Skírnir - 01.09.2015, Page 140
skráning og flokkun einstaklinga hefur orðið æ dýrmætari verslun-
arvara eins og sjá má á þróun tækjabúnaðar til að hlusta og hljóðrita
samtöl í gegnum snjallsíma og safna þannig ýmsum upplýsingum
um einstaklinga („Facebook má skoða allt“ 2015; „Njósnað í gegn -
um snjallsímann“ 2015; „Sjónvarpið sem hlustar …“ 2015; „Snapc-
hat safnar miklum upplýsingum …“ 2014) sem þeir vita ekki
hvernig verða notaðar, af hverjum og til hvers, auk þess að vera
geymdar um ókomin ár („Stóri bróðir í snjallsímanum“ 2012). Not-
endur upplýsingaveita og snjallsíma verða ekki bara viðskiptavinir,
eins og Jón Ólafsson (2013) bloggari bendir á, heldur ákveðin vara
eða hlutur sem verið er að selja. Hið vökula auga vísindanna, sem
horfir á þöglar afsteypurnar á myndum Ólafar Nordal, hefur því
að sumu leyti vikið fyrir hinu vökula auga markaðarins þar sem allir
eru ekki bara mögulegt vísindaviðfang, bútað niður til rannsókna og
flokkunar, heldur möguleg vara á markaðstorgi.
Ljósmyndir Ólafar Nordal ná að gæða þessar afsteypur lífi og
sýna greinilega að hér voru raunverulegar manneskjur á ferð, með
líf sitt, drauma og þrár. Myndirnar kveikja þá tilfinningu að við
stöndum frammi fyrir hlutgervingu þessara einstaklinga, það sé í
raun búið að kljúfa þá niður í aðgreinanlegar einingar sem má mæla
og bera saman við aðrar einingar á öðrum tíma og í öðru rúmi. Sem
slíkar spyrja myndirnar áleitinna spurninga sem merkimiðar
kynþáttahyggju og annarra flokkana reyna oft að sópa yfir. Gerðu
þessir einstaklingar sér grein fyrir því hversu vel slíkar afsteypur
myndu geyma andlitsdrætti þeirra og líkama fyrir augu annarra,
ekki eingöngu augu samtímafólks heldur einnig komandi kynslóða?
Gerðu konurnar sér grein fyrir því að afsteypur af brjóstum þeirra
væru svo raunverulegar að manni finnist vera hægt að finna hitann
af holdi þeirra við það að seilast á bak við ljósmyndina?
Heimildir
Agamben, Giorgio. 1995. „We Refugees.“ Symposium 49 (2): 114–119.
Alloula, Malek. 1986. The Colonial Harem. Minnesota: University of Minnesota Press.
Bjarni Sæmundsson. 1937. Kennslubók í landafræði handa gagnfræðaskólum.
Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar.
440 kristín loftsdóttir skírnir
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 440