Læknablaðið - 01.04.2018, Blaðsíða 9
LÆKNAblaðið 2018/104 169
R I T S T J Ó R N A R G R E I N
Markmið íslenskra stjórnmálamanna á næstu misserum ætti að vera
að finna leiðir til góðs öldrunarsamfélags. Þetta markmið ætti einnig
að fá aukið vægi í námi og starfi lækna og heilbrigðisstarfsfólks þar
sem heilsuefling, forvarnir á sviði heilsu og velferðar, greiða götu okk-
ar að bættri lýðheilsu.
Langvinnir sjúkdómar eru og verða helsta ógn við heilbrigði, fram-
farir og hagvöxt um allan heim á næstu árum og áratugum. Flestir
langvinnir sjúkdómar eru til komnir vegna slæmra lifnaðarhátta sem
þjóðir hafa tamið sér síðustu 50 ár.1 Með einföldum og ódýrum stjórn-
valdsaðgerðum má ná miklum árangri á skömmum tíma. Það má tak-
marka nokkra vel þekkta áhættuþætti með einföldum aðgerðum sem
hafa haft veruleg áhrif á heilsu og velferð okkar á síðustu áratugum.2,3
Að viðhalda heilbrigði í stað þess að meðhöndla einungis sjúkdóma
er mun ódýrari og áhrifaríkari nálgun að bættri lýðheilsu. Læknar og
heilbrigðisstarfsfólk hafa mikilvægu hlutverki að gegna til að upplýsa
heilbrigðisyfirvöld um orsakir sjúkdóma. Íþrótta- og heilsufræðingar
geta lagt þessu fagfólki lið og beitt áhrifaríkum inngripum til að fyrir-
byggja langvinna sjúkdóma í okkar samfélagi. Hér leynast tækifæri til
framþróunar heilbrigðisstétta.
Heilbrigðisstarfsfólk, með lækna í broddi fylkingar, þarf að leggja
meiri áherslu á að viðhalda heilbrigði frá unga aldri til viðbótar því að
meðhöndla sjúkdóma. Til lengri tíma litið eru fyrirbyggjandi aðgerðir á
heilsu mun ódýrari og áhrifaríkari nálgun til bættrar lýðheilsu án þess
að hverfa frá markvissri og góðri heilbrigðisþjónustu. Um 98% útgjalda
til heilbrigðismála fer í að meðhöndla sjúkdóma en aðeins tæplega 2%
til að fyrirbyggja vandann. Hvaða rök liggja að baki þessari stefnu?
Það er áhugaverð staðreynd að í Evrópu fara tæplega 3% útgjalda
til heilbrigðismála í forvarnir málaflokksins en á Íslandi er hlutfallið
nær helmingi lægra, eða um 1,6%.4 Það skýtur því skökku við að heil-
brigðiskerfið er fyrst og fremst byggt upp til að meðhöndla sjúkdóma
eða bregðast við bráðatilfellum; leggja plástur á sárin, í stað þess að
fyrirbyggja þessa þætti.
Læknarnir Karl Andersen og Vilmundur Guðnason fjalla í tveim-
ur greinum sínum í Læknablaðinu um langvinna sjúkdóma og leið-
ir til bættrar lýðheilsu.1,5 Þeir benda á lausnir og fjalla um faraldur
langvinnra sjúkdóma sem orsakir að flestum dauðsföllum í heimin-
um. Þeir benda á að sjúkdómar þessir hindra einnig framfarir, hagvöxt
og heilbrigði og að slík þróun mun halda áfram á næstu tveimur til
þremur áratugum verði ekkert að gert. Aðrir sérfræðingar taka undir
þessa nálgun.6,7 Forvörn á sviði heilsu og velferðar er eins og fársjúkur
einstaklingur á bráðamóttöku, þolir enga bið.
Langlífi hefur aukist og sífellt stærra hlutfall þjóðar nær eftirlauna-
aldri. En langlífi er einnig afleiðing af breyttum lífsstíl þjóðar og menn-
ingu. Með enn betri samþættingu læknisfræðinnar og lýðheilsufræði-
legra inngripa má gera betur innan öldrunarsamfélags framtíðar. Það
hlýtur að vera eftirsóknarvert að takast á við þær breytingar og fækka
langvinnum sjúkdómum í stað þess að sjá þá aukast á næstu árum og
áratugum.
Talið er að um 40% fullorðinna í Evrópu eigi að minnsta kosti við
einn langvinnan sjúkdóm að stríða og tveir þriðju hlutar þeirra sem ná
eftirlaunaaldri hafi tvo eða fleiri langvinna sjúkdóma. Þetta er sagt þar
sem það er bæði kostnaðarsamt að vera undir stöðugu eftirliti starfs-
manna heilbrigðiskerfisins og lyf eru dýr.
