Skírnir - 01.09.2015, Side 87
387elskhuginn ástsjúki
myndir segir hún höfund Eglu án vafa hafa þekkt, og líta megi á
verkið sem sögu af hinu íslenska primum caput sem standi jafn hátt
og höfuð norsku konungsfjölskyldunnar (Bergljót S. Kristjánsdóttir
1997: 91). Í ljósi þessa er vert að benda hér á mikilvægt atriði
varðandi byggingu sögunnar, en það er að höfuð Egils er miðdep-
ill þess hluta verksins sem fjallar um hann. Fyrstu 30 kaflar Egils
sögu fjalla um kynslóðina á undan Agli (afkomendur Kveld-Úlfs,
Þórólf og Skalla-Grím). Greint er frá fæðingu Egils og fyrstu
kvæðunum sem hann yrkir þriggja ára í kafla 31. Fimmtíu köflum
síðar, í kafla 80, er Egill orðinn gamall. Kaflinn hefst með orðunum
„Egill bjó að Borg langa ævi og varð maður gamall …“ (Egils saga
1985: 496, 80 k.). Sagt er að hann sé hættur málaferlum, hólm-
göngum og vígaferlum og fari ekki framar brott af Íslandi. Þar segir
líka að hann eigi nægt fé og hafi gott skaplyndi. Í þessum kafla yrkir
Egill sitt síðasta stóra kvæði, Arinbjarnarkviðu. Frásögnin af skáld-
inu Agli frá fæðingu hans að friðarstóli í ellinni er sem sagt tjóðruð
niður öðrum megin með fyrsta kvæðinu sem hann orti á barnsaldri
en hinum megin með síðasta stórvirki hans í skáldskap. Spannar
þetta 50 kafla, 31–80.17 Í miðju þessa, í kafla 55, er hin fræga lýsing
á höfði Egils, og fyrsta nákvæma lýsingin á útliti mannsins:
Egill var mikilleitur, ennibreiður, brúnamikill, nefið ekki langt en ákaflega
digurt, granstæðið vítt og langt, hakan breið furðulega og svo allt um kjálk-
ana, hálsdigur og herðimikill, svo að það bar frá því sem aðrir menn voru,
harðleitur og grimmlegur þá er hann var reiður. Hann var vel í vexti og
hverjum manni hærri, úlfgrátt hárið og þykkt og varð snemma sköllóttur.
En er hann sat, sem fyrr var ritað, þá hleypti hann annarri brúninni ofan á
kinnina en annarri upp í hárrætur. Egill var svarteygur og skolbrúnn. (Egils
saga 1985: 438, 55 k.)
skírnir
17 Varðandi túlkun á stöðu höfuðsins er fylgt kaflaskiptingu Egils sögu í útgáfu Svarts
á hvítu frá 1985, þar sem Arinbjarnarkviða er og efnisþáttur sem hefst svo „Egill
bjó að Borg langa ævi og varð maður gamall“ er tölusettur sem kafli númer 80. Túlk-
unin fæddist vegna samanburðar Torfa Tuliniusar á kaflaskiptingu fjögurra algeng-
ustu útgáfna Eglu sem sett er fram í Skáldinu í skriftinni (Torfi Tulinius 2004: 14–15).
Þar bendir Torfi á að munur sé milli útgáfna á því hvernig kaflar eru tölusettir frá
og með 56. kafla, en það fari eftir því hvernig fyllt hafi verið í eyður Möðruvallabókar.
Torfi birtir greinargóða töflu yfir kaflaskiptingarnar á bls. 15 í Skáldinu í skriftinni.
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 387