Skírnir - 01.09.2005, Blaðsíða 8
Gullfoss varð þá áfangastaður flestra sem sigldu til Íslands, þó að
Íslandsfarar hefðu lagt þangað leið sína fyrr á öldinni.
Fossinn var auglýstur sem ferðamannastaður í erlendum ferða-
handbókum á síðari hluta 19. aldar og myndir birtar af honum í
auglýsingum um ferðir til Íslands.3 Fossaskoðun var hluti þeirrar
ferðamenningar og náttúruskoðunar sem þróaðist á 18. og 19. öld
og fram á þá tuttugustu. Fossar höfðu aðdráttarafl því að þeir
skreyttu landslagið fyrir ferðalanginn. Þeir þóttu myndrænir og
þeir stærri mikilfenglegir. Hugmyndafræðilega tengdust fossarnir
boðskap rómantísku stefnunnar um hið fagra og háleita í náttúr-
unni. Sífellt fleiri lögðu upp í leit að slíkum eiginleikum náttúr-
unnar í lok 19. aldar og núlifandi kynslóðir eru enn að leita – og
finna.4 Eftir aldamótin 1900 héldu erlendir ferðamenn áfram að
gera sér ferð austur að Gullfossi og þá eins og ferðamátinn bauð
upp á, þ.e. ríðandi frá Reykjavík.5 Fyrsta bílferðin að Gullfossi var
farin árið 1928. Þá voru ekki komnir akvegir alla leiðina eða brýr
yfir allar ár og því skrölt yfir ýmsar ófærur.6
Í kringum aldamótin 1900 voru Gullfossfarar bæði íslenskir og
erlendir. Oft var gestkvæmt í Brattholti, næsta bæ við Gullfoss
vestan megin Hvítár, einkum á sunnudögum. Ef sveitungar eða
kunningjar heimilisfólksins voru þar á ferð slógust þær Bratt-
holtssystur oft í förina inn að fossi. Þær fylgdu líka ókunnu ferða-
fólki og varð nafn Sigríðar þekkt vegna Gullfossferðanna.7 Hún
fylgdi t.d. breska Íslandsfaranum Frederick W.W. Howell að foss-
inum þegar hann kom þangað í fyrsta sinn árið 1891 og eru til
myndir af henni úr þeirri ferð.8
unnur birna karlsdóttir238 skírnir
3 Sumarliði Ísleifsson, Ísland. Framandi land (Reykjavík 1996), bls. 162, 164, 211.
4 Orvar Löfgren, „Rum och rörelse. Landskapsupplevelsens förvandling“, Natur
som kultur. Beggelsehistorisk tiskrift 38 (1999), bls. 31–42.
5 Svenn Poulsen og Holger Rosenberg, Íslandsferðin. Frásögn um för Friðriks átt-
unda og ríkisþingmanna til Færeyja og Íslands sumarið 1907, þýð. Geir Jónas-
son (Reykjavík 1958), bls. 212.
6 „Bifreið að Gullfoss“, Morgunblaðið 27. júlí 1928.
7 Guðríður Þórarinsdóttir, „Sigríður í Brattholti“, Inn til fjalla. Rit Félags Bisk-
upstungnamanna í Reykjavík. 2. b. (Reykjavík 1953), bls. 111. Hannes Þor-
steinsson, Endurminningar og hugleiðingar … (Reykjavík 1962), bls. 71.
8 Frank Ponzi, Ísland Howells 1890–1901 (Mosfellsbæ 2004), bls. 85.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:52 Page 238