Skírnir - 01.09.2015, Page 4
Frá rit stjór a
„Allur tími er samtími“, sagði skáldið T. S. Eliot og átti við að fortíðin væri lifandi
afl í samtímanum, yrði ekki slitin frá lífi okkar hér og nú. Ekki síst hlýtur kenning
Eliots að eiga við í heimi lista og menningar, þar sem viðfangsefnin eru gjarnan hafin
yfir tíma og rúm. Bókmenntir fyrri tíma geyma mikilsverðan lærdóm fyrir okkur sem
nú lifum og tala til okkar rétt eins og samtímabókmenntir. Egils saga Skalla-
grímssonar, sem Brynja Þorgeirsdóttir nálgast hér úr nokkuð óvæntri átt, er á sinn
hátt jafnmikil samtímasaga og Mánasteinn eftir samferðamann okkar, Sjón, sem
Dagný Kristjánsdóttir skrifar hér um fróðlega grein.
Tíminn verður líka áleitið umhugsunarefni í grein Kristínar Loftsdóttur út frá
verkum Ólafar Nordal sem hún byggir meðal annars á afsteypum sem gerðar voru
á Íslendingum á 19. öld, þar sem við sögu koma meðal annars hugmyndir um
kynþætti, nýlendur, hlutgervingar og þjóðir. Alþjóðleg mannréttindi eru líka hafin
yfir tíma, eins og fram kemur í fróðlegri grein Atla Harðarsonar heimspekings, og
sífellt til umfjöllunar eins og íslensk tunga sem Kristján Árnason prófessor skrifar hér
grein um hvernig staðið er að kennslu í íslenskum fræðum nú á dögum og veltir upp
ýmsum álitamálum í því sambandi.
Grein Svans Kristjánssonar um forsetaferil Ólafs Ragnars Grímssonar er hins
vegar kyrfilega merkt árunum 2008–2012, fjórða kjörtímabili Ólafs Ragnars og
trúlega því umdeildasta.
Enginn er spámaður í sínu föðurlandi er stundum sagt og mætti heimfæra upp
á guðfræðinginn Magnús Eiríksson (1806–1881) frá Skinnalóni sem ávallt var nefnd -
ur Magnús frater í hópi Íslendinga í Kaupmannahöfn þar sem hann dvaldi alla sína
fullorðinsævi. Í þessu hefti er fróðleg grein Vilhjálms Árnasonar og Jóns Braga
Pálssonar um viðtökur verka þessa sérlundaða og prinsippfasta kennimanns sem
nýtur sífellt meiri athygli fræðimanna. Einn þeirra er þýski prófessorinn Gerhard
Schreiber sem skrifaði grein um Magnús í Skírni á síðasta ári og hefur tekið saman
ritaskrá hans sem hér birtist. Frá svipuðum tíma er sú merkilega kennslubók þeirra
Stefánunga í reikningi sem Kristín Bjarnadóttir skrifar hér um.
Einar Benediktsson skáld hefur nú verið færður á stall við sitt gamla heimili
Höfða, og fer vel á því að hann kasti sínu hvassa augnaráði yfir íslenska fjár-
málahverfið. Í tilefni af því kemur hér í fyrsta sinn fyrir almenningssjónir merkileg
ljósmynd Óskars Gíslasonar af skáldinu, ásamt ljóðinu Skáld í Höfða eftir Sverri
Kristinsson. Opnunarljóð Skírnis eru að þessu sinni eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur
skáldkonu.
Í Myndlistarþættinum skrifar Hallgrímur Helgason um ungan málara, Ragnar
Þórisson, sem vakið hefur mikla athygli fyrir olíumálverk sín.
Páll Valsson
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 304