Skírnir - 01.09.2005, Blaðsíða 189
vegi, óspillta náttúru, grjót og ís. Upphafsorð bókarinnar eru nánast yfir-
lýsing um háleitni: „Eftir því sem norðar dregur á Ströndum ágerist sú til-
finning að ferðinni sé heitið á hjara veraldar. Við þræðum vogskorna
strandlengjuna, hossumst eftir illfærum vegum fyrir þverhnípt nes og inn í
djúpa firði“ (9). Mikilvægi þessara orða felst ekki síst í því að ferðin hefst á
afskekktum vegi á Vestfjörðum. Sögumenn byrja ekki frásögnina í Reykja-
vík. Þetta raskar staðlaðri sýn höfuðborgarbúans sem lítur ekki aðeins á
Reykjavík sem höfuðborg landsins, heldur nafla þess. Utan höfuðborgar-
innar er landsbyggðin. Íslendingar skilgreina sig eftir þessu sem höfuð-
borgarbúa eða landsbyggðarfólk. Hringvegurinn, þjóðvegur eitt, byrjar og
endar í Reykjavík en þessi ferðasaga byrjar á Dröngum, fer hring sem síð-
an endar á Hrafnseyri. Höfuðborgin verður í bókinni aðeins huglægt tákn
um borg í mótsögn við sveit; huglægt öryggi sem sögumenn hverfa til eftir
að ferðinni út í hið villta frelsi er lokið. Sigurjón B. Hafsteinsson nefnir
frelsið sem „grundvöll þjóðarinnar“ í grein sinni „Fjallmyndin“:
Hugmyndin um frelsið er samgróin við víðáttur, í víðasta skilningi
þess orðs, og er ekki síst um eitthvað upphaflegt og tímalaust. Íslend-
ingar leita inn í heiðríkjuna, þar sem grundvöllur þjóðarinnar, frelsi
hennar, á sér rætur.9
Sigurjón telur einnig að ferðalag út í náttúruna sé eins konar andleg
hreinsun. Þá er náttúran skilgreind sem hrein á meðan borgin og þá
menningin er menguð.10 Þessi sýn á landið sem hreint og upphaflegt er
mjög rík í Íslendingum og sú sýn sem við berum á borð fyrir erlenda
ferðamenn. Hin fastmótaða landslagsmynd er tákn um þetta. Hin staðl-
aða leið til að sýna náttúru Íslands er gleiðmyndin; mikil fjallasýn og ör-
æfi, frelsið og hreinleiki.11 Þess konar landslagsmyndir eru yfirleitt laus-
ar við öll einkenni mannlegrar búsetu.
Inn í þetta sanna, hreina og tæra er sjálfsagt að tvinna fornar hetjur og
þjóðsögur sem styrkja þjóðernisvitundina, samanber orð Unnar sögu-
manns:
Þegar Íslendingar fara um landið sitt horfa þeir sjaldnast á náttúruna
hennar sjálfrar vegna heldur sjá þeir gjarnan sögur í tengslum við
hana. „Í þessum dal bjuggu forfeður mínir, langaamma þín fæddist
íslendingar 419skírnir
9 Sigurjón B. Hafsteinsson: „Fjallmyndin.“ Ímynd Íslands. Ritstj. Elín Bára
Magnúsdóttir og Úlfar Bragason. Reykjavík 1993, bls. 77.
10 Sigurjón B. Hafsteinsson: tilvitnað rit, bls. 75.
11 Sigurjón B. Hafsteinsson: tilvitnað rit, bls. 76–81.
Skírnir haust 05 RÉTTUR 23.11.2005 13:54 Page 419