Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.06.2018, Blaðsíða 42

Læknablaðið - 01.06.2018, Blaðsíða 42
314 LÆKNAblaðið 2018/104 Notkun nokkurra algengra lyfjaflokka er meiri á Íslandi en í nágrannalöndunum og í sumum tilfellum er munurinn verulegur. Í einhverjum tilfellum á þessi munur sér langa sögu en í öðrum er um nýlega þróun að ræða. Hér eru geðlyf gerð að sérstöku umtalsefni enda eru í þeim flokki skýr- ustu dæmin um mikinn mun á milli landa og þar eru einnig þau lyf sem eru helst misnotuð vegna vímuvaldandi áhrifa. Hér skal þó tekið fram að geðlyf eru ekki þau einu þar sem Ísland sker sig úr meðal þjóða sem við viljum helst bera okkur saman við. Notkun geðlyfja er mun meiri á Íslandi en í nágrannalöndunum, meðal annars í eftirfarandi lyfjaflokkum: sterk verkjalyf (N02A), róandi og kvíðastillandi lyf (N05B), svefnlyf og róandi lyf (N05C), þunglyndislyf (N06A), flogaveikilyf (N03A) og örvandi lyf (N06B).1,2 Langflestir eru sammála um að þetta ástand sé óheppilegt og sé merki um að notkun viðkomandi lyfja sé ekki alltaf skynsamleg. Fyrst er að greina ástandið og síðan að finna skýringar. Ef niðurstaða þeirrar greiningar er að ástandið sé óeðli- legt er næst að finna vænlegar aðferðir til úrbóta og koma þeim í framkvæmd. Hér á eftir eru viðraðar ýmsar hugmyndir sem aðeins í sumum tilfellum eiga sér tryggan vísindalegan grunn en eru meira settar fram sem grundvöllur fyrir frekari um- ræður og rannsóknir. Nokkrar hugsanlegar skýringar Algengi viðkomandi sjúkdóms sé meira á Íslandi en annars staðar. Engar vís- bendingar eru um að þeir sjúkdómar sem hér eru til umfjöllunar séu algengari hér á landi en í nágrannalöndunum. Á Íslandi er brotakennt heilbrigð- iskerfi sem lýsir sér meðal annars í því að sjúklingar fá ekki alltaf þá þjónustu sem þeir þurfa. Í slíku kerfi er tilhneiging að „leysa“ vandamálin á einfaldan og fljót- legan hátt með lyfjum í stað þess að takast á við vandann á annan hátt sem oftast er vænlegra til langtímaárangurs. Ofgreiningar og sjúkdómavæðing er sennilega hluti vandans. Hér má benda á að ofvirkni með athyglisbresti (ADHD) er ein örfárra sjúkdómsgreininga sem fólk sækist eftir að fá. Lyfjafyrirtækin hafa í sumum tilfellum haft uppi óvönduð vinnubrögð varðandi markaðssetningu og lyfjakynningar þar sem ný lyf hafa verið fegruð á ýmsan hátt án þess að innistæða væri fyrir því. Það er læknirinn sem á að stjórna lyfja gjöfinni en ekki sjúklingurinn eða aðstandendur hans. Mörg dæmi eru um að einstaklingar sem misnota lyf eða selja þau blekki lækna varðandi sjúkdóms- greiningar, sjúkdómseinkenni, lyfjaval, skammta eða annað í annarlegum tilgangi. Of mikið er um langtímaávísanir (fjöl- nota seðlar eða vélskömmtun) á ávana- bindandi lyf sem sum eru einungis ætluð til skammtímanotkunar. Slíkar ávísanir eru í mörgum tilvikum endurnýjaðar meira eða minna sjálfvirkt án þess að fram fari nauðsynlegt endurmat á ástandi sjúk- lings. Oft er ávísað óþarflega stórum pakkn- ingum eða óþarflega miklu magni. Þetta er jafnvel gert þegar verið er að prófa sig áfram með lyfjaval og óvissa ríkir um ár- angur af viðkomandi lyfi. Þetta er líka gert við útskriftir eftir aðgerð á sjúkrastofnun þar sem stundum er ávísað sterku verkja- lyfi eða svefnlyfi sem mundi endast í margar vikur eða mánuði þegar kannski má búast við þörf fyrir lyfið í nokkra daga. Það eykur á þennan vanda að í ýmsum tilvikum eru ekki á markaði litlar pakkn- ingar en því er að mestu stjórnað af lyfja- fyrirtækjunum. Langflestir læknar nota lyfjagagna- grunn landlæknis reglulega og eins og búast mátti við hefur það dregið úr læknarápi. Þrátt fyrir þetta er enn of mik- ið um læknaráp og læknar eru ekki að nota lyfjagagnagrunninn eins mikið og æskilegt væri. Ef lyfjafræðingar í apótek- um verða varir við að sami sjúklingur fái sömu lyf afgreidd frá fleiri en einum lækni á sama tíma ættu þeir að hafa samband við lækna og ræða við þá áður en lyfin eru afgreidd. Of mikið er um það að aldraðir (>60 ára) fái skammta slævandi lyfja sem eru of stórir miðað við aldur. Slíkt getur valdið syfju og sljóleika, aukið hættu á byltum og beinbrotum og skert lífsgæði verulega. Það hægir mjög á brotthvarfi lyfja með aldri og dæmi eru um að hæfilegir skammtar minnki um helming frá 40 ára til 80 ára aldurs. Þetta á einkum við þegar aldraðir eru komnir á mörg lyf og/eða langtíma- notkun lyfja sem ætluð eru til skamms tíma. Niðurstaða Með tilkomu lyfjagagnagrunns land- læknis er auðvelt að bera saman notkun lyfja á Íslandi og hinum Norðurlöndunum. Erfiðara er að finna haldbærar skýringar á mikilli notkun sumra lyfja hér á landi. Skýringin getur legið bæði hjá læknum sem ávísa og sjúklingum sem sækja í lyf en einnig í skipulagi heilbrigðiskerfis- ins. Til að vinna gegn þessu ástandi þarf hugarfarsbreytingu sem nær til lækna, sjúklinga og samfélagsins alls. Til að stuðla að slíkri hugarfarsbreytingu er lykilorðið fræðsla og jafnvel breyttar og skýrari reglur sem bæta meðferð. Heimildir 1. Lyfjagagnagrunnur Embættis landlæknis. 2. NOMESCO (nowbase.org/da/publications) Er þörf á hugarfars- breytingu? Magnús Jóhannsson læknir magjoh@hi.is, Anna Björg Aradóttir sviðsstjóri, Jón Pétur Einarsson lyfjafræðingur, Ólafur B. Einarsson sérfræðingur F R Á E M B Æ T T I L A N D L Æ K N I S 2 4 . P I S T I L L

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.