Læknablaðið - 01.09.2018, Blaðsíða 35
LÆKNAblaðið 2018/104 415
Fjölónæmar bakteríur og bólusetningar
„Alexander Fleming, sá ágæti maður sem
fann upp pensilínið, sagði árið 1928 að það
yrði að nota þetta lyf af ábyrgð, annars
færi illa. Hann hafði rétt fyrir sér því nú
90 árum síðar stöndum við frammi fyrir
því sem sumir vilja kalla stærstu ógn við
heilsufar mannkyns á 21. öld. Við höfum
notað sýklalyf af ábyrgðarleysi og slíku
hömluleysi að nú eru komnar fram bakt-
eríur sem engin þekkt sýklalyf vinna á.
Þetta á bæði við um ofnotkun sýklalyfja í
mannalækningum en einnig og ekki síður
vegna yfirgengilegrar notkunar þeirra í
landbúnaði. Við höfum reyndar slopp-
ið við það hér á Íslandi en með nýjum
reglum um innflutning á kjöti frá öðrum
löndum er meiri hætta á að fjölónæmar
bakteríur komi til okkar. Þar ráða gróða-
sjónarmið ferðinni en ekki almannaheill.
Við eigum að beita öllum ráðum til að
draga úr hættunni á þessu.
Fram að þessu hefur tekist að finna upp
sýklalyfjaflokka sem við getum notað en
það er ekki víst að okkur takist það lengi
til viðbótar. Þetta eru framtíðaráhyggjur
en raunverulegar.
Ef við lítum til heimsins í heild er
einkum tvennt sem hefur þau áhrif að
sjúkdómar smitast hraðar en áður. Það er
alþjóðavæðingin með mestu flutningum
fólks um heimsbyggðina sem hingað til
hafa þekkst og svo er það borgarvæð-
ingin þar sem milljónir manna búa í nánu
samneyti. Hvernig sjúkdómar smitast
ræður því að miklu leyti hversu alvarlegur
faraldurinn verður. Það er varla hægt að
hugsa það til enda ef til dæmis ebóluveir-
an hefði smitast með innöndun en ekki
snertingu. Hvað varðar smitsjúkdómana
líður varla svo ár að nýir sýklar sem geta
gert fólki skráveifu komi ekki fram. Þó
er rétt að hafa í huga að heimsbyggðin er
óðum að renna saman í eina heild hvað
sjúkdóma varðar og af 10 algengustu
dánarorsökum fólks eru 6 þeirra sameig-
inlegar öllum heimsálfum. Lífsstílssjúk-
dómar vega þyngra í dag en smitsjúkdóm-
ar í löndum sunnan Sahara í Afríku.
En jafnalvarlegir og smitsjúkdómarnir
eru er að vissu leyti auðveldara að fást við
þá en lífsstílssjúkdómana. Við kunnum
það að minnsta kosti betur. Við getum
búið til bóluefni gegn smitsjúkdómunum
og sprautað því í fólk en það getum við
ekki þegar offita, hjartasjúkdómar og
sykursýki 2 eru annars vegar. Þá þarf að
koma til hugarfarsbreyting einstaklings-
ins, með gerbreyttum lífsstíl, mataræði og
hreyfingu og það getur reynst flóknara og
erfiðara en að finna mótefni við veiru jafn
mótsagnakennt og það hljómar.“
Afrísk heilbrigðisþjónusta
Sigurður segir að dvöl þeirra hjóna í
Malaví í Austur-Afríku hafi gerbreytt
mati þeirra á hvað felist í raunverulegum
lífsgæðum. „Það eru stórkostleg gæði að
búa við heilbrigðisþjónustu þar sem öll
lyf eru fáanleg og börn deyja ekki úr al-
gengustu sýkingum og smitsjúkdómum. Á
heilsugæslustöðinni þar sem við störfuð-
um dó að meðaltali eitt barn á dag á rign-
ingartímanum vegna þess að það komst of
seint undir læknishendur eða lyfin voru
ekki til. Ég man sérstaklega eftir 13 ára
stúlku sem dó úr heilahimnubólgu vegna
þess að ekki var til sýklalyf. Þetta var erfið
reynsla en lærdómsrík og kenndi manni
að meta þau gæði sem við búum við hér.
Í rauninni var þetta svo djúpstæð reynsla
að ég hugsa gjarnan um lífshlaup mitt sem
tvo þætti, annan fyrir og hinn eftir árið í
Malaví.
Annað mál sem vert er að minna á í
þessu samhengi er vaxandi andstaða gegn
bólusetningum. Hafi ég einhvern tíma
séð með eigin augum hve mikilvægar
bólusetningar eru, þá var það í Malaví.
Það voru ákveðin forréttindi að taka þátt í
því að efla bólusetningar í þessu örfátæka
landi og sjá hvílíkan árangur þær hafa
borið, reyndar um alla Afríku sunnan
Sahara. Þar nálgumst við nú þann árangur
í að stemma stigu við illvígum barnasjúk-
dómum sem við höfum náð hér í ríkum
og velmegandi löndum fyrir löngu. Því
er það með ólíkindum að sumt fólk, að
vísu í minnihluta, en víða hávært, skuli
hvetja foreldra til að hafna bólusetning-
um barna sinna. Lítið fer fyrir þessum
sjónarmiðum hérlendis sem betur fer, en
þeim gæti vaxið fiskur um hrygg hér eins
og annars staðar. Mér finnst þessi sjónar-
mið lýsa vanvirðu og jafnvel fyrirlitingu
í garð þeirra sem eru í mestri hættu á að
fá þessa sjúkdóma, og gleymum ekki því
að á heimsvísu er þar fyrst og fremst um
fátækt fólk að ræða.“
Örverur mannslíkamans
heillandi rannsóknarefni
Sigurður var forseti alþjóðlegs þings smit-
sjúkdómalækna sem fram fór í Hörpu
dagana 19.-22. ágúst og þar komu saman
sérfræðingar og kynntu niðurstöður
rannsókna sinna. Sigurður segir að sér-
staklega heillandi hafi sér þótt umfjöllun
um svokölluð microbiom (örverumengi)
þar sem örveruflóra mannslíkamans bæði
innan í og utan á er viðfangsefnið.
„Það er vitað að örverur mannslíkam-
ans eru 10 sinnum fleiri en allar frumur
hans og því má segja að maður sér bara
10% maður sjálfur. Allt hitt eru aðrar
lífverur. Þetta samsafn örvera hefur
gríðarlega mörg og merkileg hlutverk í
líkamanum og hefur verið að þróast í þús-
undir ára. Það sem er heillandi við þetta
er þýðin gin sem þetta hefur um tilurð
sjúkdóma og við erum rétt að byrja að átta
okkur á þessu. Ég hugsa að eftir því sem
þekkingu okkar á þessu fleygir fram á
næstu árum og áratugum muni þetta hafa
meiri áhrif á hvernig lækningar þróast
heldur en genarannsóknir. Ég ætla ekki að
tala genarannsóknir niður, enda gríðar-
lega merkar niðurstöður sem hafa komið
úr þeim ranni, en ennþá hefur okkur ekki
tekist að finna lækningar við mörgum
þeim sjúkdómum sem við vitum nú að
orsakast af erfðum. Hvað sem því líður þá
eiga rannsóknir á örverumengi manns-
líkamans eftir að setja gríðarlega mikinn
svip á læknisfræðina á komandi árum og
áratugum.“
Með þeim orðum sláum við botninn
í þetta samtal við Sigurð Guðmundsson
sem er enn jafn gagntekinn af læknis-
fræði og þegar hann leit fyrst bakteríur
augum í smásjá sem læknastúdent. Megi
læknanemar og samstarfsmenn njóta eld-
móðs hans lengi enn.