana og röddina í það,“
segir Garðar kíminn og tekur fram að
hann hafi fyrst eftir nám glímt við
ákveðna minnimáttarkennd. „Ég tók
að mér að syngja stóru tenórhlut-
verkin á upphafsárum Íslensku óp-
erunnar af því að það var enginn ann-
ar í spilunum, en mér fannst ég aldrei
vera nógu góður. Það var ekki fyrr en
Paul Griffiths heyrði mig syngja í Il
Trovatore árið 1986 og hrósaði mér
að ég sannfærðist um að ég væri
miklu betri en ég hélt,“ segir Garðar
sem fyrir atbeina Griffiths fékk er-
lendan umboðsmann og söng í fram-
haldinu tenórhlutverk í óperu- og
tónleikahúsum í Bretlandi, Írlandi,
öllum löndum á Norðurlöndunum,
Bandaríkjunum og Suður-Ameríku.
„En ég kærði mig í raun ekkert um
að starfa erlendis. Ég vildi vera
heima á Íslandi.“
Gæfa að vinna með Ólöfu
Inntur eftir því hvort hann eigi sér
einhver uppáhaldshlutverk á löngum
og farsælum ferli svarar Garðar því
játandi. „Otello, Cavaradossi og Alf-
redo eru þau hlutverk sem mér þykir
vænst um. Þetta eru svo góðar tón-
smíðar að það er svo auðvelt að
gleyma sér í þessum hlutverkum og
gera þau betur en efni standa til.“
Fljótlega eftir heimkomuna 1969
var Garðar farinn að leiðbeina öðrum
í söng. „Ég skynjaði vöntun á skipu-
lögðu söngnámi og ákvað að búa til
skóla í líkingu við það sem ég hafði
kynnst úti í Englandi,“ segir Garðar
og tekur fram að hann hafi verið ein-
staklega lánsamur með samstarfs-
fólk í gegnum tíðina, en sem dæmi
má nefna að Ásrún Davíðsdóttir að-
stoðarskólastjóri og Soffía H. Bjarn-
leifsdóttir gjaldkeri hafi starfað við
skólann frá upphafi. „Ég verð líka að
nefna Ólu [Ólöfu Kolbrúnu Harð-
ardóttur],“ segir Garðar, en þau Ólöf
hafa margsinnis sungið saman á óp-
erusviðinu og hún starfar sem yf-
irkennari Söngskólans í Reykjavík.
„Mín gæfa var að fá að vinna með
Ólu, því hún hefði hæglega getað far-
ið út í heim að syngja þar sem henni
buðust hlutverk.“ Garðar rifjar upp
ánægjulegt og gjöfult samstarf við
fjölda leikstjóra á ferlinum, en þeirra
á meðal er John Copley. „Bríet Héð-
insdóttir var frábær og Þórhildur
Þorleifsdóttir reyndist okkur best.“
Í framhaldi af stofnun Söngskól-
ans stofnaði Garðar Kór Söngskólans
í Reykjavík sem fylgdi honum yfir í
Íslensku óperuna og varð að Kór Ís-
lensku óperunnar, en heitir í dag Óp-
erukórinn í Reykjavík. „Sú stað-
reynd að fjársjóður söngvara var
aðgengilegur á upphafsárum Ís-
lensku óperunnar sýnir óyggjandi
gæði tónlistarskólanna í landinu,
enda er slíkur fjársjóður ekki sjálf-
gefinn,“ segir Garðar og tekur fram
að hann sakni þess þó að íslenskir
söngvarar séu ekki fastráðnir líkt og
leikarar stóru leikhúsanna, hljóð-
færaleikarar Sinfóníunnar og dans-
arar Íd.
Í óperustjóratíð Garðars lögðu að
jafnaði um 17 þúsund áhorfendur leið
sína í Íslensku óperuna á ári. „Við
frumsýndum Sígaunabaróninn 1982
og það ár komu 27% þjóðarinnar í Ís-
lensku óperuna. Árin á eftir komi
17,8% þjóðarinnar á sýningar hjá
okkur árlega,“ segir Garðar og rifjar
upp að Sigurliði Kristjánsson, betur
þekktur sem Silli, og Helga Jóns-
dóttir kona hans hafi sýnt mikinn
rausnarskap þegar þau arfleiddu Ís-
lensku óperuna að myndarlegri upp-
hæð sem dugði fyrir kaupum á eigin
húsnæði, þ.e. Gamla bíói. „Skilyrði
gjafarinnar var að aðeins mætti nýta
féð í steinsteypu, ekki í uppfærslur.
