Læknablaðið - 01.01.2017, Blaðsíða 7
LÆKNAblaðið 2017/103 7
R I T S T J Ó R N A R G R E I N
Sjúkraflug er mikilvægur hlekkur í bráðaþjónustu utan spítala.
Það kemur fyrst og fremst að gagni þegar það styttir tímann þang-
að til alvarlega veikir eða slasaðir fá sérhæfða læknishjálp. Oft
skiptir þar mestu að viðbragðstími og flutningstími sé sem stystur,
til dæmis þegar sjúklingur er með heilaslag vegna blóðþurrðar.
Stundum skiptir öllu að sjúklingur fái sérhæfða læknishjálp fyrir
flutning og/eða meðan á honum stendur (pre-hospital critical care).
Þar getur til dæmis verið um að ræða endurlífgun, öndunaraðstoð,
stöðvun mikilla blæðinga og afléttingu þrýstiloftbrjósts. Inngrip
þarf stundum að gera við erfiðar aðstæður og þar veldur hver á
heldur. Reynsla og góður undirbúningur skiptir augljóslega miklu
máli.
Hér á landi eru ekki gerðar sérstakar kröfur um þjálfun eða
sérmenntun lækna sem starfa við sjúkraflug, en það kann að
breytast þar sem nýleg reglugerð skilgreinir bráðalækningar utan
sjúkrahúsa sem undirsérgrein, bæði við bráðalækningar og svæf-
inga- og gjörgæslulækningar. Slíkt leyfi hefur þó ekki verið gefið
út enn. Í Skandinavíu starfa yfirleitt eingöngu sérfræðilæknar á
læknabílum og sjúkra- og björgunarþyrlum. Margir telja að þetta
fyrirkomulag hafi jákvæð áhrif.1 Í Danmörku er þetta algengast,
með nærri 75 útköll svæfingalækna á hverja 10.000 íbúa á ári.2 Þetta
samsvarar 2500 útköllum á ári hér á landi, sem virðist vel í lagt, en
hvernig sem á það er litið er full þörf á að taka afstöðu til þess hvort
og hvernig við ætlum að fylgja þessari þróun.
Flest sjúkraflug hér á landi eru með sjúkraflugvél sem er stað-
sett á Akureyri. Þar hefur starfað læknavakt fyrir sjúkraflug frá
árinu 2002 og hefur umfang starfseminnar aukist ár frá ári. Til
dæmis voru 464 sjúklingar fluttir árið 2006, en hátt í 700 árið 2016.
Það er athyglisvert að þrátt fyrir þessa miklu fjölgun hefur hlutfall
forgangsflutninga haldist í kringum 40%. Þessu til viðbótar koma
sjúkraflug með þyrlum Landhelgisgæslu Íslands, en læknar hafa
starfað á þeim í 30 ár. Ég veit ekki hversu margir sjúklingar eru
fluttir með þyrlum, en nýlega kom fram í útvarpsumræðum að ár-
lega lenda þyrlur í aðeins 35-55 skipti við Landspítala í Fossvogi,
þar með taldar lendingaræfingar.3
Þessar upplýsingar kveikja spurningar. Í fyrsta lagi er brýnt að
finna út hvað liggur að baki þessari miklu fjölgun á sjúkraflugum.
Að hluta til kann hún að skýrast af auknum fjölda ferðamanna,
en fleira hlýtur að koma til. Í flestum sjúkraflugum eru
sjúklingar fluttir á Landspítala í Reykjavík. Hefur niðurskurður
undanfarinna ára skert þjónustu við bráðveika sjúklinga á minni
sjúkrastofnunum á landsbyggðinni og hreinlega neytt þær til
að halda kostnaði niðri með því að senda sjúklinga frá sér og til
höfuðborgarinnar? Í öðru lagi þarf að kanna hvort nota eigi þyrlur
oftar í stað sjúkrabíla. Því til stuðnings nefni ég dæmi úr nýlegri
rannsókn, þar sem fram kom að einungis tveir af 56 sjúklingum á
suðursvæði með brátt hjartadrep með ST-hækkunum voru fluttir
með þyrlu, þrátt fyrir að tími (miðgildi) frá fyrstu samskiptum
að kransæðavíkkun væri 157 mínútur og í einungis 12% tilfella
skemmri en 120 mínútur.4 Æskilegt er að þessi tími sé ekki lengri
en 90-120 mínútur. Hugsanlega skýrist þessi litla notkun á þyrl-
um af of löngum viðbragðstíma og viðtekinni venju um að kalla
aðeins til þyrlu þegar þörf er brýn, sem er teygjanlegt hugtak.
Tölur um fjölda lendinga segja því lítið um raunverulega þörf eða
skynsamlega notkun á þyrlum og verður því að taka þeim með
fyrirvara. Kannski er kominn tími til breytinga, til dæmis að hafa
bundna þyrluvakt og sérstaka sjúkraþyrlu á Suðurlandi, eins og
hugmyndir eru uppi um!
Ríkisendurskoðun hefur endurtekið hvatt velferðarráðuneytið
til að vanda betur til útboða sjúkraflugs, móta framtíðarstefnu í
sjúkraflutningum og taka ákvörðun um aðkomu Landhelgisgæsl-
unnar að almennu sjúkraflugi.5 Sjúkraflug á að bjóða út á næsta
ári og álitamálin eru mörg. Því þarf að láta hendur standa fram
úr ermum.
Heimildir
1. Mikkelsen S, Krüger AJ, Zwisler ST, Brøchner AC. Outcome following physician supervised
prehospital resuscitation: a retrospective study. BMJ Open 2015; 5: e006167.
2. Kruger AJ, Lossius HM, Mikkelsen S, Kurola J, Castren M, Skogvoll E. Pre-hospital critical
care by anaesthesiologist-staffed pre-hospital services in Scandinavia: a prospective
population-based study. Acta Anaesthesiol Scand 2013; 57: 1175-85.
3. Nýi Landspítalinn: Þyrlumálin í lagi segja sérfræðingar. Í bítið [útvarpsþáttur]. Bylgjan, 27.
október 2016. visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP49528 – desember 2016.
4. Sigmundsson ÞS, Arnarson D, Magnússon V, Gunnarsson GÞ, Þorgeirsson G. Flutningstími
og gæði meðferðar hjá sjúklingum með ST-hækkunar-hjartadrep á landsbyggðinni – fáir ná
í kransæðavíkkun innan 120 mínútna. Læknablaðið 2016; 102: 11-7.
5. Skýrsla til Alþingis. Eftirfylgni: Sjúkraflug á Íslandi. Ríkisendurskoðun, september 2016.
rikisendurskodun.is/wp-content/uploads/2016/09/EU-Sjukraflug.pdf – desember 2016.
Um sjúkraflug
Björn Gunnarsson
barna-, svæfinga- og gjörgæslulæknir
bjorn.gunnarsson@norskluftambulanse.no
On air ambulance services
Björn Gunnarsson
Department of Research, Norwegian
Air Ambulance Foundation, Drøbak, Norway
https://doi.org/10.17992/lbl.2017.01.113
PORTFARMA
VERÐUR ALVOGEN
NÝTT ÚTLIT – SÖMU LYF