Tímarit Máls og menningar - 01.09.2013, Page 22
E l í n B j ö r k J ó h a n n s d ó t t i r
22 TMM 2013 · 3
Þegar móðirin hættir að elda undirstrikar það að borðhaldið sameinar ekki
fjölskylduna og móðirin tengist ekki aftur við hina nærandi fæðu fyrr en
dauðadómur föðurins nálgast.
Í gegnum bókina er móðirin andhverfa föðurins og hans mikla líkama.
Líkami móðurinnar er lítið sýndur á teikningunum; hún er ýmist hokin, með
krosslagða arma eða hulin á annan hátt. Á mörgum myndunum nær líkami
hennar bara upp á blaðsíðuna frá bringu og ekki sést votta fyrir kvenlegum
línum hjá henni. Birtingarmynd móðurinnar er andstæð þeirri sem birtist á
gamalli ljósmynd af foreldrunum
að dansa. Ljósmyndin á veggnum
er eina myndin af móðurinni þar
sem líkami hennar er áberandi.
Líkami föðurins á þessari sömu
mynd er bæði minni og minna
áberandi en þar sem hann birtist
klæddur jakkafötum yfir röndóttu
nærbuxurnar sem hann klæðist
einum fata þegar líður á söguna.
Þessi ljósmynd af foreldrunum
einsog þau voru sýnir að þau hafa
að vissu leyti skipt um hlutverk
þegar kemur að hinu líkamlega,
líkami móðurinnar er varla til
staðar en líkami föðurins í for-
grunni.
Hin persónan sem sýnir mót-
þróa gagnvart mannætuhættunni
er Berta bleika. Hún reynist vera
barn mannæta einsog systkinin. Berta hafði, einsog systkinin, reynt að láta
foreldra sína hætta mannátinu en þau höfðu meðal annars lagst á vinkonur
hennar. Fyrstu viðbrögð hennar við mannáti foreldranna voru að leggja
önnur börn í einelti. Ofbeldið sem hún beitir er afleiðing af ofbeldinu og
ógninni sem hún þarf sjálf að búa við. Síðan hætti hún „alveg að borða líka“
(bls. 118). Berta snýst gegn áti foreldra sinna með því að svelta sig.
Þessi viðbrögð Bertu eru ekki hungurverkfall heldur sjúkdómurinn lystar-
stol. Berta þróar með sér afbrigðilegt viðhorf og venjur þegar kemur að mat,
rétt eins og foreldrar hennar. Lystarstol hefur verið túlkað „út frá kenn-
ingum Freuds og álitin bein tengsl á milli lystarstols og kynhvatar kvenna.
[…] Sveltið er þá eins konar örþrifaráð stúlkunnar til að stemma stigu við
umbreytingu líkamans, afturkalla það að verða kona“ (Ragna Garðarsdóttir
1998:115). Á bak við lystarstolið er hræðsla við kynferði og þroska og það er
flóttaleið frá breytingum, líkamlegum sem andlegum, sem fylgja kynþrosk-
anum. Tenging lystarstols við mannátið er því einnig á því táknræna sviði