Húsnæðið var okkar skjól, en það
skjól var óafsakanlega rofið þegar
Gamla bíó var selt,“ segir Garðar að
lokum.
„Kemst kraftaverki næst“
Garðar Cortes, söngvari, kór- og hljómsveitarstjóri og fv. óperustjóri Íslensku óperunnar, hlýtur
heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands Segist fulltrúi gæfufólksins sem stofnaði Óperuna
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gæfa „Mín gæfa var að
fá að vinna með Ólu
[Ólöfu Kolbrúnu Harð-
ardóttur], því hún hefði
hæglega getað farið út
í heim að syngja þar
sem henni buðust hlut-
verk,“ segir Garðar.
Heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands
Garðar Cortes
Sýning ársins
Fórn – No Tomorrow
í sviðsetningu Íslenska dansflokksins og Borgarleikhússins
Barnasýning ársins
Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason í leikgerð
Bergs Þórs Ingólfssonar í sviðsetningu Borgarleikhússins
Leikrit ársins
Sóley Rós ræstitæknir
eftir Maríu Reyndal og Sólveigu Guðmundsdóttur
í sviðsetningu Kvenfélagsins Garps
Leikstjóri ársins
Una Þorleifsdóttir fyrir Gott fólk
í sviðsetningu Þjóðleikhússins
Leikari ársins í aðalhlutverki
Stefán Hallur Stefánsson fyrir Gott fólk
í sviðsetningu Þjóðleikhússins
Leikkona ársins í aðalhlutverki
Sólveig Guðmundsdóttir fyrir Sóleyju Rós ræstitækni
í sviðsetningu Kvenfélagsins Garps
Leikari ársins í aukahlutverki
Björn Hlynur Haraldsson fyrir Óþelló
í sviðsetningu Þjóðleikhússins
Leikkona ársins í aukahlutverki
Kristbjörg Kjeld fyrir Húsið í sviðsetningu Þjóðleikhússins
Leikmynd ársins
Ilmur Stefánsdóttir fyrir Bláa hnöttinn
í sviðsetningu Borgarleikhússins
Búningar ársins
Stefanía Adolfsdóttir fyrir Elly
í sviðsetningu Borgarleikhússins og Vesturports
Lýsing ársins
Björn Bergsteinn Guðmundsson fyrir Fórn – Shrine
í sviðsetningu Íslenska dansflokksins og Borgarleikhússins
Tónlist ársins
Kristjana Stefánsdóttir fyrir Bláa hnöttinn
í sviðsetningu Borgarleikhússins
Hljóðmynd ársins
Sveinbjörn Thorarensen fyrir Da Da Dans
í sviðsetningu Íslenska dansflokksins
Söngvari ársins
Katrín Halldóra Sigurðardóttir fyrir Elly
í sviðsetningu Borgarleikhússins og Vesturports
Dans- og sviðshreyfingar ársins
Chantelle Carey fyrir Bláa hnöttinn
í sviðsetningu Borgarleikhússins
Danshöfundur ársins
Margrét Bjarnadóttir og Ragnar Kjartansson fyrir Fórn – No
Tomorrow í sviðsetningu Íd og Borgarleikhússins
Dansari ársins
Katrín Gunnarsdóttir fyrir Shades of History
í sviðs. Katrínar, Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival
Útvarpsverk ársins
Lifun eftir Jón Atla Jónasson
í sviðsetningu Útvarpsleikhússins – RÚV
Sproti ársins
Gréta Kristín Ómarsdóttir
Blái hnötturinn með flest verðlaun eða samtals fern
HANDHAFAR GRÍMUVERÐLAUNANNA 2017
Hæfileikar Stór hópur af hæfileikaríkum krökkum glansaði í leik, söng og
dansi í fjölskyldusöngleiknum Bláa hnettinum í Borgarleikhúsinu í vetur.