Skírnir - 01.09.2015, Page 83
383elskhuginn ástsjúki
brugðið upp mynd af dapurlegri ásjónu Egils sem stingur nefinu í
feld þegar hann hugsar um konuna. Í þessari frásögn allri birtist
ástsýki Egils með hvað skýrustum hætti. Einkennin eru áberandi
og tengjast beinr tilfinningum hans til konunnar. Það er hér sem
lesandinn áttar sig á því að Egill hefur líklega elskað Ásgerði allt frá
unglingsaldri. Hér má segja að hápunkti ástsýki Egils sé náð. Hann
fer með aðra vísu þar sem hann trúir Arinbirni fyrir því að konan
sem um ræðir sé frænka hans, Ásgerður. Hann biður um fulltingi
hans til að fá hennar og því lýkur svo að Egill fastnar sér Ásgerði,
reyndar við nokkuð dræmar undirtektir hennar. En við þetta lækn -
ast Egill af einkennum ástsýkinnar enda var besta lækningin talin
sú að fá konunnar sem sýkin beindist að (Beecher og Ciavolella: 69,
186; Wack 1990: 68), „[v]ar hann þá allkátur það er eftir var vetrar-
ins“ (Egils saga 1985: 441, 56 k.).
Hjónabandið hefur mikil áhrif á atburðarás verksins, en stór -
átök vegna deilna um arf Ásgerðar stýra góðum hluta frásagnarinnar.
Egill gerir tilkall til eigna hennar í Noregi og lendir þá í miklum
átökum við Berg-Önund sem er kvæntur hálfsystur Ásgerðar. Ekki
er oft minnst á Ásgerði í seinni hluta verksins, en hægt er að skynja
hlýju í sambandi þeirra, meðal annars með viðbrögðum hennar við
svelti Egils. Eins og Eysteinn Þorvaldsson (1968: 24) hefur bent á er
hún í sögunni tiltekin fyrst þeirra sem hann færir Sonatorrek: „…
er lokið var kvæðinu þá færði hann það Ásgerði …“ (Egils saga
1985: 496, 79 k.). Ástarsögu þeirra Egils og Ásgerðar lýkur þegar
Egill er orðinn gamall maður: „Litlu eftir þetta andaðist Ásgerður.
Eftir það brá Egill búi og … fór þá suður til Mosfells til Gríms mágs
síns því að hann unni mest Þórdísi stjúpdóttur sinni þeirra manna
er þá voru á lífi“ (Egils saga 1985: 505, 82 k., skáletrun mín). Með
því að í málsgreininni er bein tenging skáletruðu orðanna við and-
lát Ásgerðar kemur berlega fram hversu heitt Egill unni konu sinni.
Þannig spannar ástarsaga Egils nærri allan þátt verksins sem segir af
honum og hans lífi.
Þegar litið er til baka á skemmdarverk Egils hina myrku
óveðursnótt að Borg þegar Þórólfur ætlaði að sigla á brott með Ás-
gerði sjáum við að atburðirnir þar falla haganlega inn í mynstur
ástsýkinnar og tilfinninga Egils í ástarsögu verksins. Hugmynda-
skírnir
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 383