Skírnir - 01.09.2005, Blaðsíða 86
ekki alls varnað í listrænum vinnubrögðum og byggingu sagnanna
þrátt fyrir allt. Verkið teljist einfaldlega til niðurrifsbókmennta og
sé þar af leiðandi ógnun við vestræna menningu eins og hún legg-
ur sig. Efnisval sé alveg ótækt þótt svipaðar sögur hafi engu að síð-
ur komið fyrir almenningssjónir í öðrum löndum. Dómurinn er
stuttur og hljóðar svo í heild:
Þetta er safn sagna er vitna ekki um mikla skáldgáfu, en kaldranalegt og
hrjóstrugt hugmyndaflug. Höf. hefur lagt sig fram um að nema listræn
vinnubrögð og á hrós skilið fyrir það. Nokkrar af sögum hans eru býsna
vel gerðar, t.d. „Stríðið við mannkynið“, „Bjargbátur nr. 1“, „Á gras-
inu“ o.fl. – „Stríðið við mannkynið“, „Dvergurinn“ og fleiri sögur í bók
þessari tilheyra annars þeirri tegund bókmennta, sem einkennist af því,
er á skandinavísku hefur verið nefnt „lortens mystik“ – dulspeki óþrif-
anna. Þess háttar skáldskap hefur um langt skeið verið hátt hampað af
þeim niðurrifsöflum, sem hafa þann starfa að eyðileggja vestræna menn-
ingu. En nú hafa heilbrigðir bókmenntamenn um allan hinn frjálsa heim
risið gegn þeim óþrifnaði og sýnt fram á tilgang hans. Hafa því ung
skáld, er láta glæpast af slíku, ekki aðra afsökun, en sínar eigin tilhneig-
ingar.
Bezta saga Geirs Kristjánssonar er: „Frá þeim, sem ekki hafa, mun
tekið verða …“. Þar eru talsverð tilþrif og ýmislegt vel séð, karlpersónan
verður lesandanum minnisstæð. Víðar eru athyglisverð tæknileg listatök,
m.a. í „Stofnuninni“, sem þó er misheppnað verk í heild.
Fjórir ritdómar um smásagnasafnið birtust í tímaritum.15 Þeir
voru sama marki brenndir og blaðadómarnir, tveir vinsamlegir og
tveir neikvæðir. Réttast er að rifja þá upp í sömu röð og þeir birt-
ust.
Hannes Sigfússon ríður á vaðið í tímaritsgreinunum. Hann
fagnar því að íslenskum bókmenntum hafi bæst nýr vandvirkur
liðsmaður með góðan listasmekk. Hann hrósar myndvísi höfund-
ar en er samt dálítið ergilegur yfir hvað sögurnar eru einhæfar að
efni og stíllinn oft kaldlyndur og ástríðulaus, en síðan segir hann:
bragi halldórsson316 skírnir
15 Hannes Sigfússon skáld skrifaði í Tímarit Máls og menningar, Guðmundur G.
Hagalín rithöfundur í Eimreiðina, Magnús Torfi Ólafsson, síðar menntamála-
ráðherra í seinni vinstri stjórninni, í Birting og Gísli Jónsson menntaskólakenn-
ari á Akureyri í Skírni.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:53 Page 316