Skírnir - 01.09.2005, Blaðsíða 110
ups ens helga 2003:258*). Þarna er í báðum tilvikum átt við að rita
sögu. Hugmyndir Lehmann og Bekker-Nielsen geta reyndar stað-
ist ef það sem Arngrímur ábóti segir er nákvæmlega satt og rétt.
En frásögn Arngríms er 150 árum yngri en atburðurinn. Það er
ekki traustvekjandi og fáir sagnfræðingar tækju mark á slíku.1
Frásögnin um þess háttar samskipti munks og biskups er auðvit-
að ósennileg. Aftur á móti getur hún verið tilbúningur söguritara
löngu síðar til þess að skýra upphaf sanns eða meints ósamkomu-
lags Gunnlaugs munks og Guðmundar biskups. En verið getur að
hjá hinum lærðu benediktínum á Þingeyrum hafi geymst sú vitn-
eskja að Gunnlaugur hafi ritað eitthvað um Ambrósíus. Hér verð-
ur gert ráð fyrir að það hafi verið saga um Ambrósíus.2
Í Guðmundar sögu biskups er Ambrósíus nokkrum sinnum
nefndur. Í þremur tilvikum er um að ræða efni sem er í Ambrósí-
us sögu (Byskupa sögur III 1948:163, 202, 314–315, Heilagra
manna søgur I 1877:29, 46, 37–38). Arngrímur ábóti hefur haft
Ambrósíus sögu við höndina þegar hann ritaði Guðmundar sögu
biskups. Þetta segir þó ekki annað en að Ambrósíus saga hefur
verið til á Þingeyrum á 14. öld.
Tvennt getur bent til þess að Ambrósíus saga sé gömul.
(1) Í Þorláks sögu, Jarteinabók II, er sagt frá Úlfrúnu sem var í
einsetu á Þingeyrum. Í Jarteinabók II er tvisvar vitnað í Pál Jónsson,
Skálholtsbiskup 1195–1211, og nefndur er Gunnlaugur Leifsson (ÍF
XVI 2002:231, 234, 243–244). Jarteinabók II er gömul. Í frásögninni
katrín axelsdóttir340 skírnir
1 Lehmann og Bekker-Nielsen hafa tekið frásögnina um atburðinn á Hólum góða
og gilda, þrátt fyrir þennan gífurlega tímamun. Ef samsetning Gunnlaugs var
rímofficium eins og Bekker-Nielsen taldi, þ.e. tíðagerð í bundnu máli, hefur
Gunnlaugur búist við andsvari frá þeim sem í kirkjunni voru. Samkvæmt frá-
sögninni virðist það ólíklegt því hann ryðst þangað inn í óleyfi. – Ef trúnaður er
lagður á frásögnina er hugsanleg skýring sú að Gunnlaugur hafi ætlað að flytja
officium en inn í slíkt er skotið frásögnum af dýrlingum. Ef það hefur verið
raunin getur verið að Gunnlaugur hafi verið með Ambrósíus sögu og ætlað að
lesa úr henni. – Arngrímur ábóti hefði getað haft hugmyndina um ást Guð-
mundar biskups á Ambrósíusi úr bók. Það stendur í Guðmundar sögu biskups
hinni elstu, frá því um 1300 (Guðmundar sögur biskups I 1983:122). Þá var að
vísu liðin öld frá tíma Guðmundar biskups.
2 Auðvitað getur líka verið að Gunnlaugur hafi samið hvort tveggja, sögu um
Ambrósíus og officium.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:53 Page 340