Skírnir - 01.09.2015, Page 64
Þá eru margar heimildir um að lækningar byggðar á vessakenn-
ingunni hafi verið stundaðar hér á landi. Blóðtökur voru stundaðar
á Íslandi frá því snemma á 12. öld að því er Jón Steffensen (1990:
167) greinir frá, og vel fram á 19. öld samkvæmt Jónasi Jónassyni
(1934: 316). Hrafns saga Sveinbjarnarsonar hin sérstaka segir frá
því að Hrafn hafi stundað bæði blóðtökur og brennslur eða svo-
kallaðar vilsuveitur. Hrafn tók meðal annars æðablóð úr konu er
hafði „mikið hugarvolað“ og brenndi mann í höfði „er tók vitfirr-
ing“ (Hrafns saga Sveinbjarnarsonar hin sérstaka 2010: 888). Sam-
kvæmt Jóni Steffensen (1990: 178) fólst vilsuveita í því að mynda
vilsandi sár með glóandi járni og viðhalda því eins lengi og þurfti.
Í Fóst bræðra sögu er vísað í vessakenninguna. Það gerist þegar
þrællinn Loðinn kveður níðvísu um lagskonu sína Sigríði, en
honum þótti hún dvelja um of í skemmu með öðrum karlmönnum
á kvöldin. Sigríður reiddist og í kjölfarið segir í texta Flateyjar-
bókar: „… reiði hvers manns er í galli en líf í hjarta, minni í heila,
metnaður í lungum, hlátur í milti, lystisemi í lifur“ (Fóstbræðra saga
1985: 820).
Á sama tíma og þýðing Konstantíns á kaflanum í Viaticum um
ástsýki var að ná útbreiðslu blómstraði hirðást í bókmenntum
aðalsins í vesturhluta Evrópu þar sem ástríðufull ást var útfærð í
ótal myndum í ljóðsögum og riddarasögum. Á þessum tíma, seinni
hluta 12. aldar, urðu til meginverk áhrifamikilla frumkvöðla þess-
ara bókmennta, svo sem riddarasögur um hirð Artúrs konungs eftir
Chrétien de Troyes, ljóðsögur Marie de France og Tristran eftir
Thomas de Bretagne. Rétt er að hafa í huga það sem hér hefur verið
sagt um að ástsýki kom til sögunnar, bæði í bókmenntum og lækn-
isfræðitextum, löngu áður en skrifað var um hirðástir á 12. öld.
Þetta tvennt átti hinsvegar ákaflega vel saman og má segja að ein-
kenni ástsýki verði að frásagnarbragði (e. literary device) tengdu
hirðást í þessum og fleiri riddarasögum og ljóðsögum. Og það er
einnig rétt að gefa því gaum að þessar sögur voru þýddar á norrænu
á 13. öld — eins og Sif Ríkharðsdóttir (2015: 2) hefur meðal annarra
bent á voru þýðingarnar endurritaðar og lesnar á Íslandi samhliða
ritun og lestri Íslendingasagna og frumsamdra riddarasagna.
364 brynja þorgeirsdóttir skírnir
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 364