Ekki er hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að nefna helstu
áhættuþætti langvinnra sjúkdóma og hvar rætur þeirra liggja. Hjarta-
og æðasjúkdómar eru algengasta orsök langvinnra sjúkdóma. Um
90% af öllum nýjum tilfellum kransæðastíflu orsakast af 9 algengum
áhættuþáttum sem eiga það sameiginlegt að vera tengdir við lífsstíl
og umhverfi.8
Hjartavernd, sú einstaka stofnun í Kópavogi og sérfræðingar henn-
ar, hefur komist að því að síðastliðin 25 ár hefur orðið 66% fækkun
tilfella af bráðri kransæðastíflu. Þessi breyting hefur skilað sér í 80%
fækkun dauðsfalla að mati Thors Aspelund og sérfræðinga þar á bæ.9
Skýringa á þessum jákvæðu breytingum var að fjórðungi að leita í
læknisfræðinni og meðferðum lækna og heilbrigðisstarfsfólks við
þessum sjúkdómum. En að þremur fjórðu hlutum var breytingin skýrð
af jákvæðum breytingum í helstu áhættuþáttum meðal þjóðarinnar;
reykingum, háu kólesteróli og háum blóðþrýstingi. Flestir þessara
þátta eiga rætur að rekja til lífsstílsbreytinga einstaklinga sem létu
af óhollu mataræði og hreyfingarleysi. Því miður vann sykursýki og
offita á móti enn betri árangri.
Ef við ætlum okkur að sinna heilbrigðismálum eins og heilsa er
skilgreind, bæta heilsutengd lífsgæði allra aldurshópa og verða fær um
að sinna ört stækkandi öldrunarsamfélagi framtíðar, er það lykilatriði
að auka heilsutengdar forvarnir þar sem bætt og breytt mataræði, dag-
leg hreyfing og félagsleg aðhlynning einstaklinga og hópa er höfð að
leiðarljósi.
Aukið framlag ríkisins til forvarna heilsueflingar um aðeins 2-3%
af heildarframlagi til heilbrigðismála gæti skipt sköpum fyrir íslenska
þjóð til frambúðar svo vinda megi ofan af langvinnum sjúkdómum,
sinna ört vaxandi eldra samfélagi og auka jafnvægi í útgjöldum til heil-
brigðismála á næstu árum og áratugum.
Heimildir
1. Andersen K, Gudnason V. Langvinnir sjúkdómar. Læknablaðið 2012; 98: 591-5.
2. Guðlaugsson J, Aspelund T, Guðnason V, Ólafsdóttir AS, Jónsson PV, Arngrímsson SÁ, et al. Áhrif 6 mánaða
fjölþættrar þjálfunar á hreyfigetu, vöðvakraft, þol og líkamsþyngdar eldri einstaklinga - Eru áhrif þjálfunar
sambærileg hjá konum og körlum? Læknablaðið 2013; 99: 331-7.
3. Guðlaugsson J, Guðnason V, Aspelund T, et al. Effects of exercise training and nutrition counseling on body
composition and cardiometabolic factors in old individuals. Eur Geriat Med 2013; 4: 431-7.
4. Chabot JM. [Health at a glance by OECD]. Rev Prat 2003; 53: 1929-30.
5. Andersen K, Guðnason V. Stefnumörkun í heilbrigðismálum: leiðin til lýðheilsu. Læknablaðið 2013; 99: 129-34.
6. Petersen PE. Global policy for improvement of oral health in the 21st century--implications to oral health research
of World Health Assembly 2007, World Health Organization. Community Dent Oral Epidemiol 2009; 37: 1-8.
7. Olshansky SJ, Passaro DJ, Hershow RC, Layden J, Carnes BA, Brody J, et al. A potential decline in life expectancy
in the United States in the 21st century. N Engl J Med 2005; 352: 1138-45.
8. Yusuf S, Hawken S, Ounpuu S, Dans T, Avezum A, Lanas F, et al. Effect of potentially modifiable risk factors
associated with myocardial infarction in 52 countries (the INTERHEART study): case-control study. Lancet 2004;
364: 937-52.
9. Aspelund T, Gudnason V, Magnusdottir BT, Andersen K, Sigurdsson G, Thorsson B, et al. Analysing the large
decline in coronary heart disease mortality in the Icelandic population aged 25-74 between the years 1981 and
2006. PloS one 2010; 5: e13957.
The way to public health: Health-related
prevention and health promotion
Janus Guðlaugsson
PhD-Sport and Health Scientist
doi.org/10.17992/lbl.2018.04.179
Leiðin til lýðheilsu: forvarnir og heilsuefling
Janus Guðlaugsson
PhD-íþrótta- og heilsufræðingur
janus@janusheilsuefling.is