Skírnir - 01.09.2015, Page 79
379elskhuginn ástsjúki
síðasta skipið sem Egill getur farið með frá Íslandi. Þetta er hinsvegar
það skip sem Ásgerður fer með, og ekki bara í heimsókn til föður
síns heldur í ferð sem Egill veit að mun enda með hjónabandi þeirra
Þórólfs. Má lesa viðbrögð Egils, óveðrið, nóttina, myrkrið, skemmd-
ar verkin og hótanirnar sem endurspeglun á örvæntingu hans vegna
þess að bróðir hans ætlar sér að taka Ásgerði frá honum? Hægt er
að líta svo á að æðisgengnar aðgerðir Egils undirstriki sterkar til-
finningar hans og þrá eftir Ásgerði sem aldrei er þó nefnd. Þær
minna á brjálsemi Dídóar í Eneasarkviðu, þegar Eneas gengur henni
úr greipum, og viðbrögð fleiri ástsjúkra persóna í forngrískum og
latneskum bókmenntum. Þær minna líka á vitfirringu Yvains þegar
hann telur ástkonu sína glataða. Þá eru svo ofsafengnar tilfinninga-
sveiflur í tengslum við ást greinilegt merki um ástsýki í læknis -
fræðitextum miðalda eins og við höfum séð (Beecher og Ciavolella
1990: 82; Wack 1990: 63).
Ef þetta væri eina dæmið í Egils sögu sem hægt væri að nefna
sem dregur dám af táknkerfi ástsýkinnar væri það lítil stoð þeirri
túlkun sem hér fer fram. Með hliðsjón af ástsýkiþræðinum í upp-
runasögu Ásgerðar og fleiri þáttum, sem birtast eftir því sem verk-
inu vindur fram, bætast stoðirnar hinsvegar við og dæmunum
fjölgar.
Brúðkaupsveislan blóðuga
Hverfum þá að næsta atburði í ástarsögu Egils. Þegar til Noregs er
komið biður Þórólfur umsvifalaust um hönd Ásgerðar og fær
hennar, en tekið er fram að „heldur var fátt með þeim bræðrum“
(Egils saga 1985: 417, 41 k.). Daginn sem Þórólfur ætlar að kvænast
konunni sem Egill elskar, verður sá síðarnefndi hreinlega veikur.
Fyrr hefur verið rakið hvernig einkenni ástsýkinnar gátu verið
magnleysi og þróttleysi ásamt dapurlegum hugsunum. Líkaminn
gat orðið mjög veikburða og útlitið veikindalegt, sokkin augu og
baugar. Á stefnudegi þegar Þórólfur ætlar að leggja af stað í eigið
brúðkaup „tók Egill sótt svo að hann var eigi fær“ (Egils saga 1985:
418, 42 k.). Með þessari mynd og ábendingunni um að kuldi ríki í
samskiptum þeirra bræðra er lesanda gefið skýrt merki um hvaða
skírnir
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 379