Skírnir - 01.09.2015, Page 73
373elskhuginn ástsjúki
Mýrum — en tekið er fram að enginn um borð þekki til á Íslandi.
Þau ber fyrst að landinu sunnanverðu en vindar bera þau yfir í
Borgarfjörð: „… gekk þá veður á land og bar þá vestur fyrir landið“
(Egils saga 1985: 408, 33 k.). Það er líkt og afl þeim sterkara í formi
vinds og náttúru ráði því að þau hafna einmitt að Borg. Lýsingarnar
á siglingunni eru frá afar óvenjulegu sjónarhorni hins ókunnuga sem
undrar sig á landslaginu. Á leið sinni ná þau hvergi að taka land
vegna boða og hafnleysa allt þar til Borgarfjörður opnast fyrir þeim.
Lýst er skerjum og brimi, nesi, ey, (Brákar)sundi — og þetta töfrum
líka ferðalag endar þegar þau koma að vík þar sem upp af „stóð borg
mikil“. Ferðin endar með þessari svipmiklu mynd af hinni ein-
kennandi klettaborg, þar ganga foreldrar Ásgerðar á land. Í frá-
sögninni er líkt og allt Ísland sé þeim lokað nema Borg í Borgarfirði.
Þetta er afdrifarík og mögnuð innreið Ásgerðar í móðurkviði inn í
líf Egils og Þórólfs og undirbyggir í frásögninni hvílíkur örlaga-
valdur hún reynist í lífi þeirra. Skalla-Grímur tekur við Birni og
Þóru og um sumarið fæðist Ásgerður. Þremur vetrum síðar nást
sættir við bróður Þóru og fjölskyldan býst til að snúa aftur heim til
Noregs. En þá vill Bera, kona Skalla-Gríms, að Ásgerður litla verði
eftir hjá þeim á Íslandi. Ásgerður elst því upp með Agli sem er á
svipuðum aldri og hún, en Þórólfur er líklega um tíu árum eldri.
Hliðstæður uppruna Ásgerðar við uppruna Tristrams í Trist-
rams sögu ok Ísöndar eru miklar14. Alls má greina átta samsvarandi
skírnir
14 Það virðist óumdeilt meðal fræðimanna að þýddar riddarasögur hafi haft áhrif á
Íslendingasögur en þó er nokkuð misjafnt hvað menn eiga við þegar þeir tala um
þessi áhrif. Er sjónum meðal annars beint að ákveðnu orðfæri, endurteknum
minnum, afmörkuðum frásagnarþáttum og stíl eins og flúri og ýkjustíl, svo
nokkuð sé nefnt. Sverrir Tómasson (1993: 87) hefur bent á áhrif riddarasagna á
lýsingar í Laxdælu á siðvenjum, klæðum og vopnum. Bergljót S. Kristjánsdóttir
(2010: xiii) tengir Laxdælu við Tristrams sögu ok Ísöndar í gegnum minnið um
elskendurna sem ná ekki saman en sameinast þó. Paul Schach (1969: 83–84)
nefnir Tristrams sögu sérstaklega sem þýðingarmikinn áhrifavald á stíl og efni
norrænna bókmennta á tímum Íslendingasagna. Bjarni Einarsson (1961: 163)
taldi minni Kormáks sögu komið frá riddarasögu um Tristan, Kormákur væri
„Tristan Íslands“. Tristrams saga ok Ísöndar er raunar mjög oft nefnd þegar
meint áhrif riddarasagna á Íslendingasögur eru rakin, til dæmis eru bæði Paul
Schach (1969: 128) og Geraldine Barnes (2012: 73) meðal þeirra sem hafa rakið
hugsanleg tengsl hennar við frásagnarþætti í Grettis sögu.
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 373