Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.09.2018, Blaðsíða 33

Læknablaðið - 01.09.2018, Blaðsíða 33
LÆKNAblaðið 2018/104 413 er kannski mikilvægast af öllu. En nú er ég farinn að tala eins og prestur í mærðarstól. Blessaður komdu með aðra spurningu!“ Heldurðu að þín kynslóð byggi kannski sjálfsmynd sína meira á starfinu heldur en unga fólkið í dag? „Það getur vel verið og er þá af hinu góða ef yngra fólkið skynjar betur en við að lífið á sér fleiri hliðar en starfið. Góður maður sagði að lífið sjálft væri starf og því má ekki gleyma. Þó veit ég að yngra fólkið er engu minna hugfangið af læknisfræðinni og starfinu en við eldra fólkið vorum og erum. Þetta er einfaldlega þannig og við leggjum svo mikið í það; námið er langt og strangt, við erum allt að 20 árum að fullnuma okkur í sérgrein og allt er þetta gert vegna starfsins og af einlægum áhuga. Þetta hlýtur því að vera stór partur af sjálfsmyndinni hjá okkur öllum. Ungum sem eldri. Ég er ekki einu sinni viss um að mér finnist sá læknir öf- undsverður sem getur skilið vinnuna eftir þegar vakt lýkur og hugsað um allt aðra hluti þar til næsta vakt hefst. Maður tekur starfið með sér heim, bæði meðvitað og ómeðvitað, brýtur heilann um hvað sé nú að þessum sjúklingi og hvers vegna get ég ekki leyst þetta. Svo kemur þetta til manns allt í einu, kannski um miðja nótt! Ég var alltaf ákveðinn í snúa aftur sem smitsjúkdómalæknir þó hlutirnir hafi æxlast þannig að ég sinnti embættis- og stjórnunarstörfum í þessi 15 ár. Sá tími var ómetanleg reynsla, og ég er mjög þakk- látur fyrir að hafa fengið tækifæri til að gegna þessum störfum. Reyndar tók ég mér ársleyfi 2006-2007 ásamt eiginkonu minni, Sigríði Snæbjörnsdóttur, og við fórum á vegum Þróunarsamvinnustofnun- ar Íslands til Malaví í Austur-Afríku þar sem við störfuðum á lítilli heilsugæslustöð við mjög frumstæð skilyrði. Það var góð reynsla en jafnframt dálítið erfið.“ Um íslenska heilbrigðiskerfið „Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á framtíðina og segja að það sem við erum að gera í heilbrigðisþjónustunni er flest til fyrirmyndar og eftirbreytni. Það er engin tilviljun að alþjóðlegar úttektir eru mjög jákvæðar. Þó er margt sem við getum gert betur og annað sem er beinlínis hunsað og kemur ekki nægilega skýrt fram í þessum flottu úttektum sem ég nefndi. Við höfum talað okkur blá og græn í andlitinu í 20 ár yfir skorti á nýju húsnæði yfir Landspítala og við tökumst á um rekstrarform í heil- brigðisþjónustunni og sitjum uppi með það að fólk fer til útlanda að láta gera á sér aðgerðir fyrir þrisvar sinnum meira en það myndi kosta að gera þær hér. Þetta gerum við á grundvelli pólitískra grunn- skoðanna stjórnmálamanna en ekki á grundvelli þess hvað er best fyrir sjúkling- ana. Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á einkarekstri versus opinberum rekstri en staðreynd málsins er engu að síður sú að allt er þetta greitt af opinberu fé. Ég er gamall sósíalisti og enn er taug í mér til þess en það breytir því þó ekki að ég er löngu búinn að sjá að ýmislegt í heilbrigð- isþjónustunni er betur komið í höndum annarra en ríkisins. Átökin um þetta hafa kristallast í deilum um Klíníkina og hvað svo sem má segja um það er alveg ljóst að þar er tekist á um hagsmuni annarra en „Í stað þess að liggja í pólitískum skotgröfum eigum við að taka höndum saman um að sníða vankantana af annars ágætu kerfi,“ segir Sigurður Guðmundsson smitsjúkdómalæknir sem nú stendur á sjötugu eftir farsælan starfsferil.